"Eitt helsta flaggskip flotans"

– segir Guðmundur Jónsson, skipstjóri á Vilhelm EA 11 en skipið var að klára sína fjórðu veiðiferð.

„Það hefur allt gengið samkvæmt óskum hjá okkur. Við erum enn að læra á skipið en það hefur svo sannarlega staðið undir öllum þeim væntingum sem við gerum til þess,“ segir Guðmundur Jónsson, skipstjóri á Vilhelm Þorsteinssyni EA 11. Skipið var á kolmunnaveiðum við Færeyjar en er nú á leið í land með 2.200 tonn um borð.

Hann segir skipið toga mjög vel og það þótt aðeins önnur vél skipsins sé notuð. „Það að geta notað aðeins aðra aðalvélina við ýmsar aðstæður sparar gríðarlega mikið eldsneyti og því er kolefnissporið við veiðarnar mun minna en ella. Skipið fer létt með 12 mílur á klukkustund á annarri vélinni, sem er býsna vel gert.“

Vilhelm Þorsteinsson EA 11 er nú að klára sína fjórðu veiðiferð frá því það kom nýtt til heimahafnar á Akureyri þann 3. apríl sl., allar á kolmunna. Skipið landaði 3.100 tonnum úr fyrsta túrnum og 3.050 tonnum úr þeim næsta, í bæði skiptin í Skagen í Danmörku. Aflanum úr þriðja túrnum, 2.000 tonnum, var landað í Færeyjum.

Ástæðan fyrir því að landað var í Skagen er að komið hafa upp vandkvæði í löndunarbúnaðinum, sem hefur þurft að leysa úr í samstarfi við skipasmíðastöðina í Skagen. Gera þarf minniháttar lagfæringar á búnaðinum til að ráða bót á þessu og vegna Covid-19 sóttvarna hefur því ekki verið hægt að landa annars staðar.

Skipið er nú að koma af veiðum við Færeyjar og næst verður haldið á makrílveiðar á Íslandsmiðum.

Frábært skip sem fer vel með mannskapinn

Guðmundur segir skipið það besta sem hann hafi stjórnað á löngum skipstjórnarferli. „Tækjabúnaðurinn er framúrskarandi og allur aðbúnaður um borð eins góður og hugsast getur. Þetta skip fer mjög vel með mannskapinn, ef svo má segja, og ekki síður með aflann því kæligetan í tönkunum er mikil og lestarrýmin stór. Vilhelm EA er svo sannarlega eitt helsta flaggskip flotans og ber íslensku hugviti og útsjónarsemi fagurt vitni,“ segir hann.