„Samherji er mjög framarlega í tölvu- og upplýsingamálum“

Eiríkur Kristján Aðalsteinsson/myndir samherji.is
Eiríkur Kristján Aðalsteinsson/myndir samherji.is

Eiríkur Kristján Aðalsteinsson iðnrekstrarfræðingur tók að sér tölvumál árið 1995 hjá litlu útgerðarfyrirtæki, Samherja, og er enn að. Gríðarlegar breytingar hafa orðið á upplýsinga- og tölvumálum á þessum árum og sömu sögu er að segja um Samherja sem hefur vaxið hröðum skrefum. Hann segir að tölvur og hugbúnaður gegni lykilhlutverki í starfsemi fyrirtækja, Samherji teljist framarlega í þeim efnum.

Eiríkur Kristján starfaði sem verkstjóri hjá Niðursuðuverksmiðju K.Jónssonar og síðar Strýtu sem keypti þrotabú K.Jónssonar 1993 en Samherji var meðal hluthafa Strýtu.

Tölvum fjölgaði ört hjá framsæknu fyrirtæki

Eiríkur segir að á þessum tíma hafi ör þróun verið í tölvum sem og í notendaviðmótinu sjálfu.

„Um þessar mundir var Windows stýrikerfið að ryðja sér til rúms sem auðveldaði almenna notkun og tölvum fór stöðugt fjölgandi í fyrirtækinu, ekki síst um borð í skipaflotanum. Haraldur Grétarsson sem þá var í ýmsum sérverkefnum fyrir Þorstein Má forstjóra hafði samband við mig og sagði að uppsetning á nýjum tölvum og almennt tölvuvesen tæki orðið sífellt meiri tíma. Aðkeypt þjónusta væri dýr og hann hafi heyrt að ég væri lunkinn við svona apparöt. Við getum sagt að þarna hafi boltinn byrjað að rúlla fyrir alvöru hjá mér í tölvumálum Samherja.

Til að byrja með sinnti ég jöfnum höndum tölvum um borð í skipunum sem og í landi. Í skipum var til dæmis byrjað að nota tölvur við ýmsa skýrslugerð auk Standard C samskiptatækninnar, sem byggðist á samskiptum við gervihnetti í textaformi en telst ansi frumstæð í dag. Viðhald þessara tölva og glíman við hið hrekkjótta „serial“ samskiptatengi gat bugað jafnvel vönustu menn. Þá var og verið að taka í gagnið tölvur með viðhaldskerfum sem vélstjórar skipanna nýttu. Ég var sem sagt fenginn til þess að sinna þessum nýju tækjum. 

Fartölvur voru einnig að líta dagsins ljós á þessum tíma og man ég að Samherji átti allavega eina fartölvu þegar ég kom til starfa. Mér þótti þetta afar merkileg græja og bera vott um að fyrirtækið ætlaði sér að taka fullan þátt í að nýta þessa þróun“

Miðaprentaravæðingin var bylting

„Um tveimur árum eftir að ég hóf að sinna tölvumálum var ákveðið að ráðast í það stóra verkefni að miðaprentvæða skipaflotann, sem sagt að prenta út límmiða á umbúðir um borð jafn óðum og afurðirnar urðu til. Þá var jú sjófrystingin alls ráðandi. Hagræðingin þótti gríðarleg og framúrstefnuleg, engin hætta var á að miðar fyrir ákveðnar afurður kláruðust og svo var meira að segja hægt að skipta um texta fyrir afurðir úti á rúmsjó. Áður þurfti að fara út með allar tegundir af límmiðum forprentaðar. Þetta þótti viðamikið og flókið verkefni á þeim tíma, en heppnaðist afskaplega vel og tæknin var innleidd fljótlega í öllum Samherjaflotanum.“

Sérstök tölvuver í nýjum skipum

„Það þarf ekkert að fara mörgum orðum um framfarirnar og breytingarnar á þessum áratugum. Í dag má segja að tölvurnar og alls konar hugbúnaður hafi tekið yfir ansi margt um borð í skipunum og sömu sögu er að segja um landvinnsluna. Í nýjustu skipunum eru meira að segja sérstök tölvuver, umsjón og viðhald er svo hjá sérhæfðum fyrirtækjum í landi. Þetta á líka við um vinnslurnar, störfin eru orðin líkamlega auðveldari og snúast frekar um eftirlit með búnaðinum.“

