Saga Akureyrinnar

1.maí árið 1983 sigldi Guðsteinn GK ( Akureyrin EA) inn Eyjafjörð og hófst þar með saga Samherja í eigu núverandi eigenda. Við minnumst þessara tímamóta með því að deila þessum skemmtilegu myndum og frásögnum af upphafsdögunum.

Í tilefni af 30 ára afmælinu árið 2013 var sett af stað vinna við að safna saman efni í sögu félagsins.  Hluti þess efnis var sýndur á myndasýningu sem sett var upp á árshátíð Samherja, á Glerártorgi á Akureyri og á Fiskideginum Mikla á Dalvík það ár. Það sem hér fer á eftir er hluti þeirrar sýningar.

“Saga Akureyrinnar EA”

 Samherji_Akureyrin_EA

 Guðsteinn siglir inn Eyjafjörð vorið 1983.

 

„Mái sagði okkur Balda frá þessu, að þeir ætluðu að kaupa togara. Balda fannst það vera of seint. Það var nú ekkert of bjart yfir togaraútgerðinni á þessum árum. Þeir voru náttúrulega með tvær hendur tómar. Það hefði verið gaman að sjá strákana þegar þeir voru að biðja um lánið fyrir þessu.“

Björg Finnbogadóttir

 

„Ég man alltaf hvað mér þótti athyglisvert þegar þeir Þorsteinar komu til mín á skrifstofuna. Þeir sögðu mér að þeir væru að spá í að kaupa Guðstein, sem þá hafði legið lengi í Hafnarfirði og breyta honum í frystitogara. Þetta var svosem ekki stórt, en þeir vildu fá lánsfjárloforð til að fjármagna það að Kristján gæti farið í að skoða skipið hátt og lágt. Þeir voru á þessum tímapunkti ekki búnir að ákveða neitt. Guðsteinn var náttúrulega búinn að liggja töluvert lengi og þeir vildu skoða hann vel áður en þeir færu með málið lengra. Þetta var á tíma þar sem mjög erfitt ástand var í sjávarútvegi og meðal annars stofnaður hlutafjársjóður til þess að reyna að bjarga sjávarútvegsfyrirtækjum.“

Gunnar Felixson, Tryggingamiðstöðinni

 Samherji_Akureyrin_EA

Eigendurnir þrír um borð í Guðsteini vorið 1983.

 

„Ég man alltaf eftir því þegar ég sagði upp hjá Óla Grenó á Stakfellinu, hann var ekki fúll en sagði: „Þetta eru mennirnir sem eiga að gera út.“ Hann vildi meina að skipstjórinn, vélstjórinn og verkfræðingurinn væri eitthvað sem gengi upp. Man alltaf eftir þessu, hann var mjög jákvæður, leist vel á þetta og hafði trú á þeim.“

Arngrímur Brynjólfsson, stýrimaður

 

Samherji_Akureyrin_EA Málin skeggrædd um borð í Guðsteini eftir komuna til Akureyrar vorið 1983.

 

„Hann lá í Hafnarfjarðarhöfn yfir veturinn og var byrjaður að ryðga. Það höfðu frosið í honum vatnsleiðslur og sprungið hér og þar. Svo voru rafmagnsleiðslur og töflur byrjaðar skemmast. Hann var líka búinn að eyðileggja öll landfestingartógin.“

Sigurður Sigurpálsson, vélstjóri

 

Samherji_Akureyrin_EA Skipstjórinn með blómvönd eftir komuna til Akureyrar vorið 1983.

„Áður en við sigldum norður höfðum við keypt okkur handónýtan gulan sendlabíl, það var varla að hann héngi saman. Ég man að við keyrðum suður í Grindavík að kvöldi til og sóttum allt bókhald gamla Samherja. Ég man ekki hvað maðurinn hét sem þarna var en hann var alveg svakalega feginn þegar hann losnaði við bókhaldið. Við komumst svo ekki nema upp á Keflavíkurveginn, þá sprakk hjá okkur. Við komum ekki í bæinn fyrr en seint um nóttina. Eitthvað þurftum við að ganga og húkka far; við vorum dekkjalausir.“

Þorsteinn Vilhelmsson

 

Samherji_Akureyrin_EA

Ágúst Aðalgeirsson við vinnu í lestinni á Guðsteini sumarið 1983.

