Til starfsmanna landvinnslu Samherja

Samherji hf. greiðir starfsfólki sínu í landi 378 þúsund króna launauppbót nú í desember, til viðbótar umsaminni 50 þúsund króna desemberuppbót. Samherji greiddi aukalega 72 þúsund krónur í orlofsuppbót til starfsmanna í maí og greiðir því 450 þúsund krónur á hvern starfsmann umfram kjarasamninga á árinu. Starfsmenn sem njóta þessarar launauppbótar nú eru tæplega 500 talsins.

Rekstur landvinnslu okkar gekk vel á árinu og starfsfólk hefur enn á ný skilað góðu verki.  Við erum að skila góðri vöru til okkar viðskiptavina á umsömdum tíma allt árið um kring. Viðskiptavinir okkar setja afhendingaröryggi og gæði sem forsendur langtíma viðskipta.

Það er ljóst að ástand á mörkuðum hefur þyngst verulega undanfarið og verð afurða er undir miklum þrýstingi. Á næstu misserum verða það hin fjölmörgu smáatriði sem að skipta meira máli. Við verðum stöðugt að halda áfram að bæta okkur og gera aðeins betur í dag en í gær. Það að geta gert aðeins betur er það sem á endanum mun skilja fyrirtækin að í samkeppninni um hylli neytenda.

Því miður hefur sjávarútvegurinn áfram þurft að eyða orku í deilur innanlands um atvinnugreinina, sem eru engum til framdráttar og er mál að linni.

Við erum stoltir og glaðir að geta umbunað starfsfólki okkar með þessum hætti nú.

Með kveðju

Þorsteinn Már Baldvinsson
Kristján Vilhelmsson

Myndir frá undirritun samkomulags um launauppbót. Þorsteinn Már Baldvinsson og Björn Snæbjörnsson formaður Einingar-Iðju ásamt stjórnendum Samherja, trúnaðarmönnum starfsmanna ÚA og Dalvíkur og varaformanni Einingar Iðju.

Launauppbot_Samherji_Eining-Idja

Launauppbot_samkomulag