Fyrsta rafræna öryggis- og þjálfunarhandbók íslenska fiskiskipaflotans virkjuð

Vilhelm Þorsteinsson EA í heimahöfn - Akureyri - að lokinni loðnuvertíð/mynd samherji.is
Vilhelm Þorsteinsson EA í heimahöfn - Akureyri - að lokinni loðnuvertíð/mynd samherji.is

Rafræn öryggis- og þjálfunarhandbók hefur verið virkjuð um borð í uppsjávarskipi Samherja, Vilhelm Þorsteinssyni EA., sem er jafnframt fyrsta rafræna öryggis- og þjálfunarhandbókin sem gefin er út fyrir skip í íslenska fiskiskipaflotanum. Hilmar Snorrason skólastjóri Slysavarnarskóla sjómanna segir að þessi fyrsta rafræna öryggishandbók íslenska fiskiskipaflotans sé góð fyrirmynd.

Rafræn handbók hefur meðal annars þá kosti umfram prentaða bók að hún uppfærist stöðugt.

Fjöldi QR kóða

Jóhann G. Sævarsson öryggisstjóri Samherja segir að vinna við rafrænu bókina hafi staðið nokkuð lengi yfir. Í bókinni eru m.a. QR tenglar og linkar á ýmislegt mikilvægt ýtarefni utan bókarinnar.

Eflir enn frekar öryggismenninguna

„Ég lít á þessa bók sem góða og mikilvæga fjárfestingu til framtíðar, sem staðfestir einnig vel framsýni og velvilja eigendanna sem og allra til öryggismála. Bókin mun sannarlega senda sterk og mikilvæg skilaboð til allra og mun án efa efla enn frekar þá sterku öryggismenningu sem hefur verið að byggjast upp innan fyrirtækisins síðustu árin.“

Bókin vistuð á öryggisdrif skipsins

„Bókin hefur verið sett upp á iPad, öryggisstjóri skipsins getur þá tekið iPadinn með sér í nýliðafræðsluna, æfingarnar, skoðað áhættugátlista og verklagsreglur á vettvangi og fyllt inn í gátlistana samhliða og vistað á öryggisdrif skipsins. Þannig verður öll vinnan í tengslum við öryggi skilvirkari og betri og við náum að halda betur utan um lögbundnu æfingarnar sem og þá vinnu vegna öryggis sem áhöfnin þarf að sinna um borð,“ segir Jóhann G. Sævarsson öryggisstjóri Samherja.

Eflir gæðamál

Sunneva Guðmundsdóttir gæðastjóri Samherja sér mikil tækifæri felist í notkun rafrænnar gæðahandbókar og muni iPadinn einnig nýtast vel til að halda utan um gæðamál skipsins.

„Kaupendur okkar eru kröfuharðir og því mun rafrænn aðgangur að skjölum auðvelda gæðavinnuna og gera hana skilvirkari og samhliða gefa okkur sem eru í landi tækifæri til að fylgjast enn betur með öllum ferlum. Slíkt styrkir og eflir gæðamálin til muna.“

Bókin góð fyrirmynd

Hilmar Snorrason skólastjóri Slysavarnarskóla sjómanna segir að þessi fyrsta rafræna öryggishandbók íslenska fiskiskipaflotans sé góð fyrirmynd.

„Með því að hafa öryggishandbókina á rafrænu formi getur hver og einn skipverji haft sitt eintak í snjalltæki sínu og því hæg heimatökin að nota frítíma til að auka þekkingu sína á persónulegum öryggismálum og vinnuöryggi um borð. Slíkar bækur ættu að vera um borð í hverju fiskiskipi yfir 15 metrum og því má með sanni segja að þessi fyrsta rafræna öryggishandbók sé góð fyrirmynd fyrir íslenska skipaflotann,“ segir Hilmar Snorrason.

Ekki endirinn, heldur upphafið

Kristján Vilhelmsson framkvæmdastjóri útgerðarsviðs Samherja segist fagna útgáfu bókarinnar, enda eigi öryggismál alltaf af vera í fyrirrúmi.

„Það hefur verið lögð nokkuð mikil vinna í þessa útgáfu. Þótt bókin sé nú komin út, lítum við svo á að þetta sé ekki endirinn á ferlinu heldur upphafið. Slys gera ekki boð á undan sér og þess vegna eru öryggismálin svo mikilvæg, það má aldrei slaka á kröfunum. Sem betur fer eru áhafnirnar okkar vel meðvitaðar í þessum efnum og ég er sannfærður um að fleiri rafrænar bækur muni líta dagsins ljós á næstu misserum. Þetta er nokkuð stórt framfararskref og ég er þakklátur öllum þeim er komu að þessu verki.“