Engin skattrannsókn í Færeyjum

Engin skattrannsókn er hafin á hendur Samherja í Færeyjum. Samherji fékk það staðfest hjá Eyðun Mørkør yfirmanni færeyska skattsins, TAKS. Fréttir Ríkisútvarpsins í gær um skattrannsókn í Færeyjum eru því rangar og byggja á rangtúlkun og útúrsnúningi á ummælum Mørkør í viðtali við Kringvarp Føroya. Hefur Samherji þegar sent fréttastofu Ríkisútvarpsins beiðni um að fréttirnar verði leiðréttar.

Ríkisútvarpið birti frétt á vef sínum laust eftir hádegi í gær þar sem fullyrt er að færeysk skattyfirvöld hefðu formlega hafið rannsókn á mögulegum skattalagabrotum Samherja í Færeyjum. Þá var þessi sama frétt endursögð í sjónvarpsfréttum um kvöldið. Samherji lét kanna málið sérstaklega hjá TAKS. Í skriflegu svari frá Eyðun Mørkør kemur fram að endursögn Ríkisútvarpsins á ummælum hans sé röng. Þá fékk Samherji staðfest að engin skattrannsókn væri í gangi í Færeyjum á hendur félaginu. Í kjölfarið var Ríkisútvarpinu send beiðni um leiðréttingu.

Þess skal getið að fréttastofa Ríkisútvarpsins leitaði ekki eftir sjónarmiðum eða afstöðu Samherja áður en umræddar fréttir voru birtar. Þetta var heldur ekki gert síðastliðinn þriðjudag þegar Ríkisútvarpið birti frétt um skip Samherja sem skráð eru í Færeyjum. Fréttastofa Ríkisútvarpsins braut gegn eigin vinnureglum með því að gefa Samherja ekki möguleika á andsvörum áður en þessar fréttir voru birtar.

Þessi vinnubrögð eru í takti við annað þegar umfjöllun fréttastofunnar um Samherja er annars vegar. Ítrekaðar aðfinnslur við vinnubrögð fréttastofunnar hafa engu skilað og virðist henni ómögulegt að fjalla á hlutlægan og heiðarlegan hátt um málefni Samherja eins og fjölmörg dæmi sanna.