Bréf til bankaráðs SÍ

Bankaráð Seðlabanka Íslands
Gylfi Magnússon, formaður
Þórunn Guðmundsdóttir, varaformaður
Bolli Héðinsson
Una María Óskarsdóttir
Sigurður Kári Kristjánsson
Jacqueline Clare Mallett
Frosti Sigurjónsson
 
Kalkofnsvegi 1
150 Reykjavík
 
 
Akureyri, 19. desember 2018
 
Þann 20. ágúst síðastliðinn sendi ég bréf á bankaráð þar sem óskað var eftir tilteknum upplýsingum. Var á það minnt að bankaráð hafði ekki, þrátt fyrir fögur fyrirheit, svarað fjölmörgum erindum Samherja árið 2017. Þann 14. september staðfesti formaður bankaráðs móttöku erindisins og tilkynnti að það yrði afgreitt síðar. Engin frekari viðbrögð hafa borist frá bankaráði. Viðbrögðin báru því keim af viðbrögðum varaformanna bankaráðs undanfarin tvö ár þar sem svar af þessu tagi þýddi í reynd afsvar, ekki var von á frekari svörum af hálfu bankaráðs. 
 
Í kjölfar dóms Hæstaréttar um ólögmæti stjórnvaldssektar sem seðlabankinn lagði á Samherja, óskaði forsætisráðherra þann 12. nóvember, eftir greinargerð frá bankaráði um meðferð bankans á Samherja og veitti til þess frest til 7. desember. Þann dag óskaði formaður bankaráðs eftir frekari fresti. Af fréttaflutningi mátti þó ráða að von væri á greinargerðinni fljótlega. Þann 17. desember birtist svo yfirlýsing á heimasíðu seðlabankans þar sem tilkynnt var um að greinargerðin frestaðist til nýs árs. 
 
Í millitíðinni fór seðlabankastjóri mikinn í fjölmiðlum þar sem hann hélt því enn og aftur fram að það væri lagaskylda hans að kæra bæði mig og Samherja til lögreglu. Hef ég birt opinberlega ýmis dæmi um kæruatriði sem sýna að bankanum var kunnugt um að ekki var brotum fyrir að fara. Að seðlabankastjóri hafi notað heimasíðu bankans til að birta yfirlýsingu og fara í viðtöl á öllum helstu fjölmiðlum landsins, gagngert til að ræða mál Samherja, hefur varla verið gert án samráðs og samþykki formanns bankaráðs. Virðist núverandi bankaráðsformaður því hafa dregið til baka ályktun fyrra bankaráðs um að seðlabankastjóri láti af opinberri umfjöllun.
Alyktun_bankarads_SI 
 
Framangreind ályktun virðist ekki eiga við lengur og seðlabankastjóri hefur óheft málfrelsi til að ræða einstök mál í fjölmiðlum, þá einkum mál Samherja.
 
Nú, þegar bankaráð hefur haft fimm vikur til að klára greinargerðina, og boðar nokkurra vikna töf til viðbótar, er ekki annað hægt en að velta fyrir sér hvort greinargerðin verði sama marki brennd og skýrsla Lagastofnunar sem gerð var fyrir bankaráð árið 2016. Þá hundsuðu starfsmenn seðlabankans Lagastofnun, komu sér undan samstarfi og að lokum sátu þeir á skýrslunni í tæpt hálft ár og breyttu áður en hún leit dagsins ljós. Ég tel víst að nú séu þeir sömu starfsmenn komnir í gerð greinargerðar bankaráðs. Slíkt hlýtur að draga mjög úr vægi og trúverðugleika greinargerðarinnar. 
 
Með bréfi þessu vil ég árétta að bankaráð hefur ekki enn svarað fjölmörgum erindum mínum, því elsta frá því í janúar 2017. Í ljósi fyrri reynslu lít ég svo á að svar bankaráðsformanns, dags. 14. september sl. hafi í reynd falið í sér að bankaráð hyggðist ekki svara erindum Samherja. Verður sú ákvörðun borin undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál, ásamt afgreiðslu bankaráðs á fyrri erindum undanfarin tvö ár.
 
Ég batt vonir við að eftir fund með bankaráði þann 27. nóvember sl. myndi málinu ljúka en ekki þyrfti að fara með það inn í sjöundu jól og áramót. Nú virðist formaður bankaráðs ætla að stýra málinu í þann farveg að bíða eftir hugsanlegu áliti umboðsmanns Alþingis í máli sem varðar ekki lyktir málsins á hendur Samherja, til þess að komast hjá því að taka sjálfur afstöðu til og afgreiða málið sjálfur. Eru það mér og starfsmönnum Samherja mikil vonbrigði að bankaráðsformaður hafi kosið að draga málið að ósynju. Er það nema von að manni detti í hug Kúba norðursins þegar hugsað er um stjórnsýslu seðlabankans í þessu máli, nú sem endra nær.
 
 
Virðingarfyllst, 
 
Þorsteinn Már Baldvinsson
Forstjóri Samherja