Tvö dótturfélög Samherja hf. sameinast

Landvinnsla ÚA á Akureyri
Landvinnsla ÚA á Akureyri

Ákveðið hefur verið að einfalda rekstur dótturfélaga Samherja hf. í veiðum og vinnslu, með því að sameina rekstur þeirra á einni kennitölu.

Útgerðarfélag Akureyringa ehf. sameinast Samherja Íslandi ehf., sem fyrir rekur fiskvinnslu á Dalvík og gerir út þrjú ísfiskskip, frystitogara og tvö uppsjávarskip. Móðurfélag þessara tveggja félaga er Samherji hf.

Útgerðarfélag Akureyringa hefur verið rekið sem sérstakt félag innan Samherja um langt árabil.

Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri Samherja segir að samruninn sé fyrst og fremst til hagræðingar.

„Útgerðarfélag Akureyringa verður að sjálfsögðu áfram til, þótt félagið sameinist systurfélaginu Samherja Íslandi ehf. Landvinnslan á Akureyri mun áfram heita landvinnsla Útgerðarfélags Akureyringa. Skipin, Kaldbakur og Harðbakur verða áfram skip Útgerðarfélags Akureyringa. Eftir sameiningu dótturfélaganna verður margvísleg umsýsla einfaldari og skilvirkari, sem er eins og fyrr segir helsta ástæða þessara breytinga.”