Skilvirkni og öryggismál ávallt ofarlega á baugi

„Þessi deild eins og aðrar í fyrirtækinu leitar stöðugt leiða til hagræðingar undir öruggri stjórn yfirmanns okkar Finnboga Reynissonar. Við erum ekki nema fjórir á deildinni og skilvirkni því nauðsynleg. Ýmsar þjónustur sem við gerðum áður út sjálfir eins og að reka eigin tölvupóstþjón er búið að flytja í skýið hjá Microsoft. Þetta er ekki gallalaust fyrirkomulag en í skýinu felst óumdeilanleg hagræðing og kostirnir eru margfaldir á við ókostina. Skýið léttir ýmsu utanumhaldi af okkur og við getum betur einbeitt okkur að daglegum verkefnum sem er einfaldlega að allt virki. Allt þarf að vera í lagi og tala saman eins og til er ætlast og bregðast þarf skjótt við að greina vandamál og bæta úr þegar svo ber undir. Þetta er um margt spennandi heimur í stöðugri þróun, sem heldur manni svolítið á tánum en veldur því jafnframt að starfið verður hvorki tilbreytingarlaust né leiðinlegt.

Samhliða auknu vægi tölva hefur öryggisógnin utanfrá vaxið til mikilla muna, skipulögð svikastarfsemi er okkur hér á deildinni ávallt ofarlega í huga og sjálfsagt flestum sem starfa á þessu sviði. Að viðhalda góðu öryggisstigi er endalaust verkefni og flækir málin mikið bæði fyrir okkur og notendum. Ég vil nota tækifærið og segja starfsmönnum Samherja til hróss að þeir sýna þessu orðið skilning og taka auknum öryggiskröfum með sífellt meira jafnaðargerði.

Það er líka ánægjulegt hversu starfsmenn sýna upp til hópa mikla árvekni og tortryggni gagnvart öllu óvenjulegu sem berst í tölvupósti, en það er helsta leið svindlara í dag. Menn eru ófeimnir að kalla eftir hjálp við að meta hvort eitthvað sé gruggugt, enda hvetjum við okkar fólk til þess. Bein notendaaðstoð eykst með hærra öryggisstigi og fyrir nokkrum árum settum við upp þjónustuborð til að sinna því og ýmsum öðrum málum er tengjast notendum, tölvum og tölvukerfum og er það stór hluti af mínu starfi í dag.“

Samherji framarlega í tölvu- og upplýsingamálum

„Já, Samherji er mjög framarlega í tölvu- og upplýsingatækni að mínu mati og er þar lykilatriði að kerfin skila góðum upplýsingum til þeirra sem á þurfa að halda í nánast rauntíma. Slíkt er ekki sjálfgefið enda daglegt gagnamagn frá öllum kerfum fyrirtækisins yfirþyrmandi. Okkar yfirmaður er hér eins og oft áður betri en enginn við stýrið enda óhræddur við að nýta nýja hluti. Það þarf skynsemi og áræðni að innleiða ný tól sem kosta peninga og krefjast auk þess oft á tíðum mikils vinnuframlags.“

Jafn áhugasamur nú og fyrir hartnær 30 árum

„það hefur verið hálfgert ævintýri að fylgja fyrirtækinu í gegnum allan þennan vöxt. Þrátt fyrir að ég sé einharður Þórsari og hafi ávallt búið norðan við Glerá hafa þeir frændur ekkert látið það bitna á mér nema síður sé. Mér finnst ég ávallt hafa notið trausts stjórnenda fyrirtækisins. Ég get ekki neitað því að maður ber taugar til fyrirtækisins eftir alla þessa samfylgd og metur starfið mikils. Allt þetta ásamt þéttum og góðum hópi hérna á tölvudeildinni gerir það að verkum að maður mætir jafn áhugasamur til vinnu nú og fyrir hartnær þrjátíu árum“ segir Eiríkur Kristján Aðalsteinsson í tölvudeild Samherja.