Seðlabanki Íslands reiknar aftur vitlaust

Hugleiðing á fyrsta laugardegi ársins 2014

Kæru samstarfsmenn.

Við hjá Samherja fengum nú loks í hendur hluta rannsóknargagna Seðlabankans í máli hans á hendur okkur. Það er ekki laust við að okkur hafi brugðið við að skoða þá aðferðafræði og þá útreikninga sem þar eru viðhafðir. Ég, ásamt fleirum, höfum að undanförnu verið að fara í gegnum þau skjöl sem okkur voru afhent og langar mig aðeins að deila með ykkur nokkrum atriðum sem ég hef rekist á í þeim.

Seðlabanki Íslands rannsakaði útflutning Ice Fresh Seafood ehf. á tímabilinu 1. apríl 2009 til loka mars 2012. Félagið er útflutningsfyrirtæki Samherja og velti á þessu 36 mánaða tímabili um 96 milljörðum króna.

Þorsteinn Már er kærður af Seðlabanka Íslands sem stjórnarmaður í Ice Fresh Seafood vegna sölu á rúmum 5 tonnum af bleikju til dótturfélags Samherja í Þýskalandi og nemur fjárhæð hinna meintu brota rúmum 2 milljónum króna eða sem samsvarar 0,002% af veltu félagsins.

Í kæru Seðlabankans segir að brotið hafi viðgengist að staðaldri og yfir langt skeið. Af þeim 36 mánuðum sem til rannsóknar voru, var þetta langa skeið sem hin meintu brot eiga að hafa átt sér stað tæpir tveir mánuðir.

Til að búa til hið svokallaða undirverð leggur Seðlabanki Íslands að jöfnu sölureikninga með mismunandi söluskilmálum inn á ólík markaðssvæði. Þessir mismunandi skilmálar gera það að verkum að í öðru tilvikinu ber söluaðilinn allan kostnað upp að dyrum kaupanda, þar með talda tolla (DDP skilmálar), en í hinu tilvikinu er það kaupandinn sem ber þann kostnað (CIF skilmálar).

Þannig er kært fyrir sölu sem gaf samkvæmt útreikningum Seðlabankans 21% lægra verð til tengds aðila en sem í raun skilaði 1% hærra verði til Ice Fresh Seafood þegar fyrirtækið var búið að greiða öll þau gjöld sem því var skylt samkvæmt söluskilmálum. Í öllum tilfellum bar Seðlabankinn saman CIF verð til tengds aðila við DDP verð til ótengds aðila til að búa til svokallað undirverð.

Núna þegar ég sit hér og skrifa þetta á fyrsta laugardegi ársins, eru starfsmenn Ice Fresh Seafood að störfum við að ganga frá meðal annars 24 flugsendingum af þorski og bleikju sem fara eiga úr landi nú um helgina. Samtals er Ice Fresh Seafood að senda út 70 tonn af ferskum afurðum sem búið er að framleiða í landvinnslum Samherja þessa fyrstu daga ársins. Áætlað söluverðmæti eru rúmar 110 milljónir króna.

Það verð miðast þó við að engar tafir verði á flutningum og í janúarmánuði er það ekkert sjálfgefið, t.d. hefur Öxnadalsheiðin verið ófær á köflum nú í byrjun árs og einnig hefur óveður geysað á austurströnd Bandaríkjanna. Ef tafir verða og við þurfum að endursemja um verð, getur þá stjórnarmaður Ice Fresh Seafood átt von á kæru frá Seðlabanka Íslands vegna gjaldeyrisbrota vegna þess að hann hefur sýnt af sér saknæman eftirlitsskort? Það er vissara fyrir stjórnarmanninn að hann fylgist vel með veðurspánni hér á landi, í Bandaríkjunum, á Englandi og meginlandi Evrópu og geti séð fyrir um áhrif veðra og vinda á hugsanlegt söluverð afurða félagsins.

Síðan þetta mál hófst á hendur okkur hef ég í þrígang yfirfarið útreikninga frá Seðlabanka Íslands. Í öll skiptin hef ég orðið jafn gáttaður á þeim reiknikúnstum sem þar eru viðhafðar og að kært sé fyrir magn sem framleitt er á um 15 mínútum í landvinnslum félagsins.

Mig langaði með þessari hugleiðingu að gefa ykkur einhverja mynd af því sem við erum að yfirfara og fást við í tengslum við þennan málarekstur á hendur okkur. Þegar ég var ráðinn til Samherja átti ég ekki von á því að mikill hluti starfs míns í félaginu myndi fara í að yfirfara útreikninga frá Seðlabanka Íslands á fiskverði. Enn síður átti ég von á að komast að því að Seðlabanki Íslands reiknar í öll skiptin vitlaust.

Með kveðju og góðum óskum um farsælt nýtt ár.

Sigurður Ólason