Færeyingar heimsóttu Samherja á Dalvík og Samherja fiskeldi við Grindavík

Fulltrúar SMJ sem heimsóttu Samherja fiskeldi / myndir samherj.is
Fulltrúar SMJ sem heimsóttu Samherja fiskeldi / myndir samherj.is

Rúmlega fjörutíu verkfræðingar á vegum færeyska fyrirtækisins SMJ heimsóttu Samherja fiskeldi á Suðurnesjum. SMJ kemur að hönnun mannvirkja Samherja fiskeldis, svo sem nýrra seiðisstöðva félagsins á Stað við Grindavík og Silfurstjörnunnar í Öxarfirði. Þá heimsótti sveitarstjórn Runavíkur í Færeyjum fiskvinnsluhús Samherja á Dalvík, ásamt sendikvinnu Færeyja á Íslandi.

Persónuleg samskipti mikilvæg

Hjalti Bogason rekstrarstjóri Samherja fiskeldis segir að starfsmenn færeyska verkfræðifyrirtækisins í nokkrum þjóðlöndum hafi komið saman á Íslandi og meðal annars kynnt sér framkvæmdirnar á Stað.

„Við þekkjum ágætlega til þessa fyrirtækis, sem hefur verið samstarfsaðili okkar við uppbyggingu á starfseminni, nú síðast á Stað og í Öxarfirðinum. Með því að taka á móti hópnum skapaðist kærkomið tækifæri til að treysta samskiptin. SMJ er öflugt fyrirtæki á sviði verkfræðihönnunar og hefur víða komið við m.a. í uppbyggingu fiskeldisstöðva, enda fiskeldi gríðarlega stór og mikil atvinnugrein í Færeyjum, eins og við þekkjum. Svona heimsóknir eru alltaf góðar, þá gefst kærkomið tækifæri til að fara yfir málin frá ýmsum hliðum, auk þess sem persónuleg samskipti eru alltaf af hinu góða. Þetta var nokkuð stór hópur, rúmlega fjörutíu manns. Við brugðum á það ráð að fá golfskálann í Grindavík til að kynna fyrirtækið í máli og myndum og auðvitað fór dágóður tími í að skoða starfsemina og öll mannvirki.. Þetta var kærkomin heimsókn og styrkir tengslin án efa enn frekar,“ segir Hjalti Bogason rekstrarstjóri Samherja fiskeldis.

Aðbúnaður starfsfólks og hátæknin

Sveitarstjórn Runavikur í Færeyjum heimsótti fiskvinnsluhús Samherja á Dalvík og kynnti sér starfsemina. Með í för var Halla N. Poulsen, sendikvinna Færeyja á Íslandi. Gestur Geirsson framkvæmdastjóri landvinnslu Samherja og Sigurður Jörgen Óskarsson framleiðslustjóri fiskvinnslunnar á Dalvík tóku á móti gestunum og sögðu frá starfseminni.

„Við tökum nokkuð reglulega á móti erlendum hópum en satt best að segja er alltaf afskaplega ánægjulegt að fá fulltrúa frænda okkar í Færeyjum hingað norður. Sveitarstjórnarfólkið hafði greinilega mikinn áhuga á allri tækninni og þeim góða aðbúnaði sem er í nýja húsinu okkar . Svo var eðlilega nokkuð rætt hlutverk sveitarfélaganna á Íslandi varðandi ýmsa innviði, svo sem hafnarmannvirki. Atvinnulífið í Runavik byggir á sjávarútvegi, þannig að sveitarstjórnin hafði eðlilega áhuga á mörgum þáttum starfseminnar í samanburði við stöðuna í Færeyjum. Fyrir okkar var auðvitað líka kærkomið að fá tækifæri til að bera stöðuna hjá okkur saman við í Færeyjum og skiptast á skoðunum,“ segir Gestur Geirsson.

Vina- og frændþjóðir

Halla N. Poulsen sendikvinna Færeyja á Íslandi segir að heimsóknin í fiskvinnsluhús Samherja hafi verið mikils virði og lærdómsrík.

„Fiskvinnsluhús Samherja er einstaklega glæsilegt og fróðlegt að sjá íslenska hátækni. Þið standið framarlega í þessum efnum og ég er viss um heimsóknin kemur til með að nýtast sveitarstjórn Runavíkur á ýmsan hátt. Samskipti Íslands og Færeyja hafa alltaf verið einstaklega náin og þessi heimsókn sýndi enn og aftur að við erum vina- og frændþjóðir,“ segir Halla N. Poulsen sendikvinna Færeyja á Íslandi.