Loðna hefur fundist á stórum hluta yfirferðarsvæðis Hafrannsóknarstofnunar. Mesti þéttleikinn mældist austur af landinu og út af Húnaflóa. Búist er við að nákvæmar upplýsingar liggi fyrir síðar í vikunni um hversu mikið magn af loðnu er raunverulega um að ræða og að í kjölfarið verði gefnar út auknar veiðiheimildir.
Uppsjávarskip Samherja, Vilhelm Þorsteinsson EA 11 er í Neskaupstað til að taka um borð loðnunót en skipið var áður á kolmunnaveiðum.
Birkir Hreinsson skipstjóri segir þetta afskaplega gleðileg tíðindi.
Aukin bjartsýni
„ Það á að vísu eftir að koma í ljós hversu mikið magn er þarna á ferðinni en þetta er fyrst og fremst jákvætt. Síðustu tvö árin hafa nú ekki verið beysin hvað loðnuna varðar. Við verðum klárir eftir að nótin verður komin um borð og bíðum líklega eftir því að kvóti verði gefinn út. Hafrannsóknarstofnun lagði til í haust að hámarksaflinn verði rúmlega 43 þúsund tonn en miðað við þessar nýju fréttir erum við vongóðir um að sú tala hækki talsvert. Auðvitað hafði maður lifað í voninni um auknar heimildir og fréttir helgarinnar auka vissulega á bjartsýnina. Það eru miklir hagsmunir í húfi, ekki bara fyrir okkur, heldur þjóðarbúið allt,“ segir Birkir Hreinsson skipstjóri á Vilhelm Þorsteinssyni.


