Aðgerðir tengdar strandi skipsins Green Freezer

Í kjölfar fréttaflutnings af samskiptum stjórnenda Samherja við fulltrúa útgerðar Green Freezer sem strandaði við Fáskrúðsfjörð síðastliðið miðvikudagskvöld viljum við koma eftirfarandi á framfæri:

Vilhelm Þorsteinsson EA var fyrstur á strandstað, innan við 30 mínútum frá því ósk barst um aðstoð. Landhelgisgæslan óskaði eftir því að áhöfn Vilhelms Þorsteinssonar EA reyndi að koma taug yfir í skipið. Strax var farið í að koma taug á milli skipanna en eigandi flutningaskipsins hafnaði þeirri aðstoð og óskaði eftir meiri tíma til að leita annarra leiða til að koma skipinu af strandstað.

Síðar um kvöldið tilkynnir umboðsmaður flutningaskipsins að tryggingarfélag þess sé tilbúið til að greiða Samherja allt að fjórum milljónum króna fyrir að láta draga skipið af strandstað. Þar sem sú upphæð er lægri en áætlaður kostnaður útgerðarinnar við björgunaraðgerðina, ásamt teknu tilliti til þeirrar áhættu sem ávallt fylgir svona aðgerð, töldu stjórnendur Samherja ekki rétt að taka að sér umrætt verk. Áhöfn Green Freezer var ekki í hættu og Landhelgisgæslan var á leið á staðinn á sérútbúnu skipi. Seinna um nóttina hélt Vilhelm Þorsteinsson aftur til veiða.