Fréttatilkynning frá Samherja hf.

„Hjá Samherja hefur í einu og öllu verið farið að lögum hvort sem það varðar gjaldeyrisviðskipti eða önnur málefni. Þessar aðgerðir Seðlabankans í dag eru tilefnislausar og hljóta að vera byggðar á röngum upplýsingum eða öðrum ástæðum sem okkur er ekki kunnugt um hverjar eru“  segir Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri Samherja hf. Eins og fram hefur komið hefur gjaldeyrisdeild Seðlabanka Íslands staðið fyrir húsleit á skrifstofum Samherja hf. Forsvarsmenn félagsins hafa ekki fengið neinar skýringar frá Seðlabankanum á þessum aðgerðum.

 

Samherji hefur lagt sig  fram um að uppfylla allar kröfur Seðlabankans um gjaldeyrisviðskipti. Ítarlega hefur verið farið yfir alla verkferla með starfsmönnum bankans. Á síðasta ári heimsóttu þeir meðal annars höfuðstöðvar Samherja á Akureyri þar sem lögð voru fyrir þá öll þau gögn sem óskað var eftir. Engar athugasemdir bárust í kjölfar þessara samskipta.

 

Samherji hf. er alþjóðlegt sölufyrirtæki með höfuðstöðvar á Akureyri. Fyrirtækið selur ekki einungis eigin afurðir heldur einnig afurðir fjölmargra erlendra fyrirtækja.  Sú starfsemi er margþætt og er orðin flóknari með tilkomu gjaldeyrishaftanna. Svo virðist sem Seðlabanki Íslands hafi átt í erfiðleikum með að átta sig á þessum hluta starfsemi Samherja hf. Kann það að hluta til að skýra þessar sérkennilegu aðgerðir nú.

 

Talsmaður Seðlabanka íslands hefur upplýst sérstaklega í fjölmiðlun í dag að aðgerðir bankans gegn Samherja byggist á ,,ábendingu starfsmanna Kastljóss.‘‘  Ljóst er að ekki er auðvelt fyrir Samherja að leiðrétta rangfærslur sem ekki liggja fyrir hverjar eru. Þó skal þess getið vegna yfirlýsingar Seðlabankans um heimildarmenn sína  hjá Kastljósi að Samherja er kunnugt um að þátturinn hefur á undaförnum vikum talið sig vinna að rannsókn á útflutningi Samherja á karfa til Þýskalands. Er því rétt að víkja að þessu hugsanlega viðfangsefni þáttarins og setja það í rétt samhengi:

 

Samherji selur mikið magn afurða sinna í gegnum sölufyrirtækin sín, Ice Fresh og Seagold. Verðlagning í þeim viðskiptum er í alla staði rétt og eðlileg og engum gjaldeyri haldið eftir sem skila ber.  Karfaviðskiptin sem sjónvarpsþátturinn og Seðlabankinn virðast telja tortryggileg nema um það bil 0,1% af veltu Samherja. Þau viðskipti svo og öll önnur viðskipti Samherja við dótturfélög sín eru fullkomlega lögleg og í sama farvegi og þau voru löngu fyrir gjaldeyrishöftin og Seðlabankinn hefur kynnt sér. Eftir þessum reglum hefur verið farið í hvívetna.

 

,,Svo harkalegar og ómálefnalegar aðgerðir af hálfu Seðlabanka Íslands hljóta að vera einsdæmi og lýsum við fullri ábyrgð á hendur þeim sem að þeim standa‘‘, segir Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri Samherja hf. „Ég skora á Seðlabankann að leggja fram rökstuðning sinn fyrir húsleitinni til að við getum lagt okkar að mörkum til að upplýsa Seðlabankann um þá þætti sem hann vill fá skýringar á og um leið freistað þess að takmarka tjón okkar af þessari harkalegu aðgerð.“