 

„Ég stóð á bryggjunni þegar Guðsteinn var að leggjast að. Það var ekki mikill fjöldi fólks þarna en ég man sérstaklega eftir einum sem horfði á skipið, hristi hausinn þungbúinn og sagði: „Þessi útgerð á aldrei eftir að ganga.““

Ágúst Aðalgeirsson, verkstæði Samherja

 

Samherji_Akureyrin_EA Þorsteinn Vilhelmsson og Hrafn Ingvason við störf í lestinni á Guðsteini sumarið 1983.

 

„Skipið leit hálf illa út. Það er samt ekki rétt sem maður heyrði að það hafi verið rottugangur um borð, það varð ég aldrei var við. Við skárum allt af efra dekkinu, þegar það var búið fórum við á millidekkið og þar var allt hreinsað út. Svo var farið í lestina og við Steini Villa rifum þar allt niður. Við vorum með rafmangspúllara sem við notuðum til að rífa klæðninguna. Það var allt í tætlum á gólfinu og í eitt skiptið var Steini að vinna á hækkuninni aftast í lestinni, steig fram af henni og lenti ofan í brunni. Þá var ég alveg sannfærður um að hann væri orðinn ófrjór.  En það passaði svo reyndar ekki, hann átti krakka eftir þetta.“

Hrafn Ingvason, baadermaður

 

 Samherji_Akureyrin_EA

Akureyrin nýskveruð og fín í reynslusiglingu á Eyjafirði eftir breytingar í Slippstöðinni. Skipið hélt svo á veiðar í prufutúr þann 24. nóvember 1983.

 

„Guðsteinn leit ekki glæsilega út miðað við Kaldbak, umgengnin um borð hafði verið slæm, það var það fyrsta sem maður sá. En sjálft skipið leist mér ekki illa á. Maður hafði fylgst með þessum skipum, þau voru allt annarrar gerðar en Kaldbakur, átta metrum styttri og miklu lægri en gangmikil og toguðu vel.“

Þorsteinn Vilhelmsson

 

Samherji_Akureyrin_EAKristinn Pálsson bátsmaður að brasa afturí. Úr fyrsta túrnum í árslok 1983.

 

 Samherji_Akureyrin_EA

Jón Stefánsson háseti hengir á hausarann. Úr fyrsta túrnum.

 

 

Samherji_Akureyrin_EA Þórólfur Ingvarsson baadermaður á flökunarvélinni. Úr fyrstu veiðiferðinni.

 

„Ég fór til Gósa á Útgerðarfélaginu og var með honum á flökunarvélunum í þrjár vikur, það var allur skólinn sem ég fékk um baader vélarnar. En þetta var reyndar mjög góður skóli, það var fínt að vera hjá Gósa og hann setti mann vel inn í þessar vélar. Svo fórum við út og ég verð að viðurkenna að mér leist ekkert á þetta eftir fyrsta túrinn. Það var ólag á færiböndunum og við vorum eltandi fisk um allt dekk. Það voru staðnar endalausar frívaktir, við náðum ekki að frysta nema eitt tæki á vakt en samt allir á fullu. En við ræddum málin og leituðum lausna og það héldu allir áfram ótrauðir.  Það leið ekki langur tími þar til við vorum komnir upp í sex tæki á vakt, þetta voru bara byrjunarörðugleikar og fljótlega var þetta farið að ganga alveg ótrúlega vel.“

Þórólfur Ingvarsson, baadermaður

 

Samherji_Akureyrin_EAStrákarnir í snyrtingu. Í forgrunni stendur Sveinbjörn Hjörleifsson matsmaður, sennilega að skoða hvernig fiskurinn er að koma úr flökunarvélinni. Úr fyrsta túrnum.

 

Ég hafði unnið aðeins í frystihúsi þegar ég var unglingur og vissi að hverju ég gekk. En svo þegar farið var að skera á Ameríku þá urðum við náttúrulega alveg eins og asnar. Þá þurfti nú Simbi matsmaður stundum að brýna raustina og skamma okkur fyrir að gera þetta ekki nógu vel.“

Friðrik Árnason, háseti

 

Samherji_Akureyrin_EA Kristinn Pálsson bátsmáður og hásetarnir Heiðar Sigurbjörnsson og Jón Stefánsson æfa sig að pakka. Úr fyrstu veiðiferðinni.

