40 ár frá því Akureyrin EA kom til heimahafnar úr sinni fyrstu veiðiferð

Akureyrin nýskveruð og fín í reynslusiglingu á Eyjafirði eftir breytingar í Slippstöðinni. Skipið hé…
Akureyrin nýskveruð og fín í reynslusiglingu á Eyjafirði eftir breytingar í Slippstöðinni. Skipið hélt svo á veiðar í prufutúr þann 24. nóvember 1983

Nákvæmlega fjörutíu ár eru í dag liðin frá því frystitogarinn Akureyrin EA 10 kom úr sinni fyrstu veiðiferð, 23. desember 1983.

Frændurnir Kristján Vilhelmsson, Þorsteinn Már Baldvinsson og Þorsteinn Vilhelmsson höfðu fyrr á árinu keypt nær allt hlutafé Samherja hf. í Grindavík, sem gerði út togarann Guðstein GK 140 og fluttu þeir frændur starfsemina til Akureyrar.

Guðsteinn GK kom til nýrrar heimahafnar 1. maí 1983 og var nafni skipsins breytt í Akureyrin EA 10.

Um sumarið og fram á haust var unnið hörðum höndum við breytingar og endurbætur á skipinu í Slippstöðinni á Akureyri. Akureyrin fór í prufutúr í lok nóvember og í desember var farin fyrsta veiðiferðin. Skipið kom til Akureyrar á Þorláksmessu, 23 desember, vegna jólafrís skipverja.

Akureyrin var afar farsælt skip og var ár eftir ár meðal þeirra skipa sem skiluðu mestu aflaverðmæti. Árið 2013 var gamla Akureyrin seld, eftir að hafa verið í eigu Samherja í þrjátíu ár.

Samherji hefur vaxið og dafnað á þessum fjörutíu árum og nú landa nokkur skip félagsins í viku hverri, enda vinnsluhús félagsins afkastamikil.

Í skjalasafni Samherja eru varðveitt skjöl er tilheyra fyrstu veiðiferðinni, svo sem tilkynning til bæjarfógetans á Akureyri um áhöfn skipsins og uppgjör vegna veiðiferðarinnar. Hásetahluturinn var kr. 34.935,67 auk orlofs kr. 3.556,96. 23.desember, Þorláksmessa, er því einn af mörgum merkisdögum í sögu Samherja.

Hér fyrir neðan eru nokkrar myndir frá þessum upphafsdögum Samherja.