Bréf til starfsmanna um siðlaus vinnubrögð Ríkisútvarpsins

Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri Samherja
Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri Samherja

Ágæta samstarfsfólk.

Í aðalfréttatíma Ríkisútvarpsins í gærkvöldi var fyrsta frétt sjónvarpsstöðvarinnar um að sex núverandi og fyrrverandi starfsmenn Samherja væru með réttarstöðu sakbornings í sakamáli sem er til rannsóknar hjá embætti héraðssaksóknara. Í fréttinni voru birtar ljósmyndir af þeim starfsmönnum sem eiga í hlut.

Ég tel óhætt að fullyrða að Ríkisútvarpið hafi aldrei lagst jafn lágt í fréttaflutningi og með þessari frétt. Í því sambandi vekur athygli að enginn annar fjölmiðill fetar þessi niðurlægingarspor Ríkisútvarpsins í myndbirtingum. Engar nýjar upplýsingar komu fram, fyrir utan þessa breytingu á réttarstöðu einstaklinganna, enda hefur margsinnis verið greint frá því að héraðssaksóknari sé með mál til rannsóknar sem tengist starfsemi dótturfélaga Samherja í Namibíu.

Í umfjöllun um Seðlabankamálið á sínum tíma voru iðulega birtar myndir af mér í fjölmiðlum, þar á meðal í miðlum Ríkisútvarpsins. Aldrei þótti tilefni til að draga aðra og óþekkta starfsmenn Samherja fram í sviðsljósið. Nú kveður hins vegar við nýjan tón hjá Ríkisútvarpinu með birtingu mynda af óþekktu starfsfólki Samherja sem gefið hefur skýrslu hjá saksóknara og notið þeirrar réttarstöðu sem mest réttindi veitir við slíkt tilefni. Þessi vinnubrögð Ríkisútvarpsins eru með miklum ólíkindum enda birtir fréttastofan ekki einu sinni myndir af mönnum sem eru grunaðir um gróf ofbeldisbrot fyrr en þeir hafa hlotið dóm, ef slík mál rata á annað borð í fréttir.

Öllum má vera ljóst að myndbirting af þessu tagi er mjög þungbær fyrir þá sem eiga í hlut og fjölskyldur þeirra. Allir þeir starfsmenn, sem birtar voru myndir af í gærkvöldi, eru óþekktir og hafa aldrei eða örsjaldan verið nafngreindir í fjölmiðlum áður. Menn þurfa ekki að velkjast í neinum vafa um að eini tilgangur með þessari myndbirtingu, í annars afar innihaldsrýrri frétt, var að valda sem mestum skaða. Er þetta enn einn vitnisburðurinn um hnignun fréttastofu Ríkisútvarpsins.

Það sem gerir þennan fréttaflutning vandræðalegan er að hann kemur strax í kjölfar gagnrýni okkar á vinnubrögð fréttastofunnar í öðrum óskyldum málum. Fréttastofan hafði ekki samband við neinn áður en frétt gærkvöldsins var flutt, hvorki einstaklingana sjálfa eða lögmenn þeirra. Samherji setti fram efnislega gagnrýni á störf Ríkisútvarpsins og hefur notað lögbundna ferla vegna brota á siðareglum. Frétt gærkvöldsins er hins vegar ekkert annað en örvæntingarfull hefndaraðgerð dulbúin sem frétt og gróf aðför að saklausu fólki.

Eins og ég hef áður sagt þá tel ég að það sé enginn grundvöllur fyrir ásökunum um saknæma háttsemi vegna starfseminnar í Namibíu, jafnvel þótt ýmis mistök hafi verið gerð í þeim rekstri og ekki hafi verið fullnægjandi eftirlit með starfseminni þar, eins og komið hefur fram. Við munum á næstu vikum skýra betur ýmsa þætti í rekstrinum og leiðrétta rangfærslur sem hafa verið fluttar í fjölmiðlum um hann.

Ég kvíði ekki því máli sem er til rannsóknar en rannsókn er ekki dómur og það er óverjandi að ríkisfjölmiðillinn felli dóma yfir saklausu fólki með þeim hætti sem var reynt í gærkvöldi. Kröftug viðbrögð ykkar, í skilaboðum og tölvupósti til mín, sýna að mörgum er greinilega misboðið.

Ég vil að lokum þakka ykkur öllum fyrir ómetanlegt framlag ykkar í rekstri Samherja við krefjandi aðstæður á tímum heimsfaraldurs. Ég er auðmjúkur og þakklátur fyrir að félagið búi yfir jafn öflugum mannskap og raun ber vitni.

Með bestu kveðju,
Þorsteinn Már