Flutningar afurða hafa gengið ágætlega, þrátt fyrir alþjóðleg flækjustig og miklar verðhækkanir

Unnar Jónsson/mynd samherji.is
Unnar Jónsson/mynd samherji.is

Það er ekki nóg að veiða fiskinn og vinna, einnig þarf að koma afurðunum til kaupenda víða um heiminn á umsömdum tíma.

Í kjölfar heimsfaraldurins varð veruleg röskun á flutningaleiðum skipa, siglingaáætlanir breyttust og skipin oft fullbókuð fram í tímann með tilheyrandi erfiðleikum. Við þetta bætist að stórar gámahafnir hafa þurft að loka tímabundið og verð á flutningum milli heimsálfa hefur hækkað mikið.

Ice Fresh Seafood annast sölu- og markaðsstarfsemi á afurðum Samherja, dótturfélaga og annarra framleiðenda. Umfangið er verulegt. Fjöldi gáma í útflutningi er væntanlega um 2.500 á ári og í flugfrakt nálgast magnið 3.000 tonn sem aðallega fara til Evrópu og Ameríku.

Auk þess eru 25-30 þúsund tonn af uppsjávarfiski flutt með frystiskipum, bæði inn í Eystrasaltið og til Úkraínu í gegnum Svartahafið.

Bóka með meiri fyrirvara

Unnar Jónsson forstöðumaður flutningasviðs Samherja segir að flutningamálin á alþjóðavísu hafi vissulega verði um margt flókin í heimsfaraldrinum, þó mesta yfirlegan frá degi til dags tengist flutningi á ferskum afurðum.

„Almennt má segja að flutningar hafi gengið ágætlega. Við höfum komið afurðum á leiðarenda til viðskiptavina en stundum þurft að hafa aðeins meira fyrir því en fyrir Covid-19 faraldurinn. Lengri tíma tekur að finna leiðir og eins hefur þurft að bóka flutninga með meiri fyrirvara en við áttum að venjast. Það hefur því stundum gengið eitthvað hægar að afhenda afurðir, en mestar tafir hafa þó verið á skreiðargámum til Nígeríu þegar ég lít á allar flutningaleiðirnar sem við erum að sýsla með dags daglega,“ segir Unnar Jónsson.

Oftast pláss með fraktflugvélum

Unnar segir mesta flækjustigið oftast í tengslum við flutninga á ferskum afurðum, svo sem þorskhnökkum frá vinnsluhúsunum á Dalvík og Akureyri, en einnig heilum fiski í körum.

„Á móti kemur að við njótum þess að skipafélögin hafa á síðustu árum lagt aukna áherslu á að þjóna betur markaðinum fyrir ferskan fisk. Brottfarir frá Íslandi miðast nú helst við þarfir ferskfiskútflutnings auk þess sem fleiri skipaleiðir eru í boði en var fyrir örfáum árum. Flutningar með flugi skipta sömuleiðis miklu máli fyrir ferskan fisk og þrátt fyrir mun minna farþegaflug í faraldrinum hefur oftast verið pláss með fraktvélum. Verðin hafa reyndar hækkað, sérstaklega til Ameríku.“

Stórar gámahafnir loka og miklar verðhækkanir

„Það má kannski segja að það sem er nær okkur hafi oftast gengið betur en það sem er fjær. Það hafa orðið miklar raskanir hjá stóru alþjóðlegu gámalínunum. Það hefur verið erfiðara að fá gáma, siglingaáætlanir hafa breyst, skipin hafa oft verið full bókuð fram í tímann og bið eftir losun á skipum orsakað tafir.

Við þetta bætist svo að sumar stórar gámahafnir eins og Dalian í Kína hafa jafnvel þurft að loka tímabundið vegna fjölda fastra gáma á geymslusvæðum.

Sem betur fer virðist þetta ástand vera að færast í betra horf. Það sem eftir stendur er þó að flutningskostnaður hefur hækkað mjög mikið, sérstaklega milli heimsálfa. Til dæmis hefur kostnaðar héðan til Asíu og Vestur Afríku væntanlega hækkað um 50-60% á tveimur árum og það hefur náttúrulega ýmsar afleiðingar í för með sér.“

Innanlandsflutningar skipta miklu máli

„Athyglin beinist oft meira að flutningum milli landa, en innanlandsflutningar skipta þó auðvitað mjög miklu máli líka. Þar njótum við í raun ótrúlega góðrar þjónustu hjá Eimskip, bæði þeim sem skipuleggja aksturinn og bílstjórunum. Sjaldan kemur fyrir að fiskur komist ekki tímanlega í flug eða skip, þrátt fyrir að ófærð og slæm veður. Þó að skipin landi í Neskaupstað eða í Grundarfirði þarf fiskurinn að skila sér til vinnslu á Dalvík og í ÚA snemma næsta morgun. Eins þarf að bíða eftir að vinnslu dagsins ljúki áður en hægt er að koma fiskinum suður eða austur á land í útflutning. Með yfirlegu og góðu skipulagi gengur þetta býsna vel.“

Lykilatriði að afhenda afurðirnar á umsömdum tíma

„Við njótum góðs af því að hafa verið lengi starfandi og byggt upp traust sambönd, sem skipta miklu máli á slíkum tímum. Hjá Samherja og Ice Fresh Seafood starfar fólk með mikla reynslu í þessum efnum. Lykilatriðið í sölumálum er að koma afurðunum til kaupenda á umsömdum tíma og það hefur tekist bærilega á þessum umbrotatímum, sem vonandi eru senn að baki,“ segir Unnar Jónsson forstöðumaður flutningasviðs Samherja.