Heimildarþáttur um upphaf Seðlabankamálsins

Samherji birti í dag heimildarþátt um upphaf svokallaðs Seðlabankamáls. Í þættinum, sem Samherji lét framleiða, koma fram nýjar og áður óbirtar upplýsingar um málið.

Hinn 27. mars 2012 var sýndur á RÚV þáttur Kastljóss sem markaði upphaf málsins en í þættinum var sagt frá meintri sölu Samherja á karfa á undirverði til dótturfélaga erlendis. Þátturinn og fullyrðingar þáttastjórnandans, Helga Seljan, byggðu allar á „skýrslu Verðlagsstofu skiptaverðs“ eins og áhorfendum var ítrekað sagt í þættinum. Var umrædd „skýrsla“ því aðal heimild Ríkisútvarpsins við vinnslu þáttarins.

Nú er komið í ljós að skýrslan var aldrei unnin af Verðlagsstofu skiptaverðs sem hefur staðfest það í bréfi til Samherja. „Ég er búin að renna yfir öll gögn þess máls sem á sínum tíma laut að karfarannsókn Verðlagsstofu og hafði samband við fyrrum starfsmann Verðlagsstofu sem kom með mér að rannsókn þessa máls. Engin skýrsla var samin,“ segir í tölvupósti frá deildarstjóra stofnunarinnar til Samherja hinn 4. apríl 2020.

Í þættinum, sem nálgast má hér neðar, er farið ítarlega yfir framangreint. Þá er jafnframt birt leynileg upptaka af Helga Seljan þar sem hann viðurkennir að hafa ekki fengið neinn hjá Verðlagsstofu skiptaverðs til að staðfest að „skýrslan“ hefði verið unnin hjá stofnuninni. Þá viðurkennir hann einnig að hafa þurft að eiga við skjalið. 

„Ég náttúrulega reyndi einhvern veginn að ræða við þessa gæja sem voru í Verðlagsnefndinni (svo). Ég fékk aldrei neitt upp úr þeim. Ekki einu sinni upp úr Guðmundi hvort að þeir hefðu fengið þessa skýrslu. Ég man að þess vegna þurfti ég að fara í gegnum hana og tékka hana af. Af því ég gat ekki fengið neinn til að staðfesta fyrir mér að hún væri þarna. Gögnin voru þannig að ég var búinn að þurfa að eiga við sko, skýrsluna,“ segir Helgi Seljan á upptökunni.

Samherji hefur haft aðgang að umræddri hljóðupptöku í sex ár en hún var hljóðrituð af fyrrverandi rannsóknarlögreglumanni sem fékk það verkefni að afla upplýsinga um tilurð Seðlabankamálsins. Ástæður þess að Samherji telur rétt að birta þessar upplýsingar núna eru tvíþættar. Annars vegar hefur ríkisstofnunin, sem átti að hafa unnið skýrsluna, staðfest að skýrslan var aldrei unnin þar. Hins vegar er nauðsynlegt að almenningur viti hvernig trúnaðarmaður fólksins, fréttamaður á Ríkisútvarpinu, fer með heimildir, breytir þeim og hagræðir og lagar fréttaflutning að eigin geðþótta. Þannig telur Samherji að upptakan eigi brýnt erindi við almenning.

Vinnubrögð Helga Seljan og RÚV hafa valdið einstaklingum og fyrirtækjum stórfelldu tjóni. Hér er því um að ræða upplýsingar sem þjóðfélagslega nauðsynlegt er að almenningur í landinu fái vitneskju um.

Þátt um Seðlabankamálið má nálgast hér  

 

Nánari upplýsingar veitir:
Margrét Ólafsdóttir
margret@samherji.is