Samherji kaupir Collins Seafood

Samherji hefur keypt markaðs- og dreifingarfyrirtækið Collins Seafood og tekið við rekstrinum frá 1. júlí. Collins Seafood er með höfuðstöðvar í Newton Aycliffe, Duram, suður af Newcastle í Englandi og er einnig með dreifingarstöð í Leeds.  Fyrirtækið selur og dreifir sjófrystum flökum í mið og norður Englandi til fjölda viðskiptavina sem eru aðallega „fish and chips“ veitingastaðir.

Collins Seafood var stofnað fyrir 35 árum síðan af Richard Collins sem mun eftir söluna áfram gegna hlutverki framkvæmdastjóra hjá fyrirtækinu og sjá um rekstur þess.  Velta fyrirtækisins á síðasta rekstrarári var rúmlega 60 milljónir punda og seldi það yfir 10.000 tonn af sjófrystum afurðum frá Noregi, Rússlandi, Íslandi, Færeyjum og víðar. Collins Seafood hefur til fjölda ára verið stór viðskiptavinur Samherja í Englandi. Hjá fyrirtækinu vinna rúmlega 30 manns á skrifstofu og við dreifingu. 

Seagold, sölufyrirtæki Samherja í Englandi, hefur í 21 ár séð um sölu og markaðssetningu afurða Samherja á breska markaðnum og mun áfram vinna náið með Collins Seafood að þeim verkefnum. Með kaupunum hefur Samherji styrkt stöðu sína enn fremur á þessum mikilvæga markaði fyrir þorsk og ýsu.

Collins_Seafood