Stór og góður þorskur veiðist vel á Dohrnbanka

Björgvin EA við bryggju í Grundarfirði / myndir samherji.is
Björgvin EA við bryggju í Grundarfirði / myndir samherji.is

Togaraflotinn hefur ekki stundað veiðar á Dohrnbanka - sem er djúpt vestur af landinu - í háa herrans tíð, enda svæðið aðallega þekkt fyrir rækjuveiði. Þegar aflabrögð voru slök á hefðbundnum bolfiskmiðum í síðasta mánuði, ákvað Samherji að senda togarann Björgvin EA á Dohrnbanka. Skemmst er frá því að segja að aflabrögðin voru góð, stór og vænn þorskur. Íslenskum skipum fjölgaði hratt á þessum slóðum í kjölfarið, enda fiskisagan fljót að fljúga innan greinarinnar.

Ásgeir Pálsson skipstjóri á Björgvin segir að íslenski flotinn veiði við miðlínuna milli Grænlands og Íslands, rúmlega eitthundrað sjómílur vestur af Látrabjargi. Björgvin landaði fullfermi í Grundarfirði og er aflanum ekið til vinnslu á Akureyri og Dalvík.

Meðalvigtin rúmlega 6 kíló

„Þetta var annar túrinn okkar. Sá fyrri gekk vel, við vorum tvo og hálfan sólarhring að fylla skipið og í þessum túr tók svipaðan tíma að fylla. Þetta er stór þorskur og greinilega vel haldinn, lifrin er stór. Meðalvigtin hjá okkur var 6,2 kíló og í nokkrum holum allt að sjö kílóum. Mest tókum við 18 tonn en reyndum að hafa á bilinu 10 til 12 tonn í holi til þess að afurðirnar verði sem bestar og verðmætastar. Það er ekki nóg að fiska sem mest, gæðin skipa mestu og þar með aflaverðmætið.“

Stærsti foss í heimi , þungur staumur og landsins forni fjandi

„Já, þarna er allra veðra von, það getur verið hauga helvítis sjór í norð-austan áttinni. Öldurnar eru ansi krappar og stutt á milli þeirra enda er straumurinn þungur. Annars hefur veðrið verið ágætt á okkur í þessum tveimur túrum, fyrir utan fyrsta sólarhringinn en þarna er líka hafís sem getur verið varasamur,“ segir Ásgeir.

Talandi um sterka strauma, þá fellur stærsti foss heims skammt SA af veiðislóð skipanna en það er kaldur djúpsjór sem kemur úr norðurhöfunum og flæðir með botninum fram af háum hrygg þarna í Grænlandssundi.

Þessi mikla straumbuna er um 3 miljónir rúmmetra á sekúndu (m3/s) með fallhraða upp á 55 sentimetra á sekúndu, til samanburðar fer Ölfusá fram með 400 rúmmetra á sekúndu (m3/s) sem er mesta rennsli íslenskra áa. Ölfusáin er þess vegna eins og bæjarlækur.

 

Ræða upprunann í talstöðinni

Fljótlega eftir að fréttist af góðum aflabrögðum fjölgaði skipum hratt. Flest voru þau fimmtán en þegar þetta viðtal var tekið, voru skipin sjö.

„Menn hafa verið að velta þessu fyrir sér, hvort þetta er Grænlandsþorskur sem kemur úr grænlenskri lögsögu og hrygnir síðan í Breiðafirði en það er sem sagt ekki vitað nákvæmlega á þessari stundu. Ég hef heyrt tilgátur í talstöðinni um þetta en sjálfsagt kemur hið sanna í ljós með tíð og tíma.“

Nóg að gera í landi

„Það er um fimmtán klukkustunda stím á Grundarfjörð og flutningabílarnir aka svo hráefninu norður í Eyjafjörð til vinnslu. Það hafa fleiri skip frá Samherja og ÚA verið á þessum slóðum og veitt vel, þannig að landvinnslan hefur úr nógu að moða þessa dagana, enda veitir ekkert af eftir tregt fiskerí á undanförnum vikum,“ segir Ásgeir Pálsson skipstjóri á Björgvin EA.