Stækkun Silfurstjörnunnar í fullum gangi

Nýju kerin eru stór, enda tvöfaldast framleiðslan / myndir samherji.is
Nýju kerin eru stór, enda tvöfaldast framleiðslan / myndir samherji.is

Verklegar framkvæmdir við stækkun landeldisstöðvar Fiskeldis Samherja í Öxarfirði eru í fullum gangi. Tvöfalda á eldisrými og framleiðslu, þannig að framleiðslan verði um þrjú þúsund tonn á ári. Þegar er farið að móta fyrir fyrstu kerjunum en þau verða fimm talsins og um helmingi stærri en þau sem fyrir eru.

Góður undirbúningur skiptir sköpum

„Við stefnum á taka fyrsta kerið í notkun í lok ársins, eins og staðan er í dag getum við sagt að allt gangi samkvæmt áætlun. Hin kerin verða svo virkjuð á eins til tveggja mánaða millibili. Hérna á svæðinu eru starfsmenn nokkurra verktakafyrirtækja og stórvirkar vinnuvélar eru áberandi á svæðinu. Undirbúningurinn tók náttúrulega nokkurn tíma, svo sem vinna við skipulagsmál, leyfisumsóknir og fleira. Góður undirbúningur skiptir sköpum og þá verður sjálf uppbyggingin hnitmiðaðri en ella,“ segir Arnar Freyr Jónsson rekstrarstjóri Fiskeldis Samherja í Öxarfirði.

Hagkvæmari rekstur

Eins og fyrr segir tvöfaldast framleiðslan og segja má að stækkunin sé nokkurs konar undanfari stórrar landeldisstöðvar Samherja Fiskeldis á Reykjanesi.

„Já, við ætlum að nýta okkur þá reynslu sem við öðlumst hérna fyrir norðan þegar uppbyggingin hefst fyrir alvöru fyrir sunnan. Auk þess var kominn tími á ýmsar uppfærslur í starfseminni, enda Silfurstjarnan á margan hátt komin nokkuð til ára sinna. Eftir stækkun verður reksturinn hagkvæmari.“

Líflegt í matsalnum

„Þessar framkvæmdir lífga sannarlega upp á allt saman hérna og stækkunin mun klárlega efla samfélagið í Norðurþingi, enda er Silfurstjarnan stærsti vinnuveitandinn á svæðinu á eftir sjálfu sveitarfélaginu. Það er gaman og spennandi að sjá þetta verða að veruleika. Núna er sem sagt farið að móta fyrir kerjunum og það er viss áfangi. Ég giska á að starfsmenn hérna séu um það bil helmingi fleiri en venjulega, þannig að það er líf og fjör þegar allir koma saman í matsalnum,“ segir Arnar Freyr Jónsson.