Starfsmenn

Starfsmannastefna Samherja 

Stjórnendur Samherja vita að árangur í rekstri fyrirtækisins byggist öðru fremur á þekkingu og metnaði starfsfólks. Þess vegna vinnur fyrirtækið að því að efla starfshæfni einstaklinga og hvetja þá til að nýta eigin áhuga og frumkvæði til þroska og persónulegra framfara.  Samherji byggir rekstur sinn og starfmannastefnu á þremur eftirtöldum atriðum, auk þess að leggja áherslu á jafnrétti, símenntun, endurmenntun, gæða-, öryggis- og umhverfismál.

* Samherji leitast við að ráða til sín og hafa í sínum röðum framúrskarandi starfsfólk og efla það í störfum sínum.
* Til að stuðla að vexti og arðsemi Samherja er áhersla lögð á skemmtilegan vinnustað, starfsánægju og gott starfsumhverfi.
* Það er viðhorf stjórnenda Samherja að það sé starfsfólkið, metnaður þess, kraftur og hollusta sem er lykillinn að farsælum rekstri fyrirtækisins.

Jafnréttismál

Samherji Ísland ehf. hefur hlotið jafnlaunavottun sem staðfestir að fyrirtækið uppfyllir kröfur jafnlaunastaðalsins ÍST:85 2012 og kröfur laga nr. 150/2020 um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna. BSI á Íslandi, sem er faggiltur vottunaraðili, tók út jafnlaunakerfi fyrirtækisins. Vottunin felur í sér að stjórnunarkerfi Samherja Íslands virkar sem skildi, en kerfið á að tryggja að málsmeðferð og ákvörðun í launamálum byggist á málefnalegum sjónarmiðum og feli ekki í sér kynbundna mismunun.

jafnlaunavottun_samherjiJafnréttisáætlun Samherja

Í stefnu Samherja er lögð áhersla á jafnrétti allra kynjanna. Hver starfsmaður er metinn að eigin verðleikum, bæði við ráðningu og við tilfærslur í starfi. Kynjamismunun er með öllu óheimil og reynt skal eftir bestu getu að flokka störf ekki í sérstök kvenna- og karlastörf. Sá sem hannar eða birtir starfsauglýsingar fyrir Samherja skal sjá til þess að auglýsingin sé öðru kyninu ekki til minnkunar, lítilsvirðingar eða stríði gegn jafnri stöðu og jafnrétti kynjanna á nokkurn hátt. Fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf skal ávallt greiða jöfn laun og bjóða sömu kjör og hlunnindi. Bæði kynin eiga einnig að hafa jafnan aðgang að starfsmenntun og þjálfun.  

Hjá Samherja er lögð áhersla á góðan starfsanda, þar sem ríkir traust, trúnaður, jafnræði og hreinskilni milli alls starfsfólks. Starfsfólki ber að temja sér kurteisi og háttvísi í framkomu og sýna hvert öðru virðingu og jákvætt viðmót.

Allir á vinnustaðnum þurfa að leggja sitt af mörkum til að fyrirbyggja neikvæða hegðun og stuðla að góðum samskiptum, starfsánægju og öruggu umhverfi. Þetta skiptir okkur öll miklu máli og við berum öll ábyrgð í þessum efnum. Því er mikilvægt að starfsfólk láti vita ef upp koma neikvæð og erfið samskipti til að hægt sé að taka á málum.

Einelti, kynferðisleg áreitni, kynbundin áreitni og ofbeldi verður undir engum kringumstæðum umborið á vinnustaðnum, hvorki í samskiptum starfsfólks, verktaka, samstarfsaðila eða viðskiptavini Samherja. Samherji hvetur starfsfólk til að tilkynna brot á hátternisreglum og stefnum til stjórnenda.

Aðbúnaður og öryggismál

Ahofn_Bjorgulfs_EA

Samherji leggur ríka áherslu á öryggis-, heilbrigðis- og vinnuverndarmál og vill vera leiðandi í þessum málaflokki. Samherji hefur það markmið að tryggja slysalausa starfsemi og að ekkert starfsfólk bíði heilsutjón í starfi sínu.

Samherji vinnur stöðugt að umbótum á starfsstöðvum sínum og leitar allra leiða, með þróun, nýjum lausnum og bættum verklagsreglum til að fjarlægja, fyrirbyggja og/eða minnka þá hættu sem steðjar að í öryggis--, heilsu- og vinnuverndarmálum, í samvinnu við starfsfólk sitt.

Samherji leggur metnað sinn í að fylgja gildandi lögum og reglum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og öðrum gildandi reglum. Fræðsla og leiðbeiningar um öryggi og vinnuvernd eru bæði almennar og sérsniðnar að hverri starfsstöð. 

Vímuefnalaus vinnustaður

Samherji leggur ríka áherslu á öryggi, heilsu og vellíðan starfsfólks síns. Ætlast er til þess að starfsfólk sé allsgáð við vinnu og hefur Samherji því sett kröfur varðandi áfengis- og vímuefnanotkun á starfsstöðvum sínum í reglum um vímuefnalausan vinnustað. Reglurnar gilda á meðan starfsfólk er á starfsstöðvum Samherja, koma fram fyrir hönd Samherja og/eða eru á vegum fyrirtækisins utan vinnusvæðis.

Öll neysla áfengis, vímuefna eða lyfja sem hamlað geta eða skert starfsgetu er stranglega bönnuð á fiskvinnslusvæðum Samherja og um borð í skipum. Sama gildir ef starfsfólk er undir áhrifum slíkra efna.

Stuðningur og velferð nýliða

Samherji leitast við að kynna nýjum starfsmönnum sínum fyrirtækið og helstu þætti starfs þeirra svo þeir nái sem fyrst tökum á verkefnum sínum, fái jákvæða mynd af fyrirtækinu, kynnist helstu samstarfsmönnum sínum og þekki rétt sinn og skyldur. Markmiðið er að tryggja að nýliðum, sem og öllum starfsmönnum, líði vel í starfi og finni fyrir öryggi frá fyrsta degi með öflugri upplýsingagjöf, góðu aðgengi að upplýsingum og markvissri eftirfylgni.

Sí- og endurmenntun á vegum Samherja

Mikil vakning hefur orðið í íslensku samfélagi undanfarin ár hvað varðar mikilvægi þess að bæta stöðugt við sig þekkingu. Samherji hefur undanfarin ár boðið starfsmönnum sínum að sækja námskeið af margvíslegum toga, sem ýmist hafa nýst þeim í leik eða starfi. Markmiðið er að stuðla að og hvetja til sí- og endurmenntunar innan Samherja.

Starfslok

Komi til uppsagnar starfsmanns þurfa að vera málefnalegar ástæður fyrir hendi. Sé um meintar ávirðingar í starfi að ræða, ber yfirmanni að veita áminningu og gefa starfsmanni tækifæri til að tjá sig um málið, nema ávirðingar séu svo alvarlegar að það réttlæti fyrirvaralausa uppsögn. Stefnt skal að því að starfsmenn láti af störfum á því ári sem þeir verða 67 ára. Samherji leggur áherslu á að starfsfólk láti af störfum með jákvæðu hugarfari og er boðið upp á starfslokasamtal við alla þá sem hyggjast hætta hjá Samherja.