Loksins, loksins, geta starfsmannafélögin efnt til viðburða

“Já, já, svo að segja öll starfsemi hefur legið niðri hjá okkur síðan heimsfaraldurinn skall á af fullum þunga, þannig að það er mikil tilhlökkun hjá okkur að koma saman á nýjan leik, maður finnur það greinilega á fólki,” segir Ragnheiður Rut Friðgeirsdóttir formaður Fjörfisks, sem er starfsmannafélag Samherja á Dalvík.

“Í lok september ætum við að fara í Skagafjörðinn og í byrjun október verður heljarinnar villibráðakvöld og skráningin er afskaplega góð, sem undirstrikar hversu langþráð það er að hittast á nýjan leik og hafa gaman saman. Öflugt starfsmannafélag er nauðsynlegt, það sem við gerum saman eflir starfsandann og gerir lífið skemmtilegra og innihaldsríkara. Samherji styður okkur dyggilega í öllu sem við gerum og núna sjáum við loksins fram á að geta skemmt okkur saman,” segir Ragnheiður Rut.

Tilhlökkun greinileg

Sama er uppi á teningnum hjá Starfsmannafélagi ÚA á Akureyri, STÚA, þar er farið að skipuleggja líflega dagskrá vetrarins. Óskar Ægir Benediktsson formaður segir að vegna heimsfaraldursins hafi starfsemin legið í dvala, rétt eins og hjá öllum öðrum sambærilegum félögum.

“Við náðum að halda aðalfund í mars og fara saman út að borða í febrúar í fyrra. Að öðru leyti má segja að félagsstarf hafi legið niðri í nærri tvö ár en sem betur fer sjáum við fram á jákvæðar breytingar.”

Óskar Ægir segir að félagsmenn tali eðlilega um afleiðingar heimsfaraldursins á félagsstarfið og hann segir tilhlökkun greinilega í loftinu.

“Já, klárlega. Við erum að undirbúa hópferð austur á Hérað, gistum á Hótel Hallormsstað og höldum þar veislu fyrir hópinn. Þá erum við farin að huga að litlu jólunum og sjálfsagt gerum við eitthvað fleira skemmtilegt í haust. Það er svo greinilegt að fólk þráir að koma saman og þegar farið var að slaka á sóttvarnarreglum varð strax léttara yfir öllum.

Loksins, loksins, eru starfsmannafélögin að lifna við eftir langan dvala og ég er nokkuð viss um að þátttakan í viðburðum verður góð í vetur,” segir Óskar Ægir formaður Starfsmannafélags ÚA.