Endurvinnsla frétta og afbökun staðreynda hjá RÚV

Fréttastofa Ríkisútvarpsins hyggst í kvöld flytja frétt sem snýr að rekstri útgerðar í Namibíu á vegum félaga sem tengjast Samherja. Með þessari frétt stendur til að endurflytja rúmlega árs gamlar ásakanir. Í fyrirspurn frá fréttastofunni er síðan enn á ný vikið að gögnum sem lögð voru fram í tengslum við kröfu Ríkissaksóknara Namibíu um kyrrsetningu eigna en ítrekað hefur verið fjallað um umrædd gögn í íslenskum og namibískum fjölmiðlum undanfarnar vikur.

Í fyrirspurninni, sem barst í morgun, var Samherji beðinn um að útskýra tölvupóstsamskipti tveggja einstaklinga. Svar Samherja við fyrirspurn Aðalsteins Kjartanssonar, fréttamanns Ríkisútvarpsins, fer hér á eftir.

„Sæll Aðalsteinn.

Eins og svo oft áður, þegar umfjöllun Ríkisútvarpsins um málefni tengd Samherja er annars vegar, þá felur fréttin sem þú ert að vinna í sér endurvinnslu á gömlum ásökunum og afbökun staðreynda. Fyrsta atriðið sem þú nefnir, um að Ríkissaksóknari Namibíu hafi óskað eftir kyrrsetningu á skipi sem áður hét Saga, hefur ítrekað verið til umfjöllunar í bæði namibískum og íslenskum fjölmiðlum. Ríkissaksóknari Namibíu hefur sett fram fjölda ásakana til stuðnings kröfu um kyrrsetningu. Þetta eru í meginatriðum sömu ásakanirnar og fyrst var greint frá í nóvember á síðasta ári. Ekki hafa verið færðar sönnur á neina þeirra á því rúma ári sem liðið er frá þeim tíma.

Stjórnendur og starfsfólk Samherja eru staðráðin í því að verja fyrirtækið og tengd félög af krafti. Þá einsettum við okkur að leggja niður starfsemina í Namibíu í samræmi við lög og í góðri sátt við namibísk stjórnvöld. Skýr birtingarmynd þess er nýlegur samningur félaga sem tengjast Samherja við namibísk stjórnvöld og varðar afléttingu kyrrsetningar á togaranum Heinaste.

Við höfum alfarið neitað því að félög tengd Samherja hafi greitt mútur eða aðrar óeðlilegar greiðslur. Hvort sem það er í tengslum við reksturinn í Namibíu eða annars staðar. Við lítum svo á að greiðslur, í tengslum við reksturinn í Namibíu, séu lögmætar frá sjónarhóli félaga sem tengjast Samherja. Í tengslum við rannsókn á starfseminni í Namibíu, sem ráðist var í með fulltingi norsku lögmannsstofunnar Wikborg Rein, voru þúsundir tölvupósta yfirfarnir. Við ætlum ekki að fara í opinbera rökræðu við Ríkisútvarpið um einn þessara tölvupósta. Sérstaklega í ljósi þess að Ríkisútvarpið hefur ítrekað og kerfisbundið slitið upplýsingar úr samhengi í því skyni að valda Samherja skaða, eins og dæmin sanna. Við hvetjum fréttastofuna hins vegar til að einbeita sér að þeirri hlið sögunnar sem hún hefur hingað til virt að vettugi.

Frá því ásakanir á hendur Samherja voru fyrst settar fram höfum við ráðist í ítarlega og krefjandi rannsókn, með aðstoð lögmanna og endurskoðenda, til að komast til botns í ásökunum er snúa að starfseminni í Namibíu. Í gegnum allt þetta ferli höfum við unnið náið með þar til bærum yfirvöldum og hagsmunaaðilum fyrirtækisins og munum gera það áfram.

Virðingarfyllst,
Björgólfur Jóhannsson
forstjóri Samherja.“

 

Nánari upplýsingar veitir:

Margrét Ólafsdóttir
margret@samherji.is