Samherji greiðir starfsfólki í landi 300 þúsund króna launauppbót

Samherji hf. greiðir starfsfólki sínu í landi 300 þúsund króna launauppbót nú í desember, til viðbótar umsaminni 64 þúsund króna desemberuppbót. Samherji tvöfaldaði jafnframt orlofsuppbót starfsmanna í maí og greiðir því 360 þúsund krónur á hvern starfsmann umfram kjarasamninga á árinu. Starfsmenn sem njóta þessarar  launauppbótar nú eru um 450 talsins. Þeim fjölgaði um 150 á árinu við kaup Samherja  á Útgerðarfélagi Akureyringa.

 

”Rekstur félagsins hefur gengið vel og starfsmenn hafa skilað afburða góðu verki,” segir Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja. “Það er mjög ánægjulegt í ljósi þess að íslenskur sjávarútvegur er í harðri alþjóðlegri samkeppni á matvælamörkuðum. Til dæmis hafa þorskveiðiheimildir í Barentshafi aukist verulega að undanförnu og framleiðsla á laxi í Noregi og Chile vaxið mjög mikið en þetta eru þær tegundir sem landvinnsla okkar er í hvað mestri samkeppni við. Að auki er umræðan um sjávarútvegsmál á Íslandi mjög neikvæð í garð þeirra sem þar starfa og á sér ekki hliðstæðu hjá samkeppnisþjóðum okkar. Þessi umræða berst að sjálfsögðu út fyrir landsteinana og samkeppnisaðilar nota hana orðið gegn okkur á mörkuðunum. Við höfum því þurft að leggja enn harðar að okkur en áður til að verja stöðu okkar þar.”

Viðbótarverðmæti

Þorsteinn Már segir að erlendar verslunarkeðjur greiði fyrir afhendingaröryggi. Samherji hafi getað afhent góða vöru á réttum tíma allt árið um kring og það skili sér í viðbótarverðmætum til félagsins og þjóðarbúsins í heild. Það sýni að aldrei megi missa sjónar af þeim verðmætum sem liggja í markaðstarfinu. “Við erum stolt og glöð að vera í þeirri stöðu að geta umbunað starfsfólki okkar með þessum hætti nú,” segir hann.

Starfsmenn Samherja í landi, sem unnið hafa í fullu starfi í 12 mánuði eða lengur, fá 300 þúsund króna launauppbót. Þeir sem starfað hafa í 6-12 mánuði fá helming þeirrar upphæðar. Uppbótin verður greidd 15. desember nk.