Þungur áfellisdómur yfir stjórnendum Seðlabanka Íslands

- Höfðu í hótunum  við bankaráðið

Gardar_Gislason_logmadur
 Garðar Gíslason lögmaður

Í dag, 26. febrúar 2019, leit loks dagsins ljós greinargerð bankaráðs Seðlabanka Íslands til forsætisráðherra, Katrínar Jakobsdóttur, sem ráðherrann óskaði eftir 12. nóvember sl.

Í greinargerðinni kemur fram að seðlabankinn hefur ekki einungis beitt fyrirtæki og einstaklinga fordæmalausri og tilefnislausri valdníðslu heldur einnig freistað þess að beita sömu framgöngu gagnvart öðrum stjórnvöldum, Umboðsmanni Alþingis og nú síðast sjálfum forsætisráðherra. Þannig gerði bankinn tilraun til þess að koma í veg fyrir að bankaráðið svaraði bréfi forsætisráðherra með yfirlýsingum og hótunum um að þar væri um brot á trúnaði að ræða.

Bankaráðið og einstakir bankaráðsmenn sem skila sérstökum bókunum, fordæma harðlega með margvíslegum hætti og orðalagi framgöngu seðlabankans  í málefnum Samherja og annarra sem urðu fyrir barðinu á bankanum. Fjallað er um lítt dulda misbeitingu valds af hálfu stjórnenda seðlabankans og hversu langt þeir hafa gengið til að freista þess að viðhalda ólögmætum ákvörðunum sínum.

Hér að neðan má lesa nokkur ummæli úr bókunum og niðurstöðum bankaráðsins:

Tilefnislaus málarekstur og rangar sakargiftir

 „Um það er hins vegar ekki deilt í málinu að Samherji og dótturfélag þess hafi fært gjaldeyri til landsins umfram það sem skylt var. Bendir það eitt og sér til þess að hafi samstæðan ekki skilað öllum skilaskyldum gjaldeyri þá hafi það ekki verið gert í því augnamiði að safna upp gjaldeyri utan hafta. M.ö.o. er ekkert sem bendir til þess að Samherji hafi reynt að hagnast á höftunum með ólögmætum hætti, þ.e. muninum á gengi krónunnar innan og utan hafta.“

Bls. 10 í greinargerð

„Af fyrirliggjandi dómum Hæstaréttar verða ekki dregnar aðrar ályktanir en þær að ákvarðanir Seðlabanka íslands við framkvæmd gjaldeyriseftirlits hafi verið ólögmætar heilt yfir. Verður ekki séð af niðurstöðum Hæstaréttar íslands að dómstólar hafi að tekið undir sjónarmið Seðlabankans um lögmæti ákvarðana hans við framkvæmd gjaldeyriseftirlits.“

Úr bókun bankaráðsmannanna Þórunnar Guðmundsdóttur og Sigurðar Kára Kristjánssonar, bls. 37 í greinargerð

„Þær ályktanir sem meðal annars má draga af áliti umboðsmanns eru þær að Seðlabankinn hafi

tekið ákvörðun um að leggja stjórnvaldssekt á /.../ þrátt fyrir að hafa vitað eða mátt vita að sú ákvörðun skorti viðhlítandi lagastoð og að Seðlabankinn hefði síðar réttlætt þá ákvörðun sína með því að gera umboðsmanni Alþingis upp afstöðu til réttlætingar á gerðum bankans án þess að rétt væri með farið.

Í ljósi þess að sömu upplýsingar lágu fyrir þegar bankinn tók ákvörðun um að leggja sekt á Samherja hf., sama dag, hlýtur gagnrýni umboðsmanns einnig að eiga við um þá sektargerð og lögmæti hennar.“

Úr bókun bankaráðsmannanna Þórunnar Guðmundsdóttur og Sigurðar Kára Kristjánssonar, bls. 38 í greinargerð

„Við mat á stjórnsýslu Seðlabankans og vitneskju innan bankans um heimildir hans til þess að leggja á stjórnvaldssektir vegna brota á gjaldeyrisreglum er mikilvægt að haft sé í huga aðstjórnendur bankans vissu eða máttu vita, þegar á árinu 2014, bankann skorti viðhlítandi lagaheimildir til að beita fyrirtæki og einstaklinga stjórnvaldssektum.“

