Samherji hf. hefur gefið út árs- og sjálfbærniskýrslu vegna ársins 2023 þar sem fram koma upplýsingar um ófjárhagslega þætti í starfsemi félagsins og dótturfélaga. Þetta er í fyrsta sinn sem Samherji ræðst í slíka útgáfu og er hún til marks um þá stefnu að auka upplýsingaflæði um starfsemi félagsins og áhrif þess á umhverfi og samfélag.
Meginviðfangsefni árs- og sjálfbærniskýrslunnar eru sjálfbærar fiskveiðar, gæðamál og vottanir, áhrif á umhverfi, mannauðs- og starfsmannamál og stjórnarhættir. Við mótun viðfangsefna leitaðist Samherji við að taka mið af væntingum hagsmunaaðila eins og starfsfólks, viðskiptavina og birgja.
Stuðst var við viðurkennda staðla og viðmið
Í skýrslunni eru birtar upplýsingar um starfsemi Samherja á árinu 2023. Global Reporting Initative (GRI) staðlarnir voru hafðir til hliðsjónar við ritun hennar og er GRI tilvísunartafla birt aftast. Þá var horft til UFS (ESG) leiðbeininga Nasdaq um umhverfismál, félagslega þætti og stjórnarhætti við uppbygginguna. Samherji hefur undirritað samfélagsstefnu Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi sem byggir á heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og eru birt þau heimsmarkmið sem félagið hefur lagt áherslu á í sinni starfsemi. Teymi starfsfólks innan fyrirtækisins annaðist gerð skýrslunnar.
Sjálfbær nýting í sátt við umhverfið
Í ávarpi Þorsteins Más Baldvinssonar, forstjóra Samherja hf., fjallar hann meðal annars um áherslur fyrirtækisins varðandi umhverfi og samfélag.
„Markmið Samherja er að starfa í sem mestri sátt við umhverfi sitt, stuðla að sjálfbærri nýtingu fiskistofna og góðri umgengni um auðlindir hafsins. Þá er það stefna fyrirtækisins að hámarka nýtingu á hráefnum og orku með því að auka vægi vistvænnar orku, stuðla að umhverfisvænum rekstri á öllum stigum framleiðslunnar og að framleiða heilnæmar gæðaafurðir. Með útgáfu skýrslunnar leitast Samherji við að veita innsýn í þessa þætti starfseminnar og miðla upplýsingum um árangur fyrirtækisins á þessum sviðum,“ segir Þorsteinn Már.
Stefnt að árlegri birtingu hér eftir
Samherji hf. stefnir á að birta árs- og sjálfbærniskýrslu á ári hverju hér eftir. Framsetning ófjárhagslegrar upplýsingagjafar mun taka breytingum á næstunni enda voru í lok árs 2023 lögfestar nýjar reglur hjá Evrópusambandinu um staðla um birtingu sjálfbærniupplýsinga (European Sustainability Reporting Standards, ESRS), sem Samherji hf. verður bundinn af þegar þær hafa verið innleiddar í íslenskan rétt.
Hægt er að nálgast árs- og sjálfbærniskýrsluna HÉR