„Á svona stundum áttar maður sig á því hvað vináttan er dýrmæt“

Reynir Gísli Hjaltason / myndir samherji.is/einkasafn
Reynir Gísli Hjaltason / myndir samherji.is/einkasafn

Reynir Gísli Hjaltason sem starfað hefur hjá Samherja í nærri aldarfjórðung fagnaði 70 ára afmæli fyrr í mánuðinum. Hann segir að tíminn hjá Samherja hafi verið ótrúlega fljótur að líða, sem sé líklega skýrt merki þess að sér hafi liðið vel í starfi. Reynir Gísli segir að tækniframfarir hafi verið ótrúlega hraðar á undanförnum áratugum og ekki sjái fyrir endann á þeim. Þegar hann var í námi voru tölvur varla komnar á markað.

 

Fylgdi með í samrunanum

„Já, það má segja að ég hafi starfað við sjávarútveg svo að segja alla mína starfsævi. Fyrst var ég sjómaður hjá G.Ben sf. á Árskógssandi en árið 1987 fór ég í land og starfaði á skrifstofunni, enda með menntun á sviði bókhalds- og skrifstofustarfa. Til að gera nokkuð langa sögu stutta, þá sameinaðist BGB-Snæfell Samherja árið 2000 og við getum sagt að ég hafi fylgt með í þeim samruna. Fyrstu fimm árin starfaði ég í skipaþjónustunni, þar til ég var ráðinn sem yfirbókari Samherja og þann starfa hafði ég í um tíu ár.“

Sjaldan verkefnalaus

Samherji hefur stækkað mikið á þessum árum, reksturinn þar með yfirgripsmeiri og á margan hátt flóknari.

„Síðustu árin hef ég séð um skráningar og skýrsluhald á afla skipanna og afurðum vinnsluhúsanna. Samherji er stórt og mikið fyrirtæki, þannig að þessir þættir í bókhaldskerfinu eru nokkuð drjúgir. Skráningar tengjast svo líka útflutningi og sölu sjávarafurða, þannig að það er að ýmsu að huga í starfinu og ég er sjaldan verkefnalaus, sem betur fer. Hver og ein löndun kallar á alls konar skýrslur og uppgjör, enda regluverkið nokkuð umfangsmikið í kringum alla þessa þætti. Sömu sögu er að segja um afurðirnar frá vinnsluhúsunum. Mín starfsstöð er í húsnæði Útgerðarfélags Akureyringa, hérna eru allar aðstæður mjög góðar og ekki skemmir fyrir að geta fylgst með skipunum sem koma hingað til löndunar út um gluggann á skrifstofunni.“

Gríðarlegar breytingar í tæknimálum

Fjölskyldan fluttist frá Árskógssandi til Akureyrar fyrir fimm árum síðan, eiginkona Reynis Gísla er Helga Finnbogadóttir.

Hann segir að það hafi ekki verið mikið mál að keyra til vinnu frá Árskógssandi, enda með góða vinnuaðstöðu heima ef veður eða ófærð hafi hamlað för.

„Jú, breytingarnar á þessum árum eru gríðarlegar hvað alla tækni varðar. Það var reyndar ekki búið að finna upp tölvuna þegar ég var í Verslunarskólanum árið 1974. Í dag heyrir til undantekninga að póstur sé sendur með gamla laginu, allt er orðið rafrænt. Þessi hraða þróun mun halda áfram á sama hraða, við erum langt í frá komin á einhverja endastöð í þeim efnum. Ég man vel eftir því þegar við fengum fax tæki, sem þóttu mikil bylting. Þessi tæki gátu sent bréf á milli staða. Þetta voru mikil töfratól á sínum tíma en þykja í dag ekki upp á marga fiska. Ljósritunarvélarnar er hægt að setja í svipaðan flokk og svo auðvitað alla fjarskiptatæknina.

Mér hefur gengið ágætlega að aðlagast öllum þessum breytingum, maður er í raun og veru alla daga að læra eitthvað nýtt í þessum efnum, sem ég held að komi öllum til góða, bæði starfsfólki og vinnuveitanda."

Góð samskipti við eigendur og samstarfsfólk

„Ég hef starfað samfleytt hjá Samherja í 23 ár og þau hafa verið ótrúlega fljót að líða, sem hlýtur að vera skýrt merki þess að hérna hefur mér liðið vel. Samskiptin við eigendur Samherja hafa verið einstaklega góð og sömu sögu er að segja um allt samstarfsfólk. Það er kúnst að reka fyrirtæki, stjórnendur félagins vita að árangur í rekstrinum byggist meðal annars á þekkingu og metnaði starfsfólksins. Þetta er skemmtilegur vinnustaður, starfsánægjan er greinilega mikil leyfi ég mér að fullyrða og allur aðbúnaður er til fyrirmyndar. Reyndar er það svo að starfsaldur margra er mjög hár hjá Samherja, sem sýnir vel að fólki líður vel hjá félaginu. Ég var að skoða gamlar myndir sem teknar voru af samstarfsfólkinu við ýmis tækifæri og þar sést greinilega hversu margir eru enn við störf.“

Heppinn í lífinu

Samstarfsfólk Reynis Gísla á fjármálasviði Samherja tók daginn snemma í tilefni afmælisins. Afmælisbarnið átti aldeilis ekki von á svo stórri heimsókn.

„Nei sannarlega ekki, var að koma úr sturtu um morguninn eftir að hafa verið í ræktinni frá klukkan sex , þegar dyrabjallan hringdi nokkuð rösklega. Eiginkonan vissi af væntanlegri heimsókn en var nú ekkert að láta mig vita. Þetta var virkilega ánægjuleg heimsókn frá þessum góðu vinum okkar og á slíkum stundum áttar maður sig á því hvað vináttan er dýrmæt. Ég hef verið heppinn í lífinu, er við góða heilsu og hef hugsað mér að starfa hérna í eitt ár til viðbótar. Þetta hafa verið góð ár og maður getur ekki annað en verið þakklátur á slíkum tímamótum,“ segir Reynir Gísli Hjaltason.

Starfsfólk Samherja óskar Reyni Gísla Hjaltasyni hjartanlega til hamingju með 70 ára afmælið.