Félög Samherja bera kostnað af skertu starfshlutfalli og endurgreiða hlutabætur

Samherji Ísland og Útgerðarfélag Akureyringa (ÚA), sem eru í eigu Samherja, munu bera allan kostnað vegna skerts starfshlutfalls starfsmanna í kjölfar Covid-19 heimsfaraldursins og endurgreiða ríkissjóði hlutabætur sem greiddar voru starfsmönnum.

Megintilgangur laga um minnkað starfshlutfall og hlutabætur var að stuðla að því að viðhalda ráðningarsambandi milli starfsmanna og fyrirtækja þótt það kynni að vera nauðsynlegt að minnka starfshlutfall þeirra. Þannig var markmiðið að tryggja fjárhagslega afkomu almennings í þeim þrengingum sem gengu yfir íslenskt samfélag enda væru mikil verðmæti fólgin í því fyrir samfélagið allt að sem flestir héldu virku ráðningarsambandi við vinnuveitanda. Hugsunin var að fólk gæti haldið ráðningarsambandi og afkoma þess væri þannig tryggð.

Fyrirtækin Samherji Ísland og ÚA þurftu að minnka starfshlutfall starfsmanna í vinnslu á Akureyri og á Dalvík eftir að Covid-19 faraldurinn hófst og voru þessir starfsmenn um tíma í 50% starfi. Breytt starfshlutfall var meðal annars til komið vegna krafna stjórnvalda um sóttvarnir en markmiðið var að minnka líkur á að smit bærist á milli fólks og tryggja að starfsfólk gæti unnið í sem mestu öryggi.

Stjórnendur Samherja Íslands og ÚA hafa nú ákveðið að fyrirtækin sjálf beri allan kostnað af skertu starfshlutfalli starfsmanna. Hefur þegar verið gripið til ráðstafana til að endurgreiða ríkissjóði þær hlutabætur sem voru greiddar starfsmönnum á meðan þeir voru í skertu starfshlutfalli. Stjórnendur Samherja Íslands og ÚA töldu sjálfsagt að nýta hlutastarfaleiðina þar sem um var að ræða lögbundið úrræði stjórnvalda. Það var svo talið jafn eðlilegt að láta fyrirtækin sjálf bera kostnaðinn, af þeirri röskun sem varð á starfsemi þeirra, þegar ljóst var að reksturinn gekk betur en útlit var fyrir í upphafi faraldursins.

„Þegar hlutastarfaleiðin var kynnt fyrr á þessu ári var mjög mikil óvissa í íslensku efnahagslífi og fyrirtæki voru beinlínis hvött til þess að nýta sér þessa leið fremur en að segja fólki upp störfum. Vegna þessarar óvissu og vegna krafna um sóttvarnir var starfsfólk í fiskvinnslu hjá Samherja Íslandi og ÚA sett í hlutastörf. Það hefur tekist mun betur að vinna úr þeirri stöðu sem var uppi í kjölfar heimsfaraldursins en útlit var fyrir í byrjun. Veiðar, vinnsla og sala hafa gengið betur en menn þorðu að vona. Af þeim sökum hafa þessi fyrirtæki ákveðið að nýta ekki hlutabótaleiðina og greiða starfsfólki að fullu. Félögin munu því bera allan kostnað sem féll til vegna truflunar á starfseminni í þágu sóttvarna,“ segir Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Samherja.