Afkoma Samherja og dótturfélaga góð árið 2015

Fréttatilkynning frá Samherja hf.

Helstu atriði:

  • Hagnaður Samherja rekstrarárið 2015 var 13,9 milljarðar króna.
  • Samtals greiddi Samherji 4,3 milljarða króna til opinberra aðila á Íslandi vegna reksturs ársins 2015.
  • Tekjuskattur starfsmanna nam að auki 2,2 milljörðum 
  • Rúmur helmingur af starfsemi Samherja samstæðunnar er erlendis.
  • Samherji og dótturfélög eru með rekstur í 12 löndum og samstæðan er gerð upp í átta myntum.
  • Skuldbindingar vegna fjárfestinga sem stofnað var til árið 2015 nema um 30 milljörðum.

Samherji hf. er eignarhaldsfélag um eignarhluti í dóttur- og hlutdeildarfélögum sem flest tengjast sjávarútvegi og vinnslu afurða hér á landi og erlendis. Rekstur útgerðar og fiskvinnslu á Íslandi er að mestu leyti í félögunum Samherji Ísland ehf. og Útgerðarfélag Akureyringa ehf. og rekstur fiskeldis er í Íslandsbleikju ehf. Starfsemi samstæðunnar er víða um heim, mest á Íslandi og í Evrópu, en einnig í Afríku og Kanada. Samstæðureikningur Samherja er settur fram í evrum. Í tilkynningunni eru fjárhæðir rekstrar umreiknaðar í íslenskar krónur miðað við meðalgengi ársins 2015 sem var 146,2 krónur á hverja evru.

Rekstur – Tekjur tæpir 84 milljarðar
Rekstrartekjur samstæðu Samherja voru tæpir 84 milljarðar króna árið 2015. Hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði nam 19,9 milljörðum króna, samanborið við 16,4 milljarða árið á undan. Afkoma af reglulegri starfsemi ársins 2015 var betri en árið á undan sem skýrist af góðri afkomu erlendrar starfsemi. Tekjur jukust á flestum sviðum, nettó fjármagnsgjöld án gengismunar voru mun lægri vegna minni skuldsetningar en á móti kom að gengismunur var óhagstæðari. Hagnaður fyrir tekjuskatt nam 17,4 milljörðum og að teknu tilliti til tekjuskatts var hagnaður ársins 13,9 milljarðar króna.

Traustur efnahagur
Í efnahagsreikningi eru eignir samstæðunnar í lok árs 2015 samtals 119 milljarðar króna. Heildarskuldir og skuldbindingar voru 36 milljarðar á sama tíma og bókfært eigið fé 83 milljarðar króna. Eiginfjárhlutfall samstæðunnar var 69,8% í árslok. Veltufjármunir námu 38
milljörðum og veltufjármunir umfram skuldir 2,5 milljörðum króna. Tillaga er um að arðgreiðsla til hluthafa nemi 10 % af hagnaði félagsins eða um 1,4 milljörðum króna.

Sjóðstreymi af rekstri notað til greiðslu lána og í nýjar fjárfestingar
Handbært fé samstæðunnar var í árslok 2015 um 19 milljarðar og hefur hækkað um 2 milljarða milli ára að teknu tilliti til gengisáhrifa. Handbært fé frá rekstri samstæðunnar á árinu 2015 var jákvætt um 13 milljarða og voru um 8,2 milljarðar nýttir til fjárfestinga og um 4 milljarðar til uppgreiðslu og afborgana langtímaskulda.

Fjárfestingar ársins námu um 8,2 milljörðum
Stærstu fjárfestingarnar á Íslandi voru vegna nýsmíði ísfiskskipa sem til stendur að afhenda á árinu 2017 og mikilla framkvæmda við uppbyggingu og tæknivæðingu fiskvinnslunnar á Akureyri. Erlendis voru helstu fjárfestingar í nýsmíði fyrir dótturfélög Samherja í Kanada og Þýskalandi en einnig hefur verið gengið frá samningum um nýsmíði tveggja skipa fyrir dótturfélög í Frakklandi og á Spáni. Sterkur efnahagur er nú nýttur til fjárfestinga í nýjum atvinnutækjum. Skuldbindingar vegna fjárfestinga næstu 18 mánuði nema nú um 30 milljörðum. Þetta eru fjárfestingar í nýsmíði skipa, landvinnslu bolfisks og fiskeldi.

