Hafnargjöldin sem Samherji og ÚA greiða vega þungt í rekstri hafnasjóða við Eyjafjörð

Björg EA landar á Dalvík.
Björg EA landar á Dalvík.

Samherji og Útgerðarfélag Akureyringa, sem er í eigu Samherja, greiddu Hafnasamlagi Norðurlands og Dalvíkurhöfnum samtals 110,7 milljónir króna í hafnargjöld á síðasta ári. Fyrirtækin eru afar mikilvægir viðskiptavinir þessara norðlensku hafna.

Togarar Samherja og ÚA landa að mestu á Akureyri og Dalvík, enda fiskvinnsluhús félaganna þar.

Samkvæmt lögum skal greiða tilheyrandi gjöld til viðkomandi hafnarsjóðs, ef skip kemur inn í höfnina og nýtur þjónustu þar.

 64,9 milljónir til Hafnarsamlags Norðurlands

Samkvæmt ársreikningi Samherja fyrir síðasta ár námu hafnargjöld til Hafnasamlags Norðurlands samtals 64,9 milljónum króna. Til hafnargjalda teljast lestar- og bryggjugjöld, móttaka og vigtun á sjávarafla.

Hafnasamlag Norðurlands rekur hafnirnar á Akureyri, Grímsey, Hrísey, Hjalteyri, Svalbarðseyri og Grenivík.

Heildartekjur samlagsins námu 388 milljónum króna á síðasta ári.

Starfsemi Samherja mikilvæg

Pétur Ólafsson hafnarstjóri segir að Samherji og ÚA séu gríðarlega mikilvægir viðskiptavinir Hafnasamlags Norðurlands, tölurnar sýni það glögglega.

„Sem betur fer erum við ekki með öll eggin í sömu körfunni. Skemmtiferðaskipin hafa skipt okkur miklu máli en tekjur vegna þeirra brustu algjörlega í fyrra vegna heimsfaraldursins. Góðu heilli tókst Samherja og ÚA að gera út flotann í faraldrinum og gátu séð fiskvinnsluhúsunum fyrir hráefni. Ef það hefði ekki gengið upp, hefðu tekjur okkar dregist enn frekar saman með tilheyrandi afleiðingum,“ segir Pétur.

Hlutfallið hátt hjá Dalvíkurhöfnum

Samherji og ÚA greiddu samtals 45,8 milljónir króna í hafnargjöld til Dalvíkurhafna á síðasta ári.

Hafnartekjurnar voru 91,7 milljónir króna, samkvæmt ársreikningi Dalvíkurhafna. Tekjurnar vegna skipa Samherja og ÚA voru því um helmingur.

Katrín Sigurjónsdóttir sveitarstjóri er jafnframt hafnarstjóri. Hún segir að þessar tölur sýni glögglega mikilvægi Samherja í Dalvíkurbyggð.

„Þessar tölur undirstrika með áberandi hætti mikilvægi Samherja í sveitarfélaginu. Höfnin er á margan hátt okkar lífæð og þar vega tekjur vegna starfsemi Samherja þungt í allri tekjuöflun,“ segir Katrín Sigurjónsdóttir sveitarstjóri og hafnarstjóri í Dalvíkurbyggð.