Ágætu starfsmenn Samherja.
Við sögðum strax eftir húsleit að Samherji seldi ekki fisk á undirverði til tengdra félaga. Það kom svo í ljós í lok apríl, þegar við fengum loksins að sjá gögnin sem lágu til grundvallar húsleitinni, að útreikningar Seðlabanka Íslands voru rangir. Við höfum hrakið þau gögn sem lögð voru til grundvallar húsleitarheimildinni og bæði Héraðsdómur og Hæstiréttur hafa staðfest þá niðurstöðu. Í úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur frá 15. maí segir meðal annars:
„Með þeirri aðferð, sem varnaraðili [Seðlabanki Íslands] virðist reisa fyrrgreindar ályktanir sínar á um útflutningviðskipti sóknaraðila [Samherji hf.] með karfa í samanburði við viðskipti annarra, hefur kílóverð í hverjum viðskiptum jafnt vægi óháð því magni sem flutt var út. Orkar það tvímælis í ljósi þess hvaða áhrif magn hefur á verðið. Nærtækara hefði verið að bera saman heildarkílóverð í viðskiptunum eða meðaltalskílóverð í viðskiptum með sambærilegt magn hjá sóknaraðila [Samherji hf.] og öðrum útflytjendum hins vegar. Með því hefðu fengist samanburðarhæfar tölur.“
Með þessum orðum staðfestir héraðsdómarinn það sem við höfum sagt: Yfirmenn Seðlabanka Íslands beittu röngum útreikningum við öflun húsleitarheimildarinnar, jafnvel blekkingum því ekki er hægt að ætla hagfræðingum Seðlabanka Íslands að kunna ekki einfaldan meðaltalsútreikning.
Greining IFS Ráðgjafar á útflutningsverði íslenskra sjávarafurða síðustu ár, hnekkir þeirri fullyrðingu Seðlabanka Íslands að hann hafi komist yfir gögn sem sýni að Samherji hafi selt aðrar tegundir en karfa á undirverði. Hún er röng – eins og fullyrðing bankans um karfaverðið.
Ágætu starfsmenn.
Niðurstaða IFS Ráðgjafar sýnir það sem við frændur höfum alltaf vitað: Þið öll hjá Samherja hafið skilað
góðu verki og lagt ykkar af mörkum til að gera sem mest verðmæti úr íslensku sjávarfangi.
Það er því óásættanlegt að rannsókn Seðlabanka Íslands hvíli sem skuggi á fyrirtækinu. Henni verður að ljúka.
Um leið og við þökkum ykkur samstarfið á árinu 2012 óskum við ykkur og fjölskyldum ykkar farsældar á nýja árinu.
Þorsteinn Már Baldvinsson
Kristján Vilhelmsson