Rúmlega 85.000 manns hafa horft á nýjasta þátt Samherja

Í þættinum fjallar Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, um vinnuskjal sem nýverið fannst h…
Í þættinum fjallar Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, um vinnuskjal sem nýverið fannst hjá Verðlagsstofu skiptaverðs

Alls hafa rúmlega 85.000 manns horft á nýjasta sjónvarpsþátt Samherja en um er að ræða einn af þremur þáttum sem fyrirtækið hefur sent frá sér að undanförnu.

Í umræddum þætti fjallar Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, um vinnuskjal sem nýverið fannst hjá Verðlagsstofu skiptaverðs. Áður hafði Samherji fengið staðfest skriflega frá Verðlagsstofu að skjalið, sem var ítrekað nefnt skýrsla í umfjöllun Ríkisútvarpsins, hefði aldrei verið unnið hjá stofnuninni.

Þátturinn fór í sýningu á YouTube fimmtudaginn 27. ágúst og á fjórum sólarhringum hafa rúmlega 85.000 manns horft á hann. Mikið áhorf á þennan þriðja þátt sýnir, svo ekki verður um villst, að sjónvarpsþáttagerð er afar hentug og árangursrík leið fyrir fyrirtæki að miðla upplýsingum til almennings.

Með breytingum sem hafa orðið á fréttaneyslu, ekki síst með tilkomu samfélagsmiðla og miðla eins og YouTube, hafa fyrirtæki og stofnanir í auknum mæli horft til þáttagerðar í því skyni að koma upplýsingum á framfæri, í stað þess að reiða sig eingöngu á ritaðar fréttatilkynningar. Er sú þróun komin talsvert lengra erlendis en aðferðin virðist vera að festa rætur hér á landi.

Hægt er að horfa á sjónvarpsþáttinn hér.