Cuxhaven landar á Akureyri og áhöfnin komin í jólafrí - Flautað við Hrísey og veifað

Cuxhaven NC við bryggju á Akureyri. Löndun úr skipinu kallar á ýmis umsvif og þjónustu / myndir samh…
Cuxhaven NC við bryggju á Akureyri. Löndun úr skipinu kallar á ýmis umsvif og þjónustu / myndir samherji.is

Verið er að landa um fjögurhundruð tonnum af afurðum úr togaranum Cuxhaven NC 100 á Akureyri og verður skipið á Akureyri fram yfir áramót. Þegar Cuxhaven sigldi fram hjá Hrísey var flautað og veifað til íbúa eyjarinnar, samkvæmt gamalli hefð.

Cuxhaven NC er í eigu Dautsche Fischfang Union í Þýskalandi. Aflinn er aðallega karfi og grálúða, veiðisvæðið var austur af Grænlandi. Stefán Viðar Þórisson skipstjóri segir að nokkuð víða hafi verið farið í þessari veiðiferð.

Jóns- og Fylkismið

„Við veiddum meðal annars á þeim gömlu frægu Jónsmiðum, sem kennd eru við síðutogarann Jón Þorláksson. Einnig vorum við á Fylkismiðum, sem eru kennd við síðutogarann Fylki. Aflinn er bæði karfi og grálúða, um fimmhundruð tonn úr sjó sem þýðir að afurðirnar til útflutnings eru um fjögurhundruð tonn.“

Allra veðra von

„Veður geta verið válynd á þessum slóðum, straumurinn er þungur. Við sluppum hins vegar við ísjaka, sáum þó borgarísjaka og ísspöng úr skriðjökli. Cuxhaven er hins vegar gott sjóskip og fer vel með áhöfnina, þannig að þetta gekk allt saman ágætlega og við erum með góðan fisk. En það var sem sagt nokkur flækingur á okkur í túrnum.“

Töluverð umsvif

Þegar svo stórt skip kemur til hafnar er viðbúið að margir séu kallaðir til. Löndunargengi sér um löndun úr skipinu og flutningafyrirtæki þurfa að vera tilbúin svo að segja strax og lagst er að bryggju. Oftar en ekki er óskað eftir þjónustu ýmissa fyrirtækja á Akureyri vegna endurbóta og viðhalds. Virðisaukinn vegna komu Cuxhaven hefur með öðrum orðum áhrif á fjörmarga þæ

tti atvinnu- og þjónustustarfsemi á svæðnu. Hafnargjöld og önnur opinber gjöld sem lögð eru sérstaklega á erlend skip eru auk þess hærri á Íslandi en í öðrum löndum og nær virðisaukinn því til samfélagsins alls.

Í jólaskapi á heimsiglingunni

„Flestir í áhöfninni búa erlendis og þeir fljúga til síns heima í kvöld og síðan er ætlunin að halda til veiða strax á nýju ári. Þetta er auðvitað kærkomið frí og allir hlakka til að halda jólin með sínum nánustu. Við vorum allir komnir í jólaskap á heimsiglingunni.“

Flautað og veifað við Hrísey

„Teitur Björgvinsson skipstjóri, sem býr í Hrísey, var með okkur í þessum túr og hann sagði mér frá gamalli hefð að flauta alltaf við eyjuna og veifa íbúunum. Þetta gerðum við auðvitað í fallega aðventuveðrinu í gær, allt samkvæmt nákvæmum lýsingum og fyrirmælum Teits,“ segir Stefán Viðar Þórisson skipstjóri, sem sjálfur býr á Reyðarfirði og heldur jólin þar.