Árs- og sjálfbærniskýrsla Samherja hf. þar sem fjallað er um ófjárhagslega þætti í starfsemi félagsins á árinu 2024 er nú komin út. Markmiðið með útgáfunni er að miðla upplýsingum um áhrif félagsins á umhverfi, félagslega þætti og stjórnarhætti. Þá á skýrslan að veita greinargott yfirlit um rekstur félagsins.
Skýrslan nær yfir starfsemi Samherja hf. og dótturfélaga á tímabilinu 1. janúar 2024 til 31. desember 2024 sem er fjárhagsárið í ársreikningi félagsins. Við ritun skýrslunnar voru Global Reporting Initiative (GRI) staðlarnir hafðir til hliðsjónar líkt og í fyrstu árs- og sjálfbærniskýrslu félagsins og er GRI tilvísunartafla birt aftast. Þá var horft til UFS (ESG) leiðbeininga Nasdaq um umhverfismál, félagslega þætti og stjórnarhætti. Samherji hefur undirritað samfélagsstefnu Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi sem byggir á heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og birtir þau heimsmarkmið sem hafa mesta þýðingu í rekstri félagsins.
Sjálfbærni er samofin stjórnarháttum Samherja
Baldvin Þorsteinsson, forstjóri Samherja hf., fjallar í ávarpi sínu í skýrslunni um umhverfisstefnu félagsins sem er hluti af stjórnarháttum þess. Sjálfbærni er samofin stjórnarháttum félagsins í gegnum umhverfisstefnu Samherja.
„Félagið hefur sett sér þau markmið að draga úr olíunotkun og minnka þar með kolefnisspor, auka hagkvæmni í orkunýtingu, standa vörð um nytjastofna með sjálfbærum fiskveiðum, verja líffræðilega fjölbreytni þar sem félagið er með starfsemi, minnka sóun og myndun úrgangs og auka vægi endurvinnslu,“ segir Baldvin.
Samherji birtir upplýsingar óháð breytingum á regluverki
Forstjórinn víkur einnig að þeim breytingum sem hafa orðið á regluverki vegna birtingar sjálfbærniupplýsinga.
„Mikil gerjun hefur orðið þegar regluverk um söfnun og miðlun sjálfbærniupplýsinga er annars vegar og í febrúar 2025 kynnti Evrópusambandið róttækar breytingar á regluverki sínu á þessu sviði. Ein sú veigamesta felst í því að eingöngu fyrirtæki með 1.000 eða fleiri starfsmenn á samstæðugrundvelli verður gert skylt að birta sjálfbærniskýrslur á grundvelli nýrra reglna (CSRD) og staðla (ESRS) sem Evrópusambandið hefur þróað. Hið nýja regluverk hefur ekki verið innleitt hér á Íslandi en ljóst er að eftir þessa breytingu munu aðeins örfá fyrirtæki hér á landi falla undir reglurnar og er Samherji hf. ekki á meðal þeirra. Óháð innleiðingu reglnanna hefur Samherji
ákveðið að fylgja þeirri stefnu sem hefur mörkuð og birta sjálfbærniupplýsingar í skýrsluformi svo almenningur, viðskiptavinir og aðrar haghafar hafi aðgang að ófjárhagslegum upplýsingum um félagið til viðbótar við þær upplýsingar sem félagið birtir í ársreikningi,“ segir Baldvin Þorsteinsson forstjóri Samherja hf.
Skýrsluna má nálgast hér