„Það er nauðsynlegt fyrir félag sem hyggst búa starfsfólki sínu ásættanlegan aðbúnað og vinnuaðstöðu, bæði á sjó og landi, að fjárfesta í nýjum framleiðslutækjum. Skip eru umfangsmiklar fjárfestingar en það var löngu orðið tímabært að stíga þessi skref til endurnýjunar flotans og horfa með því til framtíðar.“ segir Þorsteinn Már Baldvinsson.

Misjöfn staða á mörkuðum
Staðan á þorskmörkuðum hefur verið góð og eftirspurn mikil samfara góðu verði. „Fyrirhuguð útganga Bretlands úr Evrópusambandinu mun hins vegar hafa neikvæð áhrif á afkomu okkar, að minnsta kosti til skamms tíma á meðan pundið er veikt. Stór hluti þorskafurða félagsins er seldur í Bretlandi. Staða uppsjávarmarkaða hefur verið mjög óviss vegna innflutningsbanns Rússa á íslenskar afurðir en einnig er ástandið ótraust bæði í Úkraínu og Nígeríu, sem eru mikilvægir markaðir okkar fyrir uppsjávarafurðir,“ segir Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja.

Nýsköpun verður að halda áfram
„Við erum stolt af því að vera virkir þátttakendur í þróun tækja og búnaðar á Íslandi með íslenskum iðnfyrirtækjum. Við lögðum af stað í stórt þróunarverkefni árið 2014 með tæknivæðingu og endurbyggingu landvinnslunnar á Akureyri. Að því komu fjölmörg iðnfyrirtæki á Íslandi ásamt starfsfólki Samherja. Unnið var að þróun flókinna ferla og í dag sjáum við fyrir endann á verkefninu. Með svona samstarfsverkefni hefur tekist að þróa enn frekar áhugaverða útflutningsvöru sem mun vonandi skila Íslandi og viðkomandi iðnfyrirtækjum ávinningi og framtíðar útflutningstekjum. Framundan eru mörg spennandi verkefni sem við hlökkum til að takast á við ekki síst fjölmargar nýjungar sem tengjast nýsmíðum okkar.“ segir Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja.

Gott ár að baki
Þorsteinn Már segir að reksturinn hafi gengið vel á flestum sviðum árið 2015. „Við náðum að gera mikil verðmæti úr þeim aflaheimildum sem sem við höfum yfir að ráða. Við erum stolt af því að starfa í sjávarútvegi og vinnum með fjölmörgum aðilum að því að gera íslenskan sjávarútveg enn betur í stakk búinn til að mæta þeim áskorunum sem blasa við.

Hræringar síðastliðið ár hafa sýnt fram á að það er ekki sjálfgefið að íslenskar sjávarafurðir hafi aðgang að mikilvægum markaðssvæðum.
Þokkalegur stöðugleiki, gott skipulag á veiðum og vinnslu, traust viðskiptasambönd sem byggst hafa upp á löngum tíma og gríðarleg reynsla starfsfólks sjávarútvegsfyrirtækja hafa orðið til þess að verkefnin hafa verið leyst farsællega.
Það er mikilvægt fyrir okkur sem þjóð í forystu í sjávarútvegi að gleyma ekki óskum viðskiptavina okkar. Þjónustan þarf að vera allt árið um kring og nauðsynlegt er að hægt sé að gera afhendingarsamninga langt fram í tímann. Þau viðbótarverðmæti sem hægt er að ná fram með þessum hætti sjást til að mynda vel á árangri Norðmanna í markaðssetningu á laxi.

Aðstæðurnar eru síbreytilegar í okkar rekstrarumhverfi en með góðu starfsfólki, dugnaði og áræði ætlum við aðlaga okkar rekstur og vera áfram í fremstu röð sjávarútvegsfyrirtækja í Evrópu,“ segir Þorsteinn Már.