Samherji Fiskeldi fær ASC vottun

"Markmið okkar er að stunda sjálfbært og umhverfisvænt fiskeldi, við erum því mjög ánægð með að vera komin með ASC umhverfisvottun“ segir Heiðdís Smáradóttir

Samherji Fiskeldi hefur fengið ASC umhverfisvottun á framleiðslu sína í landeldi á bleikju.

ASC (Aquaculture Stewardship Counsel) er ein strangasta umhverfisvottun þegar kemur að fiskeldi og er viðurkennd um allan heim. Samherji Fiskeldi rekur tvær áframeldisstöðvar fyrir bleikju á Suðurnesjum og var framleiðslan um 3500 tonn á síðasta ári. Fyrirtækið er einnig með Whole Foods Market og BAP (Best Aquaculture Practice) vottanir.

„Markmið okkar er að stunda sjálfbært og umhverfisvænt fiskeldi, við erum því mjög ánægð með að vera komin með ASC umhverfisvottun,“ segir Heiðdís Smáradóttir, verkefna og gæðastjóri Samherja Fiskeldis. Það var Lloyd´s Register sem sá um ASC úttektina hjá Samherja Fiskeldi.

Margir hafa komið að þróun ASC staðalsins

ASC samtökin sem standa að baki staðlinum eru óháð samtök sem ekki eru rekin í hagnaðarskini (non-profit). Heiðdís segir að uppfylla þurfi ströng skilyrði til þess að fá slíka vottun.

„Margir ólíkir hagsmunaaðilar hafa komið að þróun ASC staðalsins, svo sem náttúruverndarsamtök, fiskeldisfyrirtæki, söluaðilar, matvælaframleiðendur, vísindamenn og opinberar stofnanir en staðalinn byggir á hugmyndafræði frá World Wildlife Fund. ASC staðallinn er aðlagaður að eldisafurðum og er hliðstæður MSC staðlinum sem er þekktasti umhverfisstaðallinn fyrir villta fiskistofna.

Til að standast vottun þurfa fyrirtækin til dæmis að sýna fram á að þau leggi sig fram um að lágmarka umhverfisáhrif af sinni starfsemi og að þau starfi í sátt við samfélagið. Fyrirtækin þurfa því að uppfylla körfur er lúta að umhverfi, vinnulöggjöf og samfélagi,“ segir Heiðdís.

 

Leiðandi í markaðsmálum

Birgir Össurarson sölu- og markaðsstjóri Ice Fresh Seafood, sem sér um sölu afurða Samherja Fiskeldis, segir að vottunin hafi mikla og jákvæða þýðingu.

„Við höfum það að markmiði að vera í fremstu röð í framleiðslu og sölu á bleikju og að vera leiðandi í markaðsstarfi víðs vegar um heiminn. Til þess að svo megi vera, þurfum við að uppfylla kröfur og óskir okkar viðskiptavina. Það sem gerir ASC vottun sérstaka er að hún er viðurkennd mjög víða um heiminn, víðar en aðrar vottanir. Við Íslendingar erum heimsins stærstir í bleikjueldi og Samherji Fiskeldi trónir þar á toppnum. Það er okkur því gleðiefni að tilkynna viðskiptavinum okkar þessi tíðindi, því öll jákvæð umfjöllum skiptir jú greinina máli,“ segir Birgir.

Tryggja gott heilbrigðiseftirlit

Framleiðendur fiskifóðurs sem notað er við eldið þurfa einnig að uppfylla strangar kröfur. Þar þarf að tryggja rekjanleika og gæði alls hráefnis og jafnframt þarf fiskimjöl og olía sem notuð eru í fóðrið að koma úr sjálfbærum fiskistofnum.

Fyrirtæki í landeldi með ASC vottun þurfa að vakta með reglulegum mælingum losun lífrænna efna út í umhverfið með því að taka sýni úr frárennslisvatni. Einnig eru gerðar ríkar kröfur þegar kemur að sjúkdómavörnum og þurfa ASC vottuð eldisfyrirtæki að vinna náið með dýralæknum til að tryggja gott heilbrigðiseftirlit.

 Hætta á sleppingum hverfandi

Annar mikilvægur þáttur sem ASC tekur á eru sleppingar á eldisfiski og varnir gegn þeim.

„Umræðan um fiskeldi í samfélaginu hefur mikið snúist um verndun villtra laxfiskastofna og laxalús, landeldi hefur meðal annars þá kosti að þar er engin laxalús og þar af leiðandi engin lyfjanotkun því tengd og hætta á sleppingum er nánast engin“ segir Heiðdís.

Góð samvinna við nærumhverfið

ASC staðallinn gerir einnig miklar kröfur um samfélagsábyrgð. Tryggja þarf öryggi starfsmanna á vinnustað með réttum aðbúnaði og reglulegri þjálfun, almenn réttindi starfsmanna og launamál þurfa að vera í lagi og jafnframt þarf að sýna fram á að góð samvinna sé við nærumhverfið, íbúa og sveitarfélög.

Viltu vita meira ?

Frekari upplýsingar um ASC Aquaculture Stewardship Certification (ASC) –   https://www.asc-aqua.org/

World Wide Fund for Nature, WWF and ASC:  https://www.worldwildlife.org/press-releases/wwf-tohelp-fund-creation-of-aquaculture-stewardship-council