Úr bókun bankaráðsmannanna Þórunnar Guðmundsdóttur og Sigurðar Kára Kristjánssonar, bls. 39 í greinargerð

Misbeiting valds og fráleitir tilburðir stjórnenda bankans til að freista þess að viðhalda ólögmætum ákvörðunum sínum

„Það er rétt að í hruninu þurfi Seðlabanki íslands að takast á við fordæmalausar aðstæður, flókin ný verkefni sem bankinn hafði ekki áður tekist á við. Sú staðreynd breytir því hins vegar ekki að

ef stjórnvald misfer með vald sitt þá er réttmætt að það sæti ábyrgð og mistökin séu leiðrétt. Umboðsmaður Alþingis hefur sýnt fram á í áliti sínu frá 22. janúar 2019 að Seðlabankinn lagði stjórnvaldssekt á Samherja hf., þrátt fyrir að þá þegar hafi legið fyrr rökstuddar ábendingar ríkissaksóknara um að lagaheimild um slíka stjórnvaldssekt skorti. Að mínu mati eru það ekki haldbær rök hjá Seðlabanka að vísa þar til jafnræðisreglu, að ef eitt fyrirtæki væri sektað þá ætti

það sama að ganga yfir þau öll, því í millitíðinni hafði bankinn upplýsingar um að sú sektargerð stæðist ekki lög.

Það liggur í hlutarins eðli að ef stjórnvald misfer með vald sitt og beitir íþyngjandi refsingum þá þarf það stjórnvald að sæta ábyrgð vegna þess og um leið að rétta hlut þess sem brotið er á.“

Úr bókun bankaráðsmannsins Unu Maríu Óskarsdóttur, bls. 39 í greinargerð

„Við undirrituð teljum nauðsynlegt að að gera alvarlegar athugasemdir við framgöngu Seðlabankans í kjölfar þess að bankaráð hóf vinnu sína við að svara erindi forsætisráðherra frá 12. nóvember 2018.  Þær athugasemdir lúta að því að hinn 7. desember 2018 barst bankaráði minnisblað frá lögfræðiráðgjöf Seðlabanka íslands /.../.

Markmið minnisblaðsins er auðljóslega það að koma í veg fyrir að bankaráðið svari fyrirspurn forsætisráðherra með ábendingum um að geri bankaráðið það þá kunni það að hafa í för með sér brot gegn þagnarskyldu bankaráðsmanna.

Það hlýtur að teljast einsdæmi að opinber stofnun gangi jafn langt í því að reyna að koma í veg fyrir að yfirstjórn hennar, í þessu tilviki bankaráðið, svari fyrirspurnum þess ráðherra sem stofnunin heyrir undir í kjölfar niðurstöðu Hæstaréttar íslands um lögmæti stjórnvaldsákvarðana

hennar.

Verður ekki hjá því komist að gagnrýna Seðlabankann harðlega fyrir tilraunir hans til að koma í veg fyrir að þau svör verði veitt með þeim hætti sem fram kemur í minnisblaði hans.“

Úr bókun bankaráðsmannanna Þórunnar Guðmundsdóttur og Sigurðar Kára Kristjánssonar, bls. 34-36 í greinargerð

Greinargerð bankaráðsins er löng og all ítarleg og kallar á frekari greiningu af hálfu fyrirsvarsmanna félaga í samstæðu Samherja hf. varðandi viðbrögð samstæðunnar og næstu skref gagnvart Seðlabanka Íslands.

Samhliða hlýtur greinargerðin að kalla á viðbrögð af hálfu hins opinbera gagnvart stjórnendum Seðlabanka Íslands, enda ekki boðlegt að þeim sem falið er meðferð opinbers valds sé liðið að fara svo með það sem stjórnendur Seðlabanka Íslands gerðu og nánar er lýst í greinargerð bankaráðsins.

Garðar Gíslason
Lögmaður