 

 Samherji_Akureyrin_EA

Ásgrímur Sigurðsson háseti merkir kassa. Úr fyrstu veiðiferðinni.

 

„Það hefur margt breyst frá þessum tíma, pökkunin var til dæmis öðruvísi. Nú er pakkað í rúmlega níu kílóa öskjur, þrjár öskjur í kassa og það fer nánast allt í þá; ýsa, þorskur og fleira. Mig minnir að við höfum verið með tólf gerðir af umbúðum þegar við fórum fyrst.“

Arngrímur Brynjólfsson, stýrimaður

 

Samherji_Akureyrin_EA Knútur Eiðsson háseti í úrslættinum. Úr fyrstu veiðiferðinni.

 

Samherji_Akureyrin_EA Þorsteinn Vilhelmsson og Hreinn Pálmason vélstjóri mættir í úrsláttinn. Úr fyrsta túrnum í árslok 1983.

 

„Ég var á vakt um nóttina og strákarnir voru búnir að berjast allan daginn og nóttina í vinnslunni, tvö tonn í holi og þeir rétt réðu við þetta. Þá tekur Steini fimm tonna hol af þorski. Svo vaknar Arngrímur um morguninn með sínum mönnum og spyr: „Jæja, hvernig var þetta í nótt?“ „Þetta var bara fínt,“ segi ég. „Og hvað? Hvað vorum við að fiska?“ spyr hann. „Ja, það voru fimm tonn,“ segi ég. „Úfff...“ segir hann og kiknaði í öxlunum, það var bara eins og hann læki niður á borðið. Hann átti ekki von á þessu. Við vorum bara að fiska helling þarna í prufutúrnum og við vélstjórarnir strax komnir í úrslátt til að hjálpa strákunum, þeir réðu ekkert við þetta. Svo kom auðvitað hitt og þetta upp á, við fórum heim og slippurinn lagaði það sem þurfti.“ 

Sigurður Sigurpálsson, vélstjóri

 

Samherji_Akureyrin_EA

Síðasti spölurinn á heimstími eftir fyrsta túrinn. Steini skipstjóri hellir í glasið hjá Stinna bátsmanni.

 

Samherji_Akureyrin_EA Hásetarnir Þorsteinn Pálsson og Ásgrímur Sigurðsson skála á heimstíminu eftir fyrsta túrinn.

 

Samherji_Akureyrin_EA

Kokkurinn ánægður með karlana. Halldór Valur Þorsteinsson stendur fyrir aftan Heiðar Sigurbjörnsson og Kristján Vilhelmsson á heimstíminu eftir fyrsta túrinn.

 

Samherji_Akureyrin_EA

Arngrímur Brynjólfsson, Knútur Eiðsson og bræðurnir Hreinn og Pétur Pálmasynir fagna í borðsalnum á Akureyrinni á heimstími eftir fyrsta túrinn.

 

„Þessi prufutúr var ekki langur, kannski vika, en okkur þótti hann langur af því að það var ekkert sofið. En eftir fyrsta alvöru túrinn var komið í land á Þorláksmessukvöldi og maður fékk greidd 80% af áætluðum hlut, það var eitt af því sem hafði verið samið um, restin var gerð upp seinna. Maður hafði aldrei séð svona stóra upphæð.“

Baldvin Loftsson, vélstjóri

 

Samherji_Akureyrin_EA

Áhöfnin á Akureyrinni snemma árs 1984.

F.v.: Arngrímur Brynjólfsson, Ólafur Ingi Hermannsson, Jón Ívar Halldórsson, Páll Valdimarsson, Sveinbjörn Hjörleifsson, Sigurður Sigurpálsson, Konráð Alfreðsson, Guðmundur J. Halldórsson, Þorsteinn Pálsson, Oddur Árnason, Hreinn Pálmason, Þorsteinn Vilhelmsson, Hákon Þröstur Guðmundsson, Hrafn Ingvason, Friðrik Árnason, Halldór Valur Þorsteinsson, Knútur Eiðsson, Ásgrímur Sigurðsson, Kristinn Pálsson, Pétur Pálmason, Brynjólfur Jónsson, Heiðar Sigurbjörnsson, Kristján Viktor Kristjánsson og Þórólfur Ingvarsson.

