Sjúkrahúsið á Akureyri fékk góðar gjafir þegar Björg EA var formlega nefnd

Björg EA 7 var formlega nefnd við hátíðlega athöfn á togarabryggjunni á Akureyri síðastliðinn laugardag. Af því tilefni gaf Samherji Sjúkrahúsinu á Akureyri veglega peningagjöf sem nota á til að undirbúa það að koma upp hjartaþræðingu við sjúkrahúsið.

Björg EA 7 er nýjasta skip Samherja. „Endurnýjun skipaflota Samherja og Útgerðarfélags Akureyringa er stórt skref í þá átt að festa Eyjafjarðarsvæðið í sessi sem eitt öflugasta útgerðar- og fiskvinnslusvæði landsins. Útgerðarfélag Akureyringa er nú ein tæknivæddasta fiskvinnsla landsins og framkvæmdir við nýja hátæknifiskvinnslu eru hafnar á Dalvík. Slíkar vinnslur þurfa öflug skip og hafa verður í huga að oft eru veiðisvæðin langt frá Eyjafirði og veðurfarið oft erfitt. Slíkt skip liggur hér við landfestar,“ sagði Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja í ræðu sinni við athöfnina.

Gjöf til SAK til að undirbúa að setja upp hjartaþræðingu

Kristján Vilhelmsson, framkvæmdastjóri útgerðarsviðs Samherja, afhenti fyrir hönd félagsins, Sjúkrahúsinu á Akureyri (SAk) peningagjöf í tilefni dagsins. Kristján sagði við það tækifæri að Samherji hefði oft verið í þeirri aðstöðu að geta lagt fram peninga til samfélagsins á ýmsum tímamótum eins og þessum.

„Í framtíðarsýn Sjúkrahússins á Akureyri til ársins 2021 er sett fram það metnaðarfulla markmið að koma upp hjartaþræðingu við sjúkrahúsið. Undirbúningur þessa viðamikla verkefnis er í gangi og kallar á mikla fjármuni. Við höfum ákveðið á þessum tímamótum að færa Sjúkrahúsinu á Akureyri tíu milljónir króna að gjöf til að koma verkefninu af stað. Mér er það líka sönn ánægja að tilkynna það að til viðbótar mun Samherji færa Sjúkrahúsinu á Akureyri 25 milljónir króna að gjöf þegar tækin sem í verkefnið þarf verða pöntuð. Það er alveg ljóst að við höfum hæft fólk til að ljúka þessu metnaðarfulla verkefni farsællega og koma upp hjartaþræðingu við Sjúkrahúsið á Akureyri. Það er okkar og annarra að sjá til þess að framhaldið verði farsælt,“ sagði Kristján.

Læknarnir og hjartasérfræðingarnir Torfi Jónasson og Gunnar Þór Gunnarsson tóku við gjöfinni fyrir hönd sjúkrahússins.

35 ár frá komu Akureyrinnar

Þorsteinn Már minntist þess líka „að í maí eru 35 ár liðin frá því að við frændur sigldum Akureyrinni EA, fyrsta skipi Samherja, til heimahafnar á Akureyri.“ Hann sagði mikið vatn hafa runnið til sjávar síðan þá. „Þetta eru stór og mikil skref fyrir Samherja en ekki síður fyrir samfélagið í Eyjafirði. Starfsfólk Samherja hefur sett svip sinn á samfélagið og starfsemi félagsins hefur styrkt stoðir atvinnulífsins.Við ætlum að halda áfram að skrifa atvinnusögu Eyjafjarðar á kraftmikinn hátt, rétt eins og við höfum gert undanfarna áratugi.“

Jens Garðar Helgason, formaður Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi flutti ávarp og meðal annars sagði hann: „Endurnýjun íslenska fiskiskipaflotans undanfarin ár hefur verið ævintýraleg.  Hún sýnir hvaða styrkur býr í íslenskum sjávarútvegi og hvaða metnað og dugnað íslenskir útgerðarmenn hafa fyrir hönd greinarinnar.  Fjárfestingar og framþróun greinarinnar er forsenda þess að íslenskur sjávarútvegur verði áfram í fremstu röð meðal annarra þjóða.“ 

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegsráðherra óskaði útgerð og áhöfn Bjargar EA allra heilla og sagði meðal annars: „Starf sjómannsins hefur og mun alla tíð gera kröfu til hans um dugnað, hæfni og þolgæði. Með sama hætti krefur sjómannsstarfið fjölskyldu hans um samheldni og samstöðu en ekki síður æðruleysi gagnvart þeim örlögum sem starfs sjómannsins er undirorpið.

Jóhannes G. Bjarnason, formaður stjórnar Hafnasamlags Norðurlands, flutti einnig ávarp og afhenti skjöld að gjöf.

Langmæðgur gáfu skipinu nafn

Athöfninni lauk með því að Björg Finnbogadóttir, móðir Þorsteins og Katla, dóttir hans, sáu í sameiningu um að gefa hinu nýja skipi nafn með formlegum og hefðbundnum hætti. Það var vel við hæfi enda heitir skipið í höfuðið á Björgu Finnbogadóttur. Björg færði ennfremur skipstjóranum, Guðmundi Frey Guðmundssyni, sjóferðarbæn að gjöf.

Myndirnar hér fyrir neðan tók Þórhallur Jónsson hjá Pedrómyndum.

Bjorg_EA_7_nafngift

Kristján Vilhelmsson, Katla Þorsteinsdóttir, Björg Finnbogadóttir og Þorsteinn Már Baldvinsson

Bjorg_EA_7_nafngift

Björg Finnbogadóttir og Katla Þorsteinsdóttir innsigla nafngift Bjargar EA 7

Bjorg_EA_7_nafngift

Læknarnir og hjartasérfræðingarnir Torfi Jónasson og Gunnar Þór Gunnarsson ásamt Björgu Finnbogadóttur og Kristjáni Vilhelmssyni

Bjorg_EA_7_nafngift

Jens Garðar Helgason formaður Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi

Bjorg_EA_7_nafngift

Kristján Þ. Júlíusson sjávarútvegsráðherra

Bjorg_EA_7_nafngift

Fjölmenni var við athöfnina og stemningin góð í hressandi veðurfari.

Bjorg_EA_7_nafngift

Lúðrasveit Akureyrar lék fyrir og eftir athöfnina