Engar kröfur á hendur fyrrverandi framkvæmdastjóra

Í morgunútvarpi Rásar 2 í gær var umfjöllun um styrktarsjóð samtakanna Wikileaks. Fram kom í þættinum að Jóhannes Stefánsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri hjá Samherja, myndi hér eftir njóta styrkja úr sjóðnum og var vakin athygli á fjársöfnun á meðal almennings í því sambandi.

Komið hefur fram að tilgangur fjársöfnunarinnar sé að mæta kostnaði sem styrkþegar telja sig hafa þurft að bera. Þáttastjórnandinn Sigmar Guðmundsson sagði að umræddur sjóður hefði styrkt þekkta uppljóstrara erlendis og bar mál þeirra saman við mál Jóhannesar en lét þess getið að mál hinna erlendu uppljóstrara væru annars eðlis. „Þau eru að berjast við bandarísk yfirvöld en Jóhannes á kannski meira í baráttu við risavaxið fyrirtæki sem hér starfar, Samherja,“ sagði Sigmar í þættinum.

Þannig var gefið í skyn í þessari umræðu að Jóhannes hefði orðið fyrir einhverjum kostnaði eða fjárútlátum vegna þessarar „baráttu“ við fyrrverandi vinnuveitanda sinn, Samherja.

Að gefnu tilefni vill Samherji árétta að fyrirtækið hefur engar kröfur gert á hendur Jóhannesi Stefánssyni, hvort sem um er að ræða fjárkröfur eða kröfur annars eðlis. Raunar hefur Samherji aldrei krafið Jóhannes um nokkurn skapaðan hlut eftir að ráðningarsambandi hans var slitið á árinu 2016. Í því sambandi er mikilvægt að undirstrika að Jóhannesi var vel umbunað fyrir störf sín hjá Samherja og stóð félagið við allar skuldbindingar sínar gagnvart honum. Bæði fyrir og eftir að hann lét af störfum.