 

Samherji_Akureyrin_EA

Útgerðarmaðurinn ungi stendur í hurðinni, sáttur með byrjunina og búinn að bjóða áhöfninni út að borða.

 

Samherji_Akureyrin_EA

Akureyrin á karfaveiðum árið 1984. Það er verið að hífa inn grandarana og þeir vita að það er mikið í. Arngrímur stýrimaður er kominn á dekkið að stjórna aðgerðum.

 

Samherji_Akureyrin_EA

Baldvin Loftsson vélstjóri og Guðlaugur Arason háseti eru klárir í vinnsluna á meðan Friðrik Árnason er kominn í ullarpeysuna að græja sig á dekkið.

 

Samherji_Akureyrin_EA

Búið að hífa og skipstjórinn er kominn upp á trollið...

 

„Ef maður skoðar líkan af þessum pólsku togurum sést að þeir eru mjög rýrir að aftan. Voru byggðir til gangs og byrja mjög framarlega að mjókka. Um leið voru þessi skip þung að aftan. Þegar kominn var afli í Akureyrina settist hún alveg á rassgatið, þá náði sjórinn upp í miðja skutrennu og maður sagði stundum að pokinn flyti inn fyrir; það hjálpaði ef maður lenti í stórum holum. En þetta gat verið erfitt ef togað var á lensi í leiðinlegum veðrum, ég tala nú ekki um ef maður var að hífa úr festum. Þá gat allt farið á kaf.“

Þorsteinn Vilhelmsson

 

Samherji_Akureyrin_EA

... og Steini Páls sker á þenslugjarðirnar...

 

Samherji_Akureyrin_EA

... og Knútur býr sig undir að leysa frá pokanum.

  

„Einu sinni í brælu var verið að hífa og við vorum komnir upp á dekk, þá kom svakaleg fylla inn að aftan. Það var ekkert hægt að gera, það var bara allt fullt af sjó. Það eina sem ég sá í stöðunni var að stökkva uppí gilsinn og vefja fótunum utan um hann líka. Hinir fóru allir á kaf í sjó á dekkinu en ég var bæði hróðugur og þurr þarna uppi.  En þá allt í einu sígur gilsinn niður og ég á kaf með hinum. Grimmi var uppi, hann liggur enn undir grun um að hafa losað um bremsuna. Hann hefur alla tíð neitað því.“

Knútur Eiðsson, háseti

 

Samherji_Akureyrin_EA

Á árshátíðum gerðu menn grín að sjálfum sér ...

 

Samherji_Akureyrin_EA

                               ... og öðrum.

 

„Eftir fyrsta veturinn okkar fórum við austur í Rósagarð á karfaveiðar. Þá vorum við að reyna að flaka karfann, hann var svo stór og góður, en var fyrir vikið erfiður í flökun. Það var mokveiði og þetta var alger þrældómur. Vélin var stór og flókin og það var endalaust að festast í henni. Þess utan, ég veit ég ekki hvort nokkur trúir því, var hún staðsett á löndunarlúgunni. Það varð að byrja á því að hífa hana í land þegar átti að landa. Við náðum nú samt að flaka svolítið af karfa og ég hef alltaf dáðst að körlunum mínum, hvað þeir sýndu þessu mikið umburðarlyndi.“

Þorsteinn Vilhelmsson

 

Samherji_Akureyrin_EA

Fulltrúi japanskra fiskkaupenda um borð í Akureyrinni vorið 1984. Karfaflökunin hafði ekki gengið sem skyldi og því var ráðist í að þróa nýjar aðferðir við vinnslu og pökkun í samráði við kaupendur.

 

Samherji_Akureyrin_EA

Það var oft mikið fiskerí, takmarkað pláss fyrir umbúðir og enginn þilfarskrani. Hér hafa strákarnir á gamla Vigra komið með nokkra kassa af umbúðum sumarið 1984.

 

Samherji_Akureyrin_EA

Stórt hol í flottrollið á Akureyrinni sumarið 1985.

 

„Þetta fór gjörsamlega upp fyrir stýrishús og aftur í skutrennu. Þetta var mjög stór og góður fiskur sem var unninn á 28 tímum. Þetta var síðasta holið í túrnum og það var skemmtilegt hvað þetta gekk hratt í gegn; gaman að enda túrinn svona.“

Heiðar Sigurbjörnsson, háseti

 

Samherji_Akureyrin_EA

Áhöfnin á Akureyrinni fagnar mettúr sumarið 1985.

Sitjandi fremst: Páll Valdimarsson, Konráð Alfreðsson, Brynjar Jacobsen, Brynjólfur Jónsson, Baldvin Loftsson, Hrafn Ingvason og Arngrímur Brynjólfsson.

Fyrir miðju: Hákon Þröstur Guðmundsson, Stefán Ingvason, Erling Ingvason, Kristján Frðriksson, Friðrik Árnason, Heiðar Sigurbjörnsson, Sveinbjörn Hjörleifsson, Jón Stefánsson, Jón Ívar Halldórsson og Heimir Tómasson.

Aftast: Hulda Árnadóttir, Oddur Árnason, Hreinn Pálmason, Inga Jóna Steingrímsdóttir, Steingrímur Einarsson, Jón Óskarsson, Birgir Örn Arnarson, Hörður Már Guðmundsson og Rúnar Jóhannsson.

 

„Þegar við vorum búnir að fara þrjá túra sagði Sæmundur á Útgerðarfélaginu að við værum komnir upp fyrir Sambandshúsin í afköstum í snyrtingu. Áhöfnin var samsett af úrvalsmönnum. Það var rígur á milli vakta, taldar allar pönnur á vaktinni og slegist um metið. Það var skilyrði að hver maður setti stafina sína á öskjurnar sem hann pakkaði í og menn gættu sín á því á að vera vandvirkir.“

Rúnar Jóhannsson, háseti

 

Samherji_Akureyrin_EAPétur Pálmason háseti bíður eftir að komast að í talstöðinni.

 

„Það var mikil samheldni meðal áhafnarinnar og ég held að það hafi að einhverju leyti verið vegna þess að við vorum að gera nýja hluti. Við vorum saman í þessu en áttum kannski ekki marga samherja í flotanum. Örvar var minni togari en Akureyrin og við vorum að gera meira en þeir, til dæmis flaka karfa og skera á Ameríku. Við vorum svolítið sér á báti og síðan voru það þessir löngu túrar. Á  hinum skipunum voru menn stundum búnir að fara tvo túra á meðan við fórum einn.  Það voru ekki komnir farsímar á þessum árum og oft biðröð í talstöðinni og við lentum stundum í því að bíða á eftir mönnum sem voru tiltölulega nýkomnir að heiman á meðan við vorum enn í sama túrnum.“

Baldvin Loftsson, vélstjóri

 

Samherji_Akureyrin_EA

Bolludagurinn haldinn hátíðlegur á miðunum 1985. Inga Jóna Steingrímsdóttir og Hulda Árnadóttir að leysa Val kokk af þennan túrinn.

 

„Einu sinni hurfu hrossabjúgu. Þau voru sannarlega til því Valur sagði mér það og ég sá það á nótunni frá honum líka, þau voru til. Ég sendi Odd og Steingrím hverja ferðina á fætur annarri niður í lest til að leita að þeim. Svo var  mér kennt um að þau hurfu af því að mér þættu þau ekki góð. Þetta komst ekki upp fyrr en löngu síðar. Arngrímur Brynjólfsson faldi þau. Það veit enginn hvað hann gerði við þau.“

Hulda Árnadóttir, matsveinn

 

Samherji_Akureyrin_EA

Afurðinni fylgt til kaupenda. Sveinbjörn Hjörleifsson, Guðmundur J. Halldórsson og Jón Óskarsson staddir í Bandaríkjunum 1988.

 

„Einu sinni vorum við á Akureyrinni sendir út til Englands. Þar vorum við látnir smakka blint bæði íslenskan fisk og norskan. Við áttum að smakka og segja hvor okkur þætti betri. Þetta var sem sagt gildra. Maður gat ekki annað en verið heiðarlegur og samkvæmur sjálfum sér. Ég fann það strax að annar fiskurinn var miklu vatnsmeiri og sagði bara strax að mér þætti hann verri. Við sögðum allir það sama. Það var norski fiskurinn. En þá var baunað á okkur að það væru ormar í fiskinum frá Íslandi. Ormar? Við höfðum aldrei pælt í því. Þarna voru Bretarnir farnir að hafa áhyggjur af ormum. Þeir spurðu okkur hvort við hefðum ekkert áhyggjur af því að norski fiskurinn væri alveg gjörsamlega ormalaus. Hákon Þröstur benti á að við værum ekkert að selja ormalausan fisk. Þá var það útrætt. En í kjölfarið fóru að koma kröfur, við þurftum að fara að pæla í ormunum og gæðunum á fiskinum. Þetta gerðist af sjálfu sér eftir því sem frystitogurunum fjölgaði, það fóru að vera fleiri um hituna og við gátum ekki selt bara hvað sem var. Það fóru að koma meiri kröfur og það varð að bregðast við þeim.“

Einar Ingi Einarsson, stýrimaður

 

Samherji_Akureyrin_EA

Siglt í gegnum ísspöng á Vestfjarðamiðum veturinn 1989. Fremst er Snæfellið frá Hrísey og svo Örvar frá Skagaströnd.

„Við fórum út frá Hafnarfirði og ég kastaði í hólfi í kantinum út af Breiðafirði. Fór svo inn á Torgið og lenti strax í mokveiði af lúðu. Við fórum út með hann fullan af olíu og eftir aðeins viku var hann orðinn svakalega þungur. Þá gerði brælu og ég viðurkenni að þá fór aðeins um mig.“

Arngrímur Brynjólfsson, stýrimaður

 

Samherji_Akureyrin_EA 

Þorsteinn Vilhelmsson er einstakt snyrtimenni og hér er ryksugan á lofti á landstími. Efst fyrir miðju er lítill sjónvarpsskjár sem sýndi svart/hvíta mynd af gangi mála á millidekkinu. Strákarnir voru í fyrstu ekki of hrifnir af þessum skjá og kölluðu hann Stöð 2. Rétt er að geta þess að hin eiginlega Stöð 2 hóf ekki útsendingar fyrr en tveimur árum síðar.

 

„Það var gott að vera með Steina og hann fiskaði mikið. En það gekk nú samt stundum á ýmsu. Það var viðargólf í brúnni á Akureyrinni og við vorum einu sinni á landleið. Ég var 2. stýrimaður í þessum túr og gleymi þessu aldrei. Jón Óskars var á stímvakt uppi og Steini var uppi líka. Hann gargar á mig og skipar mér að koma upp í brú. Það liggur eitthvað mjög illa á honum. „Hver andskotinn er í gangi hérna, hverskonar helvítis bón er þetta sem þið eruð að panta hérna?“ Ég spurði forviða: „Hvað er í gangi, um hvað ertu að tala, hvað eru þið að gera?“ Þá var Steini að láta Jón Óskars bóna gólfið í brúnni, það gerði hann vel og vandlega og það var ekki stætt þarna uppi. Það var ekkert verið að lesa leiðarvísinn á brúsanum, heldur brúsinn bara tekinn og sturtað úr honum á gólfið, þetta átti að verða alveg ægilega glerfínt. Sko, ég tók brúsann, rétti hann framan í Steina og sagði: „Steini, hvað stendur á brúsanum? Það stendur einn tappi í fulla fötu af vatni.“  Þeir höfðu næstum tæmt brúsann. Ég hef aldrei lent í öðru eins, það var ekki til bónleysir um borð í skipinu. Menn voru alla vaktina uppi með vasahnífa að skrapa bónið upp úr gólfinu, klukkutíma eftir klukkutíma. Vélstjórarnir voru að koma upp með allskonar vélar og drasl til þess að reyna að ná bóninu af gólfinu.“

Einar Ingi Einarsson, stýrimaður

 

Samherji_Akureyrin_EA

Mokveiði. Kristján Vilhelmsson á harðahlaupum eftir pokanum.

 

„Akureyrin var gangmikil og það hjálpaði stundum, en hún gat líka verið erfið. Dekkið uppi var var stutt og við þurftum að setja margar færur á trollið.  Svo fór þetta kannski allt út í einni bendu og ókláraðist oft á grandaraspilunum. Ég öfundaði þá stundum sem voru á lengri skipum eins og Kaldbak og Guðbjörgu, þeir voru miklu fljótari en við að afgreiða trollið. Það var líka á þessum tíma margt að breytast í veiðarfærunum, allt að lengjast og þyngjast. Við vorum að lengja grandarana og trollin voru að stækka. Til viðbótar þurftum við alltaf að slá niður takka til að taka frystinguna af á millidekkinu á meðan við vorum að hífa. Tækin gerðu ekki annað en viðhalda frostinu. Þess vegna var maður stundum að draga lengur til þess að trufla ekki vinnsluna of mikið, maður reyndi að láta þetta allt saman passa.“

Þorsteinn Vilhelmsson

 

Samherji_Akureyrin_EA

Steingrímur Einarsson háseti hengir á hausarann.

 

„Við vorum með tvo hausara, Baader 424 og íslenskan tveggja blaða hausara. Við gerðum svolítið grín að honum og kölluðum hann Máa. Ástæðan var sú að það var 5% betri nýting á hnakkastykkinu.“

Hrafn Ingvason, baadermaður

 

Samherji_Akureyrin_EA

Til margra ára var siglt með verðmætustu farmana á Sjómannadaginn. Þá stóð áhöfnin í ströngu aftur á dekki að grilla pylsur. Myndin er tekin um 1990.

 

Samherji_Akureyrin_EA

Kippur í sumarblíðu á Vestjarðamiðum um 1990. 

 

„Vélin snerist hægar í Akureyrinni en til dæmis Snæfellinu, næstum helmingi hægar. Stimplarnir voru sverir og slaglengdin löng. Þetta voru ákaflega traustar vélar. Þær voru upphaflega hannaðar og smíðaðar af Svisslendingum til þess að draga járnbrautarvagna í Ölpunum. Þeir höfðu þetta traust og þær voru dýrar í framleiðslu. Þessar vélar í skipin voru svo smíðaðar í Póllandi eins og skipin sjálf, ég hafði aldrei miklar áhyggjur af þessu. Maður bara fór yfir þetta allt, fann veiku punktana og vissi smám saman hvað var sterkt og stóð sig og hvað ekki. Svo treysti maður á það sem maður vissi að var í lagi.“

Sigurður Sigurpálsson, vélstjóri

 

Samherji_Akureyrin_EA

Aðalfundur hjá Mótherja, starfsmannafélagi Akureyrinnar.

Fremri röð f.v.: Jón Stefánsson, Arnar Þór Gunnarsson, Sigurður Rögnvaldsson, Brynjar Jacobsen og Guðmundur J. Halldórsson. Aftari röð f.v.: Ásgrímur Sigurðsson, Friðrik Árnason, Hreinn Pálmason og Heimir Tómasson.

 

Samherji_Akureyrin_EA

Áhöfnin í grálúðutúr vorið 1991.

Fremsta röð f.v.: Jón Óskarsson, Skúli Magnússon, Friðrik Árnason, Stefán Heimir Stefánsson, Stefán Ingvason, Stefán Ákason og Ásgrímur Sigurðsson.

Miðröð f.v.: Heimir Tómasson, Þorsteinn Jónsson, Hafþór Sigurgeirsson, Kristján Ísak Kristjánsson, Guðmundur Helgi Helgason og Þórhallur Jóhannsson.

Aftasta röð f.v.: Þorsteinn Vilhelmsson, Sigurður Rögnvaldsson, Unnar Arnórsson, Stefán Einarsson, Hreinn Pálmason, Steingrímur Einarsson, Brynjar Jacobsen, Hákon Þröstur Guðmundsson, Oddur Árnason, Brynjólfur Jónsson og Michael John Ryan.

 

Samherji_Akureyrin_EA

Ekki síðri liðsheild í landi. Hér á sér stað mikilvægur undirbúningur undir stórmót á sjómannadegi og ekki veitir af því slysahættan var umtalsverð. F.v.: Guðmundur J. Halldórsson, Stefán Ákason, Albert Gunnlaugsson, Vilhelm Már Þorsteinsson, Þórhallur Jóhannsson, Samúel Björnsson, Hafþór Sigurgeirsson, Brynjar Jacobsen og Ásgrímur Sigurðsson.

 

Samherji_Akureyrin_EA

Árið 1992 fór stór hluti áhafnarinnar yfir á nýsmíðaðan Baldvin Þorsteinsson. Akureyrin fékk einkennisstafina EA 110 og áhöfnin á Margréti tók við skipinu. Myndin er tekin úr Baldvini Þorsteinssyni og sjást skipverjar ferja varahluti yfir í gamla skipið sitt.

 

Samherji_Akureyrin_EA

Haustið 1994 var Akureyrin send til Póllands í lengingu og margvíslegar endurbætur voru gerðar á skipinu.

 

Samherji_Akureyrin_EA

Akureyrin var skorin í sundur og lengd um ríflega 10 metra.

 

Samherji_Akureyrin_EA

Að loknum endurbótum í Póllandi var Akureyrin tilbúin á veiðar vorið 1995. Framundan biðu hennar fjölbreyttari verkefni en áður, til dæmis úthafskarfaveiðar á Reykjaneshrygg og bolfiskveiðar á fjarlægum miðum.

 

Samherji_Akureyrin_EA

Árið 2002 var Akureyrin seld skosku dótturfélagi Samherja og fékk nafið Norma Mary A 110. Skipið stundaði næstu árin veiðar við Grænland og í Barentshafi. Akureyrin hafði dugað vel, á nítján árum aflaði skipið tæplega hundrað þúsund tonn upp úr sjó eða að jafnaði vel ríflega fimm þúsund tonn á ári. Myndin er tekin af skipinu á siglingu inn Eyjafjörð vorið 2005.

 

Samherji_Akureyrin_EA

Oddur Árnason háseti um borð í Akureyrinni í desember 1983.

 

Oddur Árnason háseti starfaði á Akureyrinni frá upphafi og þar til Baldvin Þorsteinsson kom nýr til landsins. Eftir að Oddur var farinn að hægja á sér í sjómennskunni fór hann tvær veiðiferðir á Normu Mary. Þarna var Oddur kominn um borð í sitt gamla skip sem hann hóf störf á liðlega tuttugu árum áður og margt hafði breyst frá því hann var þar síðast. Eitt af verkefnum Odds var að aðlagast nýjum siðum til sjós; verkefni fjölmargra skipverja hjá Samherja í seinni tíð. Eftirfarandi eru færslur úr dagbókum Odds frá þessum tíma:

„Þá er ég lagður af stað í Barentshafið. Fór frá Akureyri kl. 9:00 með flugi til Reykjavíkur. Síðan frá Keflavíkurflugvelli til London, þaðan til Lübeck í Þýskalandi og svo með rútu til Bremen þar sem Norma Mary lá, nýkomin úr slipp.“

„Flestir um borð eru Englendingar og Skotar, að auki er einn Svíi, þrír Rússar og þrír Lettar, einn Portúgali og sex Íslendingar. Eftir matinn lögðu allir sig og byrjuðu vaktir ekki fyrr en klukkan 18:00 um kvöldið. Margt er öðruvísi en hjá okkur íslensku sjómönnunum, hér þvær hver maður diskinn sinn og hnífapör þegar hann er búinn að borða. Kaffið er Neskaffi og alltaf til heitt vatn.“

„Ég hélt ég myndi leggja af í túrnum en maturinn er mjög góður og svo eru breyttar matarvenjur. Á morgnana er alltaf stórmáltíð; beikon, egg, kjötbollur, pylsur og meðlæti. Í hádeginu borða ég ekkert, en svo kemur önnur stórmáltíð um kvöldið, alltaf tvíréttað.“

Úr dagbókum Odds Árnasonar, háseta


 Samherji_Akureyrin_EA

Norma Mary var seld Kötlu Seafood árið 2008 og breytt í þjónustuskip. Skipið fékk nafnið Rey og hafði það hlutverk að ferja áhafnir, búnað og vistir til verksmiðjuskipanna á miðunum undan ströndum Afríku. Margir fyrrum skipverjar á Akureyrinni fengu far með sínu gamla skipi á þeim slóðum.

 

 Samherji_Akureyrin_EA

Árið 2013 var gamla Akureyrin seld eftir farsæl þrjátíu ár. Þorsteinn Már Baldvinsson kvaddi skipið á Kanaríeyjum og var hugsi: „Skip verða að hafa hlutverk.“

 

 Atli Hafþórsson tók saman árið 2013

 

Kærar þakkir til viðmælendanna

og eftirfarandi eigenda ljósmynda

Arngrímur Brynjólfsson

Björg Finnbogadóttir

Einar Ingi Einarsson

Heiðar Marteinsson

Jóhann S. Jónsson

Oddur Árnason

Rúnar Jóhannsson

Samherji

Þorgeir Baldursson

Þórólfur Ingvarsson