Gamla fiskvinnsluhús Samherja á Dalvík í nýju hlutverki

Í gamla fiskvinnsluhúsi Samherja á Dalvík eru skrifstofur framleiðenda þáttanna og þar er leikmunade…
Í gamla fiskvinnsluhúsi Samherja á Dalvík eru skrifstofur framleiðenda þáttanna og þar er leikmunadeildin sömuleiðis til húsa / myndir samherji.is

Tökur á bandarísku spennuþáttunum True Detective standa nú yfir á Dalvík og hefur miðbærinn heldur betur tekið breytingum, hluti bæjarins hefur verið klæddur í gervi lítils bæjar í Alaska-ríki í Bandaríkjunum. Í gamla fiskvinnsluhúsi Samherja á Dalvík eru skrifstofur framleiðenda þáttanna og þar er leikmunadeildin sömuleiðis til húsa. Nokkrir starfsmenn Samherja á Dalvík hafa ráðið sig í aukahlutverk.

Gamla fiskvinnsluhúsið „algjörlega sniðið að okkar þörfum“

„Það er hreint út sagt frábært að vera hérna á Dalvík, allir íbúarnir taka vel á móti okkur og leggja sig fram um að gera alla vinnu sem þægilegasta. Sömu sögu er að segja um sveitarfélagið og öll fyrirtæki, sem eru boðin og búin til að greiða götu okkar á allan hátt. Við segjum stundum að gamni að smábærinn sé í Dalaska en ekki í Alaska, sem undirstrikar hversu heppin við erum með alla aðstöðu hérna á Dalvík,“ segir verkefnastjóri framleiðandans.

Skrifstofur framleiðandans eru í gamla frystihúsi Samherja á meðan tökur standa yfir á Dalvík. Þar er leikmunadeildin sömuleiðis með aðstöðu, enda margar hentugar vistarverur í húsinu undir slíka starfsemi. Í gamla vinnslusalnum hafa til dæmis smiðir aðstöðu, einnig málarar og aðrir iðnaðarmenn. Það má því með sanni segja að þetta gamla og góða hús hafi fengið nýtt hlutverk tímabundið. „Húsið er algjörlega sniðið að okkar þörfum og við erum afskaplega þakklát Samherja fyrir að hleypa okkur inn í húsið með tiltölulega skömmum fyrirvara,“ segir verkefnastjórinn.

Þurfti að raka af sér skeggið – Góð auglýsing fyrir Dalvík

Íbúar Dalvíkurbyggðar hafa verið ráðnir til að leika í þessari heimsfrægu þáttaröð. Nokkrir starfsmenn Samherja á Dalvík hafa ráðið sig til starfa, einn þeirra er Friðjón Árni Sigurvinsson.

„Ég var langt fram á nótt í tökum en mætti hress og kátur í vinnuna í morgun. Síðan fer ég aftur síðdegis í tökur, þetta er þrælskemmtilegt og fín tilbreyting frá hversdagsleikanum. Annars má maður ekkert segja, trúnaðurinn í kringum svona lagað er mikill. Ég get þó sagt að mitt hlutverk tengist lögreglustöðinni á staðnum, meira má ég ekki segja. Jú, ég verð að viðurkenna að ég þurfti að raka af mér skeggið vegna hlutverksins en það vex aftur,“ segir Friðjón Árni. „Nei, ég á svo sem ekkert von á einhverjum tilboðum frá Hollywood í kjölfarið en auðvitað verður gaman að sjá útkomuna þegar sýningar hefjast. Ég held að þetta verði góð auglýsing fyrir Dalvík,“ segir Friðjón Árni.

Útliti húsa breytt og götum lokað

Þættirnir hafa notið mikilla vinsælda og er nú verið að taka upp fjórðu þáttaröðina. Með aðalhlutverkið fer hin heimsfræga leikkona Jodie Foster.

Í byrjun febrúar verða kvikmyndatökur við og á Dalvík. Búið er að klæða mörg hús að utan og byrgja glugga, þannig að leikmyndin verði sem raunverulegust.

Umfangið er mikið við gerð stórra og vinsælla sjónvarpsþátta og komast bæjarbúar ekki hjá því að verða varir við öll umsvifin. Þannig raskast umferð og loka þarf götum, svo tökur gangi greiðlega fyrir sig.