Hákon endurkjörinn í stjórn Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi

Hákon Þ. Guðmundsson/myndir samherji.is
Hákon Þ. Guðmundsson/myndir samherji.is

Hákon Þ. Guðmundsson útgerðarstjóri Samherja var endurkjörinn í stjórn Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) á ársfundi samtakanna, sem haldinn var föstudaginn 24. mars. Hann þekkir vel til starfsemi SFS, var í stjórn árin 2019-2020 og 2022. Þá hefur Hákon tekið þátt í málefnavinnu og stefnumótun á vegum samtakanna í gegnum tíðina, svo sem á sviði umhverfismála.

Hákon hefur starfað á útgerðarsviði Samherja í nærri tvo áratugi, áður var hann skipstjóri á skipum félagsins.

Sjávarútvegurinn er burðarás atvinnulífsins

„Setan í stjórn SFS hefur á margan hátt verið gefandi og ég er þakklátur fyrir það traust sem mér er sýnt með því að velja mig til þessara ábyrgðarstarfa. Sjávarútvegurinn er mögnuð atvinnugrein og burðarás atvinnulífsins ansi víða. Þrátt fyrir samdrátt í veiðiheimildum á bolfiski á síðasta fiskveiðiári, var útflutningsverðmæti þorskafurða í sögulegu hámarki. Reyndar er það svo að útflutningsverðmæti þorskafurða hafa aukist ár frá ári í rúman áratug, sem sýnir svart á hvítu hversu öflug greinin er. Laxeldi hefur veruleg jákvæð áhrif víða á landsbyggðinni, sérstaklega fyrir austan og vestan. Víða er mikil uppbygging í gangi og íbúum fjölgar. Neikvæðri byggðaþróun hefur sem sagt verið snúið við, sem er afskaplega jákvætt.“

Frumkvöðlastarf áberandi í sjávarútvegi

„Sjávarútvegur er leiðandi í innleiðingu margra tækninýjunga og hefur skapað ný störf á sviði hátækni. Ágætt dæmi um þetta eru fiskvinnsluhús Samherja á Dalvík og Útgerðarfélags Akureyringa á Akureyri, einnig skipafloti félaganna. Íslenskur sjávarútvegur er mjög framarlega á heimsvísu á mörgum sviðum og ef rétt er á spilunum haldið, höfum við alla burði til að halda þeirri stöðu.“

Ábyrg og góð umgengni um auðlindina

Hákon hefur mjög látið til sín taka á sviði umhverfismála, bæði fyrir Samherja og innan vébanda Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.

„Já, ég hef haft áhuga á umhverfismálum sjávarútvegsins í langan tíma, enda skiptir hreinleiki lands og sjávar höfuðmáli við nýtingu verðmæta sem hafið hefur að geyma, það er bara svo einfalt. Góð umgengni í sátt við náttúruna er lykilatriði og forsenda þess að fiskistofnarnir verði nýttir um ókomin ár. Góðu heilli hefur losun gróðurhúsaáhrifa frá sjávarútvegi minnkað verulega, en það þýðir ekki að okkur sé óhætt að halla okkur aftur í sófanum og láta gott heita.

Við höfum alla burði til að gera enn betur, klárlega. Í þessu sambandi nefni ég til dæmis breytingar sem gerðar hafa verið á endurvinnslukerfi veiðarfæra í samræmi við ný lög um hringrásarkerfi og samfélagsstefnu sjávarútvegsins. Sjávarútvegsfyrirtæki hreinsa og flokka veiðarfæri og koma þeim til endurvinnslu. Við höfum náð að tvöfalda útflutning á veiðarfærum til endurvinnslu og teljumst í dag vera frumkvöðlar á heimsvísu í þessum efnum,“ segir Hákon Þ. Guðmundsson stjórnarmaður í Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi.