Starfsmenn

Starfsmannastefna Samherja 

Stjórnendur Samherja vita að árangur í rekstri fyrirtækisins byggist öðru fremur á þekkingu og metnaði starfsfólks. Þess vegna vinnur fyrirtækið að því að efla starfshæfni einstaklinga og hvetja þá til að nýta eigin áhuga og frumkvæði til þroska og persónulegra framfara.  Samherji byggir rekstur sinn og starfmannastefnu á þremur eftirtöldum atriðum, auk þess að leggja áherslu á jafnrétti, símenntun, endurmenntun, gæða-, öryggis- og umhverfismál.

* Samherji leitast við að ráða til sín og hafa í sínum röðum framúrskarandi starfsfólk og efla það í störfum sínum.
* Til að stuðla að vexti og arðsemi Samherja er áhersla lögð á skemmtilegan vinnustað, starfsánægju og gott starfsumhverfi.
* Það er viðhorf stjórnenda Samherja að það sé starfsfólkið, metnaður þess, kraftur og hollusta sem er lykillinn að farsælum rekstri fyrirtækisins.

Jafnréttismál

jafnlaunavottun_samherjiSamherji Ísland ehf. hefur hlotið jafnlaunavottun sem staðfestir að fyrirtækið uppfyllir kröfur jafnlaunastaðalsins ÍST:85 2012 og kröfur laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. BSI á Íslandi, sem er faggiltur vottunaraðili, tók út jafnlaunakerfi fyrirtækisins. Vottunin felur í sér að stjórnunarkerfi Samherja Íslands virkar sem skildi, en kerfið á að tryggja að málsmeðferð og ákvörðun í launamálum byggist á málefnalegum sjónarmiðum og feli ekki í sér kynbundna mismunun.

jafnlaunavottun_samherjiÍ stefnu Samherja er lögð áhersla á jafnrétti kynjanna. Hver starfsmaður er metinn að eigin verðleikum, bæði við ráðningu og við tilfærslur í starfi. Kynjamismunun er með öllu óheimil og reynt skal eftir bestu getu að flokka störf ekki í sérstök kvenna- og karlastörf. Sá sem hannar eða birtir starfsauglýsingar fyrir Samherja skal sjá til þess að auglýsingin sé öðru kyninu ekki til minnkunar, lítilsvirðingar eða stríði gegn jafnri stöðu og jafnrétti kynjanna á nokkurn hátt. Fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf skal ávallt greiða jöfn laun og bjóða sömu kjör og hlunnindi. Bæði kynin eiga einnig að hafa jafnan aðgang að starfsmenntun og þjálfun. Kynferðisleg áreitni, einelti og kynþáttafordómar verða ekki liðin innan Samherja og er það stefna fyrirtækisins að útrýma slíkri mismunun komi hún í ljós.

Jafnréttisáætlun Samherja

Aðbúnaður og öryggismál

Ahofn_Bjorgulfs_EA

Stefna Samherja er að allur aðbúnaður í vinnuumhverfinu uppfylli nútímakröfur og sé í samræmi við lög og reglugerðir um öryggi og aðbúnað á vinnustað. Áhersla er lögð á að kynna starfsmönnum mikilvægi öryggismála og jafnframt er lagt að starfsmönnumað fylgja þeim kröfum sem gerðar eru til þeirra um öryggi og aðgát í starfi. Öryggishandbók SFS

Kynning og nýliðafræðsla

Samherji leitast við að kynna nýjum starfsmönnum sínum fyrirtækið og helstu þætti starfs þeirra svo þeir nái sem fyrst tökum á verkefnum sínum, fái jákvæða mynd af fyrirtækinu, kynnist helstu samstarfsmönnum sínum og þekki rétt sinn og skyldur.

Fjölskylda og heilbrigði

Samherji vill styðja starfsfólk sitt til að taka ábyrgan þátt í fjölskylduhlutverki sínu og bregðast við áföllum og stórfelldri röskun á fjölskylduhögum. Samherji hvetur starfsmenn sína og styrkir til að stunda líkamsrækt reglulega, sem stuðlar að bættri heilsu og vellíðan.

Starfsmannaskóli Samherja

Mikil vakning hefur orðið í íslensku samfélagi undanfarin ár hvað varðar mikilvægi þess að bæta stöðugt við sig þekkingu. Samherji hefur undanfarin ár boðið starfsmönnum sínum að sækja námskeið af margvíslegum toga, sem ýmist hafa nýst þeim í leik eða starfi. Með stofnun Starfsmannaskóla Samherja var markmiðið að stuðla að og hvetja til sí- og endurmenntunar innan Samherja.

Starfslok

Stefna Samherja er að starfsmenn láti af störfum með jákvæðu hugarfari. Leitast verður við að hafa starfslokasamtal við alla þá sem hætta hjá fyrirtækinu. Fyrir uppsögn starfsmanns þurfa að vera málefnalegar ástæður og sé um meintar ávirðingar í starfi að ræða, ber yfirmanni að veita áminningu og gefa starfsmanni tækifæri til að tjá sig um málið, nema ávirðingar séu svo alvarlegar að það réttlæti fyrirvaralausa uppsögn. Stefnt skal að því að starfsmenn láti af störfum í lok þess mánaðar sem þeir verða 67 ára.