Framkvæmdastjóri Áhættulausna: Samherji stendur framarlega í öryggismálum

Sveinn Segatta framkvæmdastjóri Áhættulausna/myndir samherji.is
Sveinn Segatta framkvæmdastjóri Áhættulausna/myndir samherji.is

Samherji leggur ríka áherslu á öryggis-, heilbrigðis- og vinnuverndarmál og vill vera leiðandi í þessum málaflokki. Til þess að ná árangri er lögð rík áhersla á faglega fræðslu um öryggi og vinnuvernd á hverri starfsstöð.

Skráðum vinnuslysum í starfsstöðvum Samherja hefur fækkað jafnt og þétt á undanförnum árum. „Fjarveruslys“ í landvinnslum voru samtals 30 árið 2017 en á síðasta ári voru þau 13. „Næstum slys“ voru 46 árið 2017 en 7 á síðasta ári. Á skipum voru „fjarveruslys“ samtals 12 árið 2017 en 7 á síðasta ári.

Fyrirtækið Áhættulausnir sérhæfir sig í ráðgjöf til fyrirtækja og stofnana á sviði vátrygginga og áhættugreininga. Sveinn Segatta framkvæmdastjóri Áhættulausna hefur áratuga reynslu á þessu sviði og hefur um langt árabil veitt Samherja ráðgjöf í öryggismálum. Hann segir að þessar tölur um fækkun slysa hjá Samherja komi ekki á óvart.

Fækkun slysa bæta lífsgæði

„Ákvörðun stjórnenda Samherja að vinna markvisst að fækkun slysa og styrkja öryggismenninguna innan fyrirtækisins skýrir þennan árangur að stórum hluta. Ég segi hiklaust að mjög vel hafi tekist til um framkvæmd verkefnisins, sem í grunninn snýst einfaldlega um bætt lífsgæði starfsmanna.“

Breytt viðhorf á öllum starfsstöðvum

Sveinn segir að öryggismál séu alltaf samvinnuverkefni allra, enginn megi skorast undan í þessum efnum. Hann segir að greinileg viðhorfsbreyting hafi orðið í öryggismálum á undanförnum árum, sem sé afar ánægjulegt.

„Hvað Samherja varðar, þá merki ég viðhorfsbreytingar í öryggismálum á öllum starfsstöðvum félagsins. Stjórnendur hafa til dæmis skynjað betur mikilvægi þess að þeir sýni gott fordæmi og starfsfólkið gerir sér enn betur grein fyrir mikilvægi þess að taka ábyrgð á sinni hegðum. Öryggishegðun er smátt og smátt að styrkjast, það er alveg greinilegt.“

Lykilatriði að hafa öryggisstjóra

Hjá Samherja hefur verið starfandi öryggisstjóri í mörg ár, sem Sveinn segir mikilvægt.

„Samherji stendur framarlega á sviði öryggis- og vinnuverndarmála, sem sést vel í mjög sterkum áherslum á öryggi í þeim nýfjárfestingum sem lagt hefur verið í undanfarin ár, bæði í nýjum skipum og landvinnslu. Lykilatriði að til staðar sé öryggisstjóri sem hefur sterkt umboð.“

Eilífðarverkefni

Þótt slysum hafi fækkað umtalsvert hjá Samherja, undirstrikar Sveinn að aldrei verði hægt að koma í veg fyrir öll slys.

„Í öryggisfræðunum er talað um a.m.k. 90% atvika eigi rót sína að rekja til mannlegra mistaka af einhverju tagi, verkefnið er að minnka líkur á því að slík mistök eigi sér stað. Umhyggja fyrir samstarfsfélögunum, opin samskipti og hæfir stjórnendur skipta yfirleitt sköpum í þessum fræðum. Sterk öryggismenning er eilífðarverkefni og við megum aldrei sofna á verðinum í öryggismálum, segir Sveinn Segatta framkvæmdastjóri Áhættulausna.“