Falskar ásakanir í sex ár

Húsleit hjá Samherja
Mynd: Skapti/mbl.is

Húsleit hjá Samherja
Mynd: Skapti/mbl.is

Fyrir nákvæmlega sex árum, upp á mínútu, réðist Seðlabankinn í húsleit á skrifstofum Samherja á Akureyri og í Reykjavík. Samkvæmt húsleitarskýrslu bankans hófst húsleitin kl. 09:15. Þá þegar voru myndatökumenn RÚV mættir fyrir utan skrifstofur Samherja á Akureyri og í Reykjavík. Klukkan 09:21 birtist frétt á heimasíðu RÚV um húsleitina og ljóst að á þeim tímapunkti var starfsfólk Seðlabankans búið að útvega fréttamönnum RÚV allar upplýsingar og þeim gefist nægur tími til að vinna fréttirnar. Tæpri klukkustund síðar birtist fréttatilkynning á heimasíðu Seðlabankans og sendi Seðlabankinn hana einnig út um allan heim. Með þessu hófst, undir stjórn Seðlabanka Íslands, ein ruddalegasta húsleit sem framkvæmd hefur verið á Íslandi.

Óumdeilt er að rætur húsleitarinnar má rekja til rangra útreikninga Seðlabankans á fiskverði í viðskiptum Samherja við erlent dótturfélag. Seðlabankinn hefur haldið áfram með málið í alls sex ár, þrátt fyrir engar undirtektir sérstaks saksóknara, skattrannsóknarstjóra og síðast héraðsdóms, þar sem afstaða og rökstuðningur hvers embættis um sig hefði átt að duga bankanum til að láta staðar numið. Sýnt var fram á að útreikningarnir voru kolrangir og var það staðfest af dómstólum. Seðlabankinn heldur því fram í dag að meira hafi búið að baki. Það sem bankinn vísar til þar eru gjaldeyrisskil. Staðreyndin er að eigin rannsókn bankans leiddi í ljós að Samherji skilaði gjaldeyri umfram skilaskyldu auk þess sem sérstakur saksóknari sá ástæðu til að geta þess að starfsmenn Samherja hefðu gætt af kostgæfni að skila gjaldeyri til landsins. Þær átyllur bankans reyndust því líka rangar.

Seðlabankinn hefur aldrei gert tilraun til að verja upphaflegu útreikningana sem lágu til grundvallar húsleitarkröfunni. Þess í stað hefur bankinn annars vegar kosið að grafa þá djúpt í hirslum sínum og varist með kjafti og klóm að þurfa að afhenda þá. Næst útbjó bankinn nýja skýrslu um fiskverðsútreikninga og sendi til Hæstaréttar sem var haldið leyndri í meira en heilt ár. Seðlabankinn yfirgaf þá skýrslu þegar gerðar voru athugasemdir og var kæran til sérstaks saksóknara þriðja tilraun Seðlabankans til að búa til brot í karfaviðskiptum Samherja.

Seðlabankastjóri má þó eiga það að í seinni tíð hefur hann viðurkennt að upphaflegir útreikningar hafi verið rangir en hefur að sama skapi fullyrt að allir útreikningar síðar hafi verið gerðir af „topp fagfólki, stærðfræðingum og aðgerðargreinum og svo framvegis“. Fullyrti hann við mig að ekki væri hægt að tala um þetta mál sem einhverja reiknivillu. Í þessu sambandi má rifja upp vitnaskýrslu seðlabankastjóra fyrir dómi árið 2015 þar sem hann lýsti aðkomu og ábyrgð sinni og aðstoðarseðlabankastjóra á ákvörðunum um að kæra fólk og fyrirtæki til lögreglu. Bar hann fyrir dómi að þeir þyrftu að „sannfæra sig um það að nauðsynleg vinna hafi átt sér stað og að málið sé sannfærandi og ef ekki, þá að spyrja spurninga.”

Það er merkilegt þegar maður hefur þessi orð seðlabankastjóra í huga að annað hvort hefur aðstoðarseðlabankastjóri ekki fylgt þessari starfsreglu þegar hann kærði mig persónulega til lögreglu eða seðlabankastjóri hefur sagt ósatt fyrir dómi. Staðreynd málsins er sú að þegar aðstoðarseðlabankastjóri undirbjó og kærði mig til lögreglu haustið 2013 voru öll gögn málsins, sem höfðu verið haldlögð við húsleitina, enn í vörslum sérstaks saksóknara en bankinn hafði afhent þau sérstökum saksóknara þegar hann kærði Samherja í apríl sama ár. Hvernig aðstoðarseðlabankastjóra tókst að sannfæra sjálfan sig um sekt mína, gagnalaus, skil ég ekki.

Staðreyndin er sú að aldrei hefur verið fótur fyrir ásökunum um fiskverðið en í síðari tilraunum Seðlabankans er mögulega rétt hjá seðlabankastjóra að ekki hafi verið um að kenna reiknivillu heldur röngum aðferðum. Vegna þessa ritaði ég bankaráði bréf í nóvember í fyrra og óskaði eftir fundi með bankaráði þar sem bankinn veitti svör við sjö einföldum spurningum.

Ég tel rétt að birta bréfið til bankaráðsins, og þar af leiðandi upplýsa um verk seðlabankastjóra, enda sýna spurningar okkar að þó „topp fagfólkið, stærðfræðingar og aðgerðargreinar“, sem seðlabankastjóri fól að útbúa skýrslu um karfaverð Samherja, hafi reiknað rétt í þetta sinn hafi þau að öllum líkindum beitt vísvitandi röngum aðferðum til að búa til brot sem Samherji, og í kjölfarið ég persónulega, vorum kærðir til lögreglu fyrir. Vil ég í því sambandi benda á eftirfarandi en nánar er fjallað um þessi atriði í bréfi Samherja til bankaráðs sem er birt hér í viðhengi:

  • Seðlabankinn kærði meinta undirverðlagningu Samherja á karfa sem í mörgum tilvikum var allur keyptur á markaði af þriðja aðila.
  • Við mat á meintri undirverðlagningu bar Seðlabankinn saman sölur á ferskum fiski sem áttu sér margar hverjar stað með nokkurra mánaða millibili.
  • Seðlabankinn tók ekki tillit til verðmyndandi þátta á borð við sölukostnað eða mun á svokallaðri heimavigt og vigtun erlendis þrátt fyrir að staðfesta í eigin rannsóknarskýrslu að slíkir þættir skipti máli.

 

Husleit_hja_samherja

Mynd: visir.is

Þó seðlabankastjóra þyki það ekki tiltökumál að hafa stöðu sakbornings þá er slíkt flestum afar þungbært. Umgjörð þessa máls í upphafi, sem og Aserta-málsins sem ég hef áður fjallað um, var öll til þess að valda tjóni og sársauka. Blaðamenn voru skrefi á undan okkur sem borin voru sökum. Eins og ég gat um í upphafi vissi RÚV um húsleitina á undan okkur og gat undirbúið frétt um hana og um klukkustund eftir að húsleit hófst sendi Seðlabankinn sjálfur fréttatilkynningu út um allan heim. Einni og hálfri klukkustund áður en kæra á hendur mér barst sérstökum saksóknara notaði Seðlabankinn RÚV til að upplýsa þjóðina um kæruna. Að því er snertir Aserta-málið þá blés Seðlabankinn til blaðamannafundar áður en búið var að handtaka alla og kynna þeim að þeir væru til rannsóknar. Tilgangurinn var ekki vandaðir stjórnsýsluhættir. Markmiðið var ekki meðalhóf. Andmælaréttur virðist ekki til í orðabók stjórnenda Seðlabankans. Þetta var refsing. Refsing sem Seðlabankinn, án dóms og laga, ákvað að beita.

Það tekur á að standa í baráttu í sex ár. Það tók á að horfa á fimm ókunnuga einstaklinga í fimm klukkustundir framkvæma míkróleit á skrifstofunni minni. Það tekur á að sitja undir tilhæfulausum ásökunum frá jafn valdamikilli stofnun og Seðlabankanum. Það tekur á að þurfa að þurfa að leiðrétta hver ósannindin á fætur öðrum í ásökunum bankans. Það tekur á að þurfa að eyða mörgum árum í að fá upplýsingar. Það tók á að missa frá sér góða samstarfsmenn.

Það er yfir allan vafa hafið að seðlabankastjóri og aðstoðarseðlabankastjóri bera ábyrgð á því að saka mig og aðra innan Samherja ranglega um brot og kæra til lögreglu að ósekju. Yfirhylmingin, þöggunin og leyndarhyggjan sem einkennt hefur málið undanfarin ár er hins vegar einnig á ábyrgð bankaráðsformanns. Bankaráð hefur lögum samkvæmt eftirlit með störfum seðlabankastjóra sem og eignum og rekstri Seðlabankans. Undir stjórn núverandi bankaráðsformanns hefur verið reynt að færa völd bankaráðs í hendur seðlabankastjóra og hlutverk bankaráðs afmarkað við það sem e.t.v. má bera saman við hlutverk áheyrnarfulltrúa.

Þann 22. mars sl. birtist í Viðskiptablaðinu pistill Týs þar sem talað við um þetta mál sem svartan blett á ferli seðlabankastjóra. Get ég ekki annað en tekið undir það og annað sem fram kemur í pistlinum. Hins vegar mun ég ekki láta lokaorð Týs verða niðurstöðuna í þessu máli. Þetta mál, framganga seðlabankastjóra, yfirlögfræðings og bankaráðsformanns verður ekki afgreitt með þögn.

Að lokum vil ég geta þess að í tilefni ársfundar Seðlabankans eftir páska mun ég skrifa enn eitt bréf um framferði helstu stjórnenda Seðlabankans en ég reikna með að ársfundurinn verði sá síðasti undir stjórn núverandi stjórnenda bankans. Tel ég fundinn því síðasta tilefni fyrir seðlabankastjóra og bankaráðsformanns að biðja okkur starfsmenn Samherja, Aserta menn og aðra þá sem hann hefur í nafni Seðlabankans ásakað ranglega í gegnum árin, afsökunar. Eftir það mun málið vera í höndum lögmanna.

Þorsteinn Már Baldvinsson

Bréf til Bankaráðs í nóvember 2017