Áramótakveðja frá stjórn Samherja

Á nýju ári færir stjórn Samherja öllu starfsfólki fyrirtækisins árnaðaróskir og þakkir fyrir liðin ár. Erfiðar aðstæður sem öll þjóðin hefur þurft að takast á við eru nú senn að baki. Framundan eru bjartari tímar í leik og starfi; við hefðbundin störf, tómstundir og í samskiptum vina, fjölskyldna og starfsmanna.

Stjórn Samherja hefur ætíð haft ástæðu til að fagna og gleðjast yfir einstökum árangri ykkar. Nýliðið ár er þar engin undantekning þrátt fyrir þá miklu óáran sem stöðugt þurfti að glíma við. Í ótrúlega erfiðu árferði tókst ykkur að halda uppi veiðum, vinnslu, sölu og annarri starfsemi með þeim hætti að eftir var tekið og lengi verður minnst. Enn á ný kom í ljós sá innri styrkur sem Samherji býr yfir með einvalaliði starfsmanna til sjós og lands. Við í stjórninni erum stolt af því að fá að ganga þennan veg með ykkur.

Hafið öll heila þökk fyrir framlag ykkar, dugnað, útsjónarsemi; það traust og þau heilindi sem þið hafið alla tíð sýnt fyrirtækinu. Eiginleikar ykkar eru ómetanlegir.

Megið þið öll eiga farsælt og gæfuríkt nýtt ár.

Stjórn Samherja

Eirikur_S_Johannsson

Dagny_Linda_Kristjansdottir

Oskar_Magnusson

Helga_Steinunn_Gudmundsdottir

Kristjan_Vilhelmsson