Breytingar hjá Evrópuútgerð Samherja

VAR BÚINN AÐ LOFA SJÁLFUM MÉR AÐ HÆTTA AÐ SOFA MEÐ FARSÍMANN Á NÁTTBORÐINU ÞEGAR ÉG YRÐI SEXTUGUR

-  Óskar Ævarsson hefur ákveðið að láta af störfum sem framkvæmdastjóri útgerðarsviðs Evrópuútgerðar Samherja.

Oskar_AevarssonÓskar Ævarsson er búinn að starfa með og vera í kringum þá Samherjafrændur Þorstein Má og Kristján í yfir 30 ár. Leiðir þeirra lágu fyrst saman í Slippnum í Njarðvík en Óskar hóf störf hjá Samherja í maí 1989 sem yfirvélstjóri á Hjalteyrinni EA310 og var síðan yfirvélstjóri á ýmsum skipum Samherja allt þar til hann kom í land árið 1997. Hann flutti til Grindavíkur og tók við rekstri Fiskimjöls & Lýsis, en það fyrirtæki var þá í eigu Samherja en rann síðar inn í Samherjasamstæðuna, meðan Óskar hafði yfirumsjón með rekstrinum. Árið 2006 lagði Óskar síðan land undir fót og flutti með fjölskylduna í nágrenni Cuxhaven í Þýskalandi, þar sem hann réð sig sem framkvæmdastjóra útgerðasviðs EU útgerðar Samherja. Þar hefur Óskar staðið í brúnni í nærri 14 ár og meðal annars haft yfirumsjón með nýsmíðaverkefnum á sama tíma og hann hefur verið vakinn og sofinn yfir daglegri útgerð skipa Samherja, sem eru gerð út undir mismundandi þjóðfánum Evrópusambandsríkja. 

 Oskar_Aevarsson_og_samstarfsmenn

Samstarfsmenn til margra ára. Frá vinstri: Graham Jones lögfræðingur, Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri Samherja, Haraldur Grétarsson framkvæmdastjóri DFFU, Óskar Ævarsson útgerðarstjóri DFFU, Kristján Vilhelmsson útgerðarstjóri Samherja.

,,Þetta eru búin að vera góð ár og í raun forréttindi að hafa fengið tækifæri til að taka þátt í ,,Samherjaævintýrinu,,.  Ég er búinn að starfa með þeim frændum nærri frá upphafi þegar að þeir hófu rekstur á Samherja og því verið svo heppinn að vera þátttakandi í þessu ævintýri með þeim ásamt mörgu öðru góðu fólki. Þessi tími hefur verið mjög skemmtilegur en líka mjög krefjandi og ég var búinn að lofa sjálfum mér og Andreu konu minni, sem hefur alltaf stutt mig 100% og gefið 100% svigrúm og skilning til að ég gæti sinnt þessu krefjandi starfi, að VIÐ myndum hætta að sofa með farsímann minn á náttborðinu þegar ég yrði sextugur“. 

Óskar er spurður: “Hvað tekur þá við hjá ykkur hjónum, heldur þú að konan verði ekki leið á þér?”
„Nei það held ég ekki, ég er svo skemmtilegur“ segir Óskar hlæjandi en við skulum sjá til, ef ég þekki þá Samherja frændur rétt týnist eitthvað til.“ segir Óskar brosandi.

Þorsteinn Már og Kristján þakka Óskari fyrir frábært og einstaklega farsælt samstarf í gegnum árin. 

 

Breytingar hjá Evrópuútgerð Samherja

DFFU, dótturfyrirtæki Samherja í Cuxhaven, sem veitir EU útgerð Samherja þjónustu, hefur gert eftirfarandi breytingar á starfsmannahaldinu.

Tveir starfsmenn koma til með að taka við yfirstjórn útgerðasviðs EU útgerðar Samherja af Óskari Ævarssyni sem hefur, eins og fyrr er getið, ákveðið að láta af störfum 01.08.2019.

Petur_Thor_ErlingssonPétur Þór Erlingsson hefur búið í nágrenni Cuxhaven frá árinu 2016 og verið aðstoðarmaður framkvæmdastjóra útgerðarsviðs EU útgerðar frá þeim tíma. Pétur er vélfræðingur og rafvirki að mennt ásamt því að hafa lokið véla- og rekstrariðnfræði frá Háskólanum í Reykjavík. 

 

 

Gudmundur_Oli_HilmissonSkrifstofunni í Cuxhaven berst liðstyrkur frá Akureyri, þar sem Guðmundur Óli Hilmisson hefur ákveðið að flytja til Cuxhaven með fjölskyldu sinni. Guðmundur hefur verið Gæðastjóri hjá Samherja frá árinu 2015  en mun hefja störf sem framkvæmdastjóri útgerðasviðs EU útgerðar Samherja við hlið Péturs Þórs. Guðmundur Óli er sjávarútvegsfræðingur frá Háskólanum á Akureyri.

 

 

Elisabet_Yr_SveinsdottirÍ september  á síðasta ári réð Elísabet Ýr Sveinsdóttir sig til EU útgerðar Samherja. Elísabet er Viðskiptafræðingur frá Bifröst og með meistaragráðu í Stjórnunarreikningsskilum og viðskiptagreind ( MABI - Management accounting and business intelligence) frá Háskólanum í Reykjavík.

Elísabet mun vinna við þróun kerfis þar sem rauntímagögn úr rekstri, veiðum, framleiðslu og sölu eru vistuð í lotur og að þannig verði hægt að bera saman kennitölur úr rekstri í rauntíma við sögulegar rekstrartölur. 

 

Samherji býður þau Elísabetu, Guðmund Óla og Pétur velkomin til starfa og hlakkar til að takast á við krefjandi verkefni með þeim á næstu misserum.