„Bás Samherja á pari við bestu veitingastaði í Barcelona“

Gestir frá öllum heimshornum heimsækja bás Samherja og gæða sér á fiskréttum/myndir samherji.is
Gestir frá öllum heimshornum heimsækja bás Samherja og gæða sér á fiskréttum/myndir samherji.is

Alþjóðlega sjávarútvegssýningin í Barcelona á Spáni, Seafood Expo Global, er að hluta til mikil matarhátíð, þar sem sýnendur kynna framleiðslu sína fyrir viðskiptavinum og öðrum gestum sýningarinnar. Einar Geirsson matreiðslumeistari veitingastaðarins RUB 23 á Akureyri hefur séð um matreiðsluna á básum Samherja um víða veröld í nærri tvo áratugi. Hann segir alltaf jafn skemmtilegt að vinna á alþjóðlegum sýningum, enda Samherji þekkt fyrirtæki fyrir gæði og góðar afurðir.

Margir réttir á boðstólum

„ Sýningum hefur fækkað nokkuð á undanförnum árum en á móti kemur að þær eru stærri, eins og til dæmis þessi sem stendur yfir í þrjá daga. Hérna eru málin rædd við núverandi viðskiptavini og jafnvel stofnað til nýrra viðskiptasambanda og þá er auðvitað tilvalið að kynna með sem bestum hætti afurðirnar. Við erum aðallega með þorsk, bleikju og lax og réttirnir eru nokkuð margir sem við bjóðum gestum að smakka.“

Ferskleikinn í fyrirrúmi

Með Einari í Barcelona er Matthías Pétur Davíðsson yfirmatreiðslumeistari RUB 23. Einar segir að áhersla sé lögð á ferskt hráefni.

„Fiskurinn kom hingað einum degi fyrir sýninguna og svo förum við á markaðinn og kaupum ýmislegt meðlæti, þannig að allt saman er eins ferskt og hugsast getur. Síðan erum við líka með ýmsar íslenskar vörur, svo sem bjór frá Kalda á Árskógsströnd og harðfisk frá Darra á Grenivík, svo eitthvað sé nefnt. Og súkkulaðið er auðvitað íslenskt.“

Gestir frá öllum heimsálfum

„Við fluttum um tvö hundruð kíló af fiski hingað, þannig að það fara um sextíu kíló á dag. Bás Samherja er nokkuð stór og er fjölsóttur, enda Samherji þekkt fyrirtæki í atvinnugreininni. Hingað koma gestir frá öllum heimálfum og ég næ að tala við nokkuð marga þeirra um fiskinn og matreiðsluna. Eftir þessi samtöl segi ég hiklaust að bás Samherja sé á pari við bestu veitingastaði í Barcelona, með fullri virðingu fyrir öllum þeim frábæru veitingastöðum sem eru í borginni. Við Íslendingar segjum gjarnan að íslenski fiskurinn sé sá besti í öllum heiminum en við megum ekki gleyma því að margar aðrar þjóðir eru líka með frábæran fisk.“

Samhent áhöfn

„Jú jú, dagarnir eru nokkuð langir hjá okkur í eldhúsinu en á móti kemur að þetta er afskaplega skemmtileg vinna. Áhöfn Samherja veit nákvæmlega hvernig á að starfrækja svona bás, hérna er valinn maður í hverju rúmi og þess vegna er svo gefandi að taka þátt í þessu. Það skiptir miklu máli að undirbúa alla þætti vel og öll aðstaðan á básnum er eins og best verður á kosið.“ segir Einar Geirsson.