Góður gangur hjá skipum Samherja og Útgerðarfélags Akureyringa á 40 ára tímamótum

Björgúlfur og og Kaldbakur lönduðu fullfermi 1. maí 2023 í Hafnarfirði/ myndiir samherji.is
Björgúlfur og og Kaldbakur lönduðu fullfermi 1. maí 2023 í Hafnarfirði/ myndiir samherji.is

Skip Samherja og Útgerðarfélags Akureyringa hafa aflað vel síðustu daga, þetta á við bæði bolfisk-, uppsjávarskipin og frystitogara félagsins.

1. maí voru liðin nákvæmlega 40 ár frá því Guðsteinn GK sigldi inn Eyjafjörð. Frændurnir Kristján Vilhelmsson, Þorsteinn Már Baldvinsson og Þorsteinn Vilhelmsson höfðu þá keypt nær allt hlutafé í Samherja hf. í Grindavík, sem hafði gert Guðstein út og fluttu þeir starfsemi félagsins til Akureyrar. Það er því ekki út vegi að taka saman hvar fiskiskip félagsins voru stödd þann 1. maí á því herrans ári 2023.

Systurskipin Björgúlfur, Kaldbakur og Björg

Björgúlfur EA 312 og Kaldbakur EA 1 voru í Hafnarfirði á þessum tímamótum í sögu Samherja, þar sem landað var úr skipunum.

„Þetta voru 175 tonn og aflinn nokkuð blandaður. Túrinn tók sex sólarhringa og við vorum á Eldeyjarbanka og Fjöllunum í fínasta veðri allan tímann. Reyndar hefðum við gjarnan viljað vera með hærra hlutfall af ufsa en þetta er bara svona, ufsinn getur verið dintóttur. Við erum þrettán, allt saman hörku karlar og samheldnir. Áhöfnin er svo að segja tvöföld, eins og á öðrum skipum félaganna. Að þessu sinni fór skipið í svokallaða búnaðarskoðun, sem er árviss og svo var haldið á miðin á nýjan leik. Þetta snýst meðal annars um að vera inni á réttum tíma, þannig að vinnsluhúsin fái nægt hráefni á hverjum degi,“ segir Kristján Salmannsson, skipstjóri á Björgúlfi.

Sigtryggur Gíslason er einn reyndasti skipstjóri íslenska flotans og hefur starfað hjá Samherja í um 36 ár. Afli Kaldbaks var 150 tonn.

„Það vantaði ekki nema fimm eða sex tonn til að teljast vera með fullfermi, þannig að þetta var góður túr hvað það varðar og bara gaman að koma til löndunar á þessum tímamótum. Við vorum á svipuðum slóðum og Björgúlfur, aðallega á Eldeyjarbanka. Það er liðið nokkuð á kvótaárið og áherslan í dag er að ná í ufsa en það bara ekki mikið af honum þessar vikurnar. Við komum til með að reyna áfram að við ufsann, þannig að þetta eru hálfgerðar óvissuferðir hjá okkur, getum við sagt. Það er hins vegar nóg af þorski í sjónum, það vantar ekki. Við erum þrettán í áhöfn og það eru alltaf einhver skipti í hverri inniveru, eins og gengur og gerist. Á meðan við erum á núverandi veiðislóðum er hagstæðast að landa fyrir sunnan en líklega færum við okkur austar eða vestar á næstunni. Stoppið í landi er ekki langt, það er venjulega byrjað að landa strax eftir að skipið leggst að bryggju og svo er haldið til veiða sem fyrst eftir að þeirri vinnu lýkur,“ segir Sigtryggur Gíslason skipstjóri.

Björg EA 7 var á veiðum 1. maí. Skipið landaði svo í vikunni í Hafnarfirði, líkt og hin systurskipin.

Árni Rúnar Jóhannesson skipstjóri segir að veiðiferðin hafi einkennst af siglingum milli veiðisvæða. Aflinn var 125 tonn, um helmingur þorskur.

„Þetta voru sex sólarhringar en togað í 73 tíma, þannig að það fór mikill tími í siglingar. Við byrjuðum út af Snæfellsjökli á Flugbrautinni svokölluðu, þaðan var haldið vestur í Víkurálinn til að athuga með ufsa, síðan var togað út af Látrabjargi og loks endað á Eldeyjarbanka. Þetta er frábært hráefni, þar sem toga þurfti í skamman tíma eftir þorski og ýsu. Þetta er það besta sem maður kemst í. Eins og á hinum systurskipunum eru þrettán í áhöfn og núna fer um helmingur í land og aðrir taka við. Já, mér finnst þessi árstími afskaplega skemmtilegur, maður er svo að segja laus við óveður. Þótt töluverður tími hafi farið í siglingar, er alltaf sérstaklega gaman að koma með svona flott hráefni, eins og eftir þennan túr,“ segir Árni Rúnar Jóhannesson.

Harðbakur með fullfermi

Harðbakur EA 3 var á veiðum 1. maí og landaði í vikunni í Hafnarfirði um 80 tonnum, sem er fullfermi.

„Við hófum túrinn á Akureyri og fengum þennan afla svo að segja á leið okkar hingað suður á vertíðarsvæðin. Hérna verðum við eins og venjulega á þessum árstíma. Þetta er blandaður afli og vænn fiskur. Túrinn tók fjóra og hálfan sólarhring og veðrið var eins og best verður á kosið. Við erum ellefu í áhöfn og það eru alltaf einhver skipti við hverja innkomu. Sjálfum finnst mér vorið og byrjun sumars besti árstíminn fyrir togveiðar á Íslandsmiðum. Það er oftast góð veiði á þessum tíma í flestum tegundum og svo er ekki sama glíman við veðrið eins og yfir vetrarmánuðina. Flest verður þægilegra, bæði fyrir menn og skip, þannig að það er bara bjart yfir okkur á þessum tímamótum í sögu Samherja,“ segir Guðmundur Ingi Guðmundsson skipstjóri.

Björgvin sigldi inn Eyjafjörð 1. maí

Björgvin EA 311 hefur að undanförnu stundað veiðar í norskri lögsögu. 1. maí var skipið hins vegar einmitt á slóðum Guðsteins fyrir 40 árum síðan, því Björgvin sigldi inn Eyjafjöð sl. mánudag, 1. maí. Oddur Brynjólfsson skipstjóri segir að tilfinningin hafi verið mjög sérstök að sigla inn fjörðinn á sjálfan afmælisdaginn. Hann sjálfur fagni auk þess 20 ára starfsafmæli hjá Samherja innan tíðar. Björgvin er sem stendur í Slippnum á Akureyri, vél verður meðal annars uppfærð og skipið málað.

Góður gangur hjá uppsjávarskipunum

Vilhelm Þorsteinsson EA 11, uppsjávarskip Samherja kom til Neskaupstaðar 1. maí, með um 3,300 tonn af kolmunna. Guðmundur Þ. Jónsson skipstjóri segir veiðisvæðið suður af Færeyjum og þaðan er um 380 sjómílna sigling til Neskaupstaðar.

„Já, vertíðin hefur gengið vel, heilt yfir og veiðin góð. Það er meiri kolmunni í hafinu núna en undanfarin ár. Torfurnar eru á norðurleið og vonandi sjáum við hana í íslenskri lögsögu í auknum mæli. Kolmunnaveiðar eru nokkuð frábrugðnar öðrum uppsjávarveiðum, skipin þurfa mjög stór troll, þannig að þetta er nokkuð kostnaðarsamur veiðiskapur. Lykilatriðið er að vera með öflug skip með góðum kælitönkum. Vilhelm Þorsteinsson EA hefur komið mjög vel út frá því við tókum við skipinu. Við erum átta í áhöfn, það skiptir afskaplega miklu máli að vera með góðan mannskap og það eru við svo sannarlega,“ segir Guðmundur Þ. Jónsson.

Margrét EA 710 er nýjasta skipið í flota Samherja og er uppsjávarskip. Skipið, sem keypt var frá Skotlandi, hét Cristina S og var smíðað í Noregi 2008. Margrét var á kolmunnaveiðum 1. maí en landaði í vikunni á Seyðisfiði svo að segja fullfermi. Hjörtur Valsson er skipstjóri.

„Þetta voru rétt um 1,800 tonn og það tók tæpan sólarhring að landa úr skipinu, sem getur borið allt að tvö þúsund tonn í þrettán kælitönkum. Þetta var þriðji túrinn okkar á kolmunna og hráefnið er mjög gott. Áhöfnin er afskaplega ánægð með skipið, sem er bæði vel tækjum búið og vel með farið á allan hátt. Vélin hefur til dæmis aðeins verið keyrð í rúmlega sextán þúsund klukkustundir. Veðrið í síðasta túr var fínt og þannig hefur það reyndar verið það sem af er þessari vertíð. Þetta er töluverð sigling fram og til baka og þá skiptir miklu máli að vera með góða kælitanka, þannig að hráefnið geymist sem best.“

Snæfell á Grænlandssundi

Snæfell EA 310 frystitogari Samherja var á Hampiðjutorginu á Grænlandssundi 1. maí. Áður hafði skipið landað um 600 tonnum af blönduðum afurðum á Akureyri.

Þar sem aflinn er unninn og frystur um borð eru veiðiferðirnar mun lengri en hjá ferskfisktogurunum, eða um einn mánuður.

Samherji keypti togarann á síðasta ári og í kjölfarið hafa verið gerðar ýmsar endurbætur á skipinu. Skipið var heil-málað, bæði að innan og utan, vistarverur voru endurgerðar að stórum hluta og einnig sameiginleg rými. Þá hefur verið unnið að endurnýjun á vinnslulínum. 

„Við erum fyrst og fremst að eltast við grálúðu og karfa. Þetta er fjórða veiðiferð ársins en á síðasta ári voru farnar þrjár ferðir undir merkjum Samherja. Við erum núna á hefðbundnum veiðislóðum á Grænlandssundi og erum í blíðskapar veðri. Í áhöfn eru 22 og segja má að hún sé tvöföld, enda túrarnir nokkuð langir. Snæfell er mjög öflugur togari og hérna er valinn maður í hverju rúmi, þannig að þetta er allt saman í góðum málum,“ segir Stefán Viðar Þórisson skipstjóri.