Fréttastofa Ríkisútvarpsins misnotuð fyrir persónulegan hefndarleiðangur

Samherji birti í morgun nýja tölvupósta úr Seðlabankamálinu sem ljóstra upp um samfelld og viðvarandi samskipti Ríkisútvarpsins og Seðlabankans í aðdraganda húsleitar hjá Samherja. Þessar upplýsingar hafa ekki komið fram áður. Þvert á móti hefur því verið haldið fram að samskiptin hafi ekki átt sér stað. Nú stendur yfir lögreglurannsókn á þessu máli eftir ábendingu forsætisráðherra. Ríkisútvarpið hefur ekki séð ástæðu til að leiðrétta fyrri fréttaflutning um þetta né geta þessara nýju upplýsinga á nokkur hátt í sínum fréttum.

Í aðalsjónvarpsfréttatíma RÚV í kvöld var hins vegar flutt mjög ítarleg frétt þar sem endurfluttar voru árs gamlar ásakanir sem tengjast rekstri útgerðar í Namibíu á vegum félaga sem tengjast Samherja. Sami fréttamaður, Helgi Seljan, var aðalhöfundur hinna röngu frétta í Seðlabankamálinu og fréttarinnar nú í kvöld.

Í fimm mínútna langri frétt var sagt frá ásökunum sem komu fram í þættinum Kveik hinn 12. nóvember 2019. Þá var vísað til gagna sem Ríkissaksóknari Namibíu lagði fram í tengslum við kröfu um kyrrsetningu eigna en umrædd gögn hafa verið til umfjöllunar í fréttum, bæði hér á landi og í Namibíu, undanfarnar tvær vikur. Undir þessu voru sýndar myndir af stjórnendum og starfsfólki Samherja og fullyrt að forstjóri Samherja hafi ásamt öðrum starfsmönnum Samherja tekið þátt í skipulagðri glæpastarfsemi með þeim sex einstaklingum sem hafa setið í gæsluvarðhaldi í Namibíu.

Í lok fréttarinnar voru sýnd tölvupóstsamskipti milli ráðgjafa Samherja og stjórnarformanns namibíska útgerðarfyrirtækisins Fishcor. Rangt var farið með efni tölvupóstanna, þeir slitnir úr samhengi og þá var höfundum tölvupóstanna víxlað í fréttinni. Þannig var ráðgjafi Samherja sagður höfundur tölvupósts sem hann sendi ekki.

Það vekur sérstaka athygli að fréttamaðurinn sem vann fréttina er Helgi Seljan en Samherji birti í morgun tölvupóstsamskipti milli hans og þáverandi framkvæmastjóra gjaldeyriseftirlits Seðlabankans eins og áður segir. Tölvupóstarnir sýna að Helgi og framkvæmdastjórinn höfðu með sér samráð áður en Seðlabankinn lét framkvæma húsleit hjá Samherja hinn 27. mars 2012. Samskiptin leiða meðal annars í ljós að Helgi sendi framkvæmdastjóranum drög að frétt um húsleitina til yfirlestrar daginn áður en hún fór fram.

Það er umhugsunarvert að sjónvarpsfréttin sem flutt var í kvöld hafði aðeins að geyma endurflutning á áður birtum ásökunum og að hún var flutt sama dag og birtir voru tölvupóstar sem afhjúpa aðfinnsluverð vinnubrögð þessa sama fréttamanns. Það hlýtur að vera áhyggjuefni fyrir útvarpsstjóra og aðra sem vilja standa vörð um trúverðugleika og heilindi Ríkisútvarpsins að svo virðist sem verið sé að misnota fréttastofuna fyrir hefndarleiðangur eins manns enda getur tímasetningin varla talist tilviljun.

„Í kvöldfréttum Ríkissjónvarpsins var nánast sagt að ég væri höfuðpaurinn í skipulögðum glæpasamtökum með Namibíumönnum. Þessi fréttaflutningur er með slíkum ólíkindum að ég verð að viðurkenna að mér er verulega brugðið en er þó orðinn ýmsu vanur. Ég veit að mjög margir sjá í gegnum þetta því hér er verið að misnota fréttastofuna fyrir persónulegan hefndarleiðangur eins fréttamanns sama dag og vinnubrögð hans og samráð við Seðlabanka Íslands eru afhjúpuð. Ég mun hreinsa mig af þessum ásökunum á sama hátt og ég hef gert hingað til,“ segir Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja.

Eins og áður hefur komið fram hafa stjórnendur Samherja hafnað því að tengd félög hafi greitt mútur eða innt af hendi aðrar óeðlilegar greiðslur. Hvort sem það er í tengslum við reksturinn í Namibíu eða annars staðar. Litið er svo á að greiðslur, í tengslum við reksturinn í Namibíu, séu lögmætar frá sjónarhóli félaga sem tengjast Samherja.

Nánari upplýsingar veitir:

Margrét Ólafsdóttir
margret@samherji.is