Guðbjörg Ósk Sveinsdóttir er Íþróttamaður Dalvíkurbyggðar 2025

Guðbjörg Ósk Sveinsdóttir Íþróttamaður Dalvíkurbyggðar 2025 með bikarinn. Guðbjörg Ósk er gæðastjóri…
Guðbjörg Ósk Sveinsdóttir Íþróttamaður Dalvíkurbyggðar 2025 með bikarinn. Guðbjörg Ósk er gæðastjóri Samherja/ mynd: Dalvíkurbyggð.

Guðbjörg Ósk Sveinsdóttir gæðastjóri Samherja var um helgina kjörin Íþróttamaður Dalvíkurbyggðar 2025.

Guðbjörg er vel að titlinum komin en hún varð Íslandsmeistari kvenna í snocrossi á vélsleða, akstursíþróttakona ársins hjá Mótorhjóla- og snjósleðaíþróttasambandi Íslands og þá var Guðbjörg Ósk valin nýliði ársins 2025 hjá sambandinu.

Kjörinu á íþróttamanni Dalvíkurbyggðar var lýst við hátíðlega athöfn í menningarhúsinu Bergi á Dalvík.

Setti markið hátt og uppskar

„Síðasta ár var ansi viðburðarríkt hjá mér í snocrossinu, ég setti mér háleit markmið og þau gengu eftir og gott betur. Þessi heiður kom mér á óvart, því í sveitarfélaginu eru margir sem náðu góðum árangri á landsvísu.

Ég get ekki annað en verið stolt og jafnframt þakklát fyrir þennan heiður, sem vonandi er hvatning til sem flestra um að stunda íþróttir. Vélsleðaíþróttin er nokkuð dýrt sport en ég er svo heppin að njóta góðs stuðnings frá fjölskyldu minni, nærsamfélaginu og fyrirtækjum, svo sem Samherja. Stundum hef ég þurft að fá frí frá vinnunni til að taka þátt í keppnum og það hefur alltaf verið auðsótt mál og lausnir fundnar. Það var líka gaman að mæta til vinnu í morgun, það er greinilegt að samstarfsfólkið samgleðst, sem er bara frábært, “ segir Guðbjörg Ósk Sveinsdóttir.

Hjartanlega til hamingju Guðbjörg Ósk !