Rafmagnstengingin er jákvætt skref í umhverfismálum

Vilhelm Þorsteinsson EA 11 – nýtt uppsjávarskip Samherja – kom til Neskaupstaðar í lok síðustu viku með um 850 tonn af makríl til vinnslu hjá fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar. Löndun úr skipinu markar jákvæð tímamót, notast var í fyrsta sinn við rafmagnsbúnað til að landtengja skip meðan þau landa hráefni í fiskiðjuverið. Með tilkomu búnaðarins er áætlað að olíunotkun skipa dragist saman um 300 þúsund lítra á ári. Kostnaður við verkefnið er á annað hundrað milljónir króna.

Þórarinn Þórarinsson yfirvélstjóri á Vilhelm Þorsteinssyni segir að venjulega taki um tvo sólarhringa að dæla hráefninu til vinnslunnar og á meðan þurfi að keyra ljósavélar skipsins til þess að halda hráefninu kældu, með tilheyrandi olíunotkun.

Neskaupstaður grænn

„Þessi rafmagnstenging er mjög svo jákvæð í umhverfislegu tilliti og sparar olíunotkun, þannig að þetta er mikilvægt grænt skref sem verið er að stíga með þessum búnaði, við þurfum sem sagt ekki lengur að brenna olíu þegar verið er að landa.

Hérna fyrir austan hafa verið stigin stór græn skref í sjávarútvegi, til dæmis hefur fiskimjölsverksmiðjan verið rafmagnsvædd og fleiri þætti er hægt að nefna, svo sem endurnýjun skipa. Neskaupstaður er klárlega einn af grænustu sjávarútvegsstöðum sem við þekkjum, starfsemi Síldarvinnslunnar endurspeglar það,“ segir Þórarinn Þórarinsson yfirvélstjóri á Vilhelm Þorsteinssyni EA.

Þurfum að vera vakandi yfir orkuskiptum

Gunnþór B. Ingvason forstjóri Síldarvinnslunnar segir á heimasíðu félagsins um merk tímamót að ræða.

„Þetta er stórt og jákvætt skref í orkuskiptum íslensks sjávarútvegs, þetta verkefni er búið að taka okkur nokkur ár í þróun og undirbúningi. Við erum að fara úr því að nota olíu til kælingar, dælingar og keyrslu skips við löndun yfir í að nota rafmagn. Stefna Síldarvinnslunnar er að lágmarka umhverfisáhrif eða fótspor af sinni starfsemi og við þurfum að vera vakandi yfir orkuskiptum í flotanum en þar eru að koma fram ýmsar lausnir sem við þurfum að skoða hve fýsilegar eru,“ segir Gunnþór.

Börkur NK kom til Neskaupstaðar í morgun með síld og makríl og var notast við hinn nýja búnað við löndun úr skipinu.