Uppsjávarveiðiskipið Vilhelm Þorsteinsson EA 11 og togarinn Harðbakur EA 3 lönduðu í Neskaupstað í gær. Vilhelm Þorsteinsson kom til hafnar á miðnætti með um 1700 tonn af makríl og Harðbakur EA 3 kom svo til hafnar síðdegis með nærri fullfermi, aðallega ýsu. Afli Harðbaks verður unninn í vinnsluhúsi Samherja á Dalvík, þar hófst vinnsla í morgun eftir sumarleyfi starfsfólks. Afli Vilhelms Þorsteinssonar fer til vinnslu í Neskaupstað en skipið veiðir í samvinnu við önnur uppsjávarveiðiskip Samherja og Síldarvinnslunnar.
Birkir Hreinsson er skipstjóri á Vilhelm Þorsteinssyni en sonur hans, Hreinn Birkisson, fór sem skipstjóri á Harðbak. Hreinn var í sinni fyrstu veiðiferð sem skipstjóri.
Segja má með sanni að sjómennska sé í blóði feðganna, sem ættaðir eru frá Bolungarvík. Hreinn hefur verið fyrsti stýrimaður á togara Samherja, Björgu EA 7, um árabil en Birkir hefur verið skipstjóri á skipum Samherja í áratugi.
„Þetta bar nokkuð brátt að og ég stökk á tækifærið þegar það bauðst,“ segir Hreinn aðspurður um aðdragandann að fyrstu veiðiferðinni sem skipstjóri.
Áhöfnin góð blanda
„Við vorum að veiðum í um tvo sólarhringa á Papagrunni, suður af Hornafirði. Aflabrögðin voru góð og við lönduðum í Neskaupsstað um 73 tonnum sem lætur nærri að vera fullfermi. Þetta er góður fiskur, aðallega ýsa og slatti af þorski. Það segir sig sjálft að í svona veiðiferð reynir töluvert á mannskapinn, sem er góð blanda af reynslumiklum sjómönnum og strákum sem eru svo að segja að taka sín fyrstu skref í sjómennsku. Þetta er hörku mannskapur, valinn maður í hverju rúmi getum við sagt.“
Ósparir á leiðbeiningar og góð ráð
„ Jú, jú, það er töluverður munur á því að vera skipstjóri eða fyrsti stýrimaður. Þegar maður er stýrimaður er stundum hægt að skýla sér á bak við skipstjórann. Ég bý að því að hafa starfað með afar hæfum skipstjórum í gegnum tíðina sem hafa verið ósparir á leiðbeiningar og góð ráð. Sjómennskan hefur alla tíð heillað mig og foreldrar mínir hafa stutt mig dyggilega, sem töldu heillavænlegast að ég menntaði mig til sjómennsku fyrst ég vildi fara á þessa braut.“
Góðar móttökur
„Þessi fyrsta veiðiferð mín sem skipstjóri tókst afskaplega vel og ég get ekki annað en verið sáttur og jafnframt þakklátur fyrir traustið. Karen Sif Kristjánsdóttir sambýliskona mín og tvö börn okkar voru fyrir austan í gær, þannig að við gátum fagnað saman þessum tímamótum. Pabbi var líka á bryggjunni ásamt Þorsteini Má forstjóra Samherja, þannig að móttökurnar voru ekki af verri endanum,“ segir Hreinn glaður í bragði.
Stoltir foreldrar
Harðbakur fór strax til veiða eftir löndun og er Hreinn áfram skipstjóri.
Birkir Hreinsson, faðir Hreins, segir að afar ánægjulegt hafi verið að taka á móti syninum úr sínum fyrsta túr sem skipstjóri. Eiginkona Birkis og móðir Hreins er Svala Jónsdóttir.
„ Við foreldrarnir erum auðvitað upp með okkur. Stjórnendur Samherja hafa alla tíð treyst ungu fólki til að leysa krefjandi verkefni, þannig að við vissum að einn góðan veðurdag kæmi að þessum tímamótum. Það var afskaplega notalegt að sjá Harðbak sigla inn Norðfjörðinn í gær með nærri fullfermi og soninn í brúnni. Þetta var góð byrjun hjá honum og við hjónin erum þess fullviss að Hreinn verður farsæll skipstjóri,“ segir Birkir.