Harengus siglir með 4.000 tonn gegnum Magellansund

Harengus, annað flutningaskipa Samherja, er um þessar mundir að lesta í San Vicente í Chile 4.000 tonnum af uppsjávarfiski sem á að fara á markað í Nígeríu. Skipið, sem er í leiguverkefnum hjá Green Sea í Belgíu, sigldi í gegnum Magellansund á leiðinni vestur fyrir Suður-Ameríku og var öll siglingin fest á filmu.

Það þótti viðeigandi að mynda ferðalagið þar sem að á þessu ári eru liðin 500 ár frá landafundum portúgalska landkönnuðarins Ferdinand Magellan. Það var í október 1520 sem Magellan fann sundið milli Atlantshafs og Kyrrahafs og fékk það síðar nafnið Magellansund. Magellan fór þar fyrir fyrstu hnattsiglingunni en náði þó ekki að ljúka henni því hann lést áður en það tókst að loka hringnum.

Harengus, sem er skráð í Færeyjum og var smíðað 1992, er flutningaskip með frystilestum þar sem kössum er laushlaðið um borð. Uppsjávarfiski frá Suður-Ameríku er aðallega skipað þaðan í frystigámum en vegna gámaskorts sem má rekja til Covid-19 heimsfaraldursins var Harengus bókaður í þennan flutning.

Lestun á farminum í San Vicente hefur gengið vel og á Harengus að sigla til baka í gegnum Magellansund eftir nokkra daga. Sjóleiðin frá San Vicente til Nígeríu er nærri 6.400 mílur og mun siglingin taka um þrjár vikur.

Myndskeiðið frá siglingunni í gegnum Magellansund má